Eins stigs baráttusigur í Garðabæ

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af krafti en Brian Mills skoraði fyrstu stig leiksins með góðu þriggja stiga skoti eftir að hafa varið skot á hinum enda vallarins. Þetta virtist kveikja í Garðbæingum sem tóku frumkvæðið og léku öfluga vörn í upphafi leiks en Snæfell skoraði sín fyrstu stig af gólfinu eftir tæpar 4 mínútur. Upphafs mínúturnar voru hálfgert einvígi milli bandaríkjamannanna Jarrid Frye hjá Stjörnunni og Jay Threatt hjá Snæfellingum en Frye virtist geta skorað að vild og Threatt var einkar fingralangur í vörn Hólmara, stal boltanum trekk í trekk og skilaði auðveldum stigum í hús…….

Það var sannkallaður toppslagur í Ásgarði þegar Snæfellingar heimsóttu Stjörnuna. Hólmarar áttu harma að hefna en Garðabæjarliðið gerði góða ferð í Stykkishólm á dögunum og tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum. Stjörnumenn léku án Marvins Valdimarssonar sem sat borgalega klæddur meðal varamanna vegna meiðsla.

 
Stjörnumenn byrjuðu leikinn af krafti en Brian Mills skoraði fyrstu stig leiksins með góðu þriggja stiga skoti eftir að hafa varið skot á hinum enda vallarins. Þetta virtist kveikja í Garðbæingum sem tóku frumkvæðið og léku öfluga vörn í upphafi leiks en Snæfell skoraði sín fyrstu stig af gólfinu eftir tæpar 4 mínútur. Upphafs mínúturnar voru hálfgert einvígi milli bandaríkjamannanna Jarrid Frye hjá Stjörnunni og Jay Threatt hjá Snæfellingum en Frye virtist geta skorað að vild og Threatt var einkar fingralangur í vörn Hólmara, stal boltanum trekk í trekk og skilaði auðveldum stigum í hús.

 

Jafnt var á öllum tölum en Snæfelllingar leiddu eftir fyrsta leikhluta, staðan 21-23. Frye kominn með 12 stig hjá þeim bláklæddu en Threatt með 8 hinum megin. Jón Ólafur Jónsson fékk sína þriðju villu seint í leikhlutanum og deginum ljósara að það gæti gert róðurinn erfiðan fyrir Hólmara enda lykilmaður þar á ferð.
 

Snæfellingar mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og náðu 9 stiga forskoti í stöðunni 31-22, Jarrid hélt áfram uppteknum hætti hjá Stjörnunni og hreinlega bar uppi sóknarleik liðsins á meðan stigaskor dreifðist mun betur hjá leikmönnum Snæfells, Pálmi Freyr og Sigurður Þorvaldsson áttu afar góða innkomu af bekknum og hreinlega röðuðu niður þriggja stiga skotunum. Fyrrum Snæfellingurinn Justin Shouse lét fremur lítið fyrir sér fara og skoraði sín fyrstu stig eftir um 15 mínútna leik. Að sama skapi var Jón Ólafur meðvitundarlítill í sóknarleik Snæfells en hann virtist láta ágengan varnarleik Stjörnunnar fara í taugarnar á sér á köflum.

 

Jón fékk sína fjórðu villu skömmu fyrir hálfleik fyrir brot á Justin Shouse í stöðunni 34-39. Hólmurum var ekki skemmt og fór það svo að dæmdar voru tvær tæknivillur, annars vegar á bekkinn og hins vegar á Jón Ólaf. Justin Shouse fór því í fjórgang á vítalínuna, setti öll skotin niður og Stjarnan hélt boltanum. Jovan Zdravevski fullkomnaði svo 6 stiga sókn Garðbæinga með því að setja niður gott skot og Stjarnan komin yfir, hreint ótrúlegt atvik. Snæfellingar voru þó ekki af baki dottnir og Jay Threatt svaraði að bragði á hinum enda vallarins með þrist, allt í járnum og sannarlega bráðfjörugur endir á fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik 48-47 Garðbæingum í vil og allt stefndi í æsilegan síðari hálfleik. Stigahæstir hjá Stjörnunni voru Frye með 19 stig og Jovan með 12 en hjá Snæfelli voru Jay Threatt og Pálmi Sigurgeirsson með 13 stig hvor auk þess sem Sigurður Þorvaldsson lagði þrjá þrista í púkkið með 9 stig. Stóru mennirnir hjá Snæfelli voru báðir komnir í villuvandræði en Asim MqQueen nældi sér í 3 villur í fyrri hálfleik og Jón Ólafur fjórar eins og áður sagði.
 

Fjörið hélt áfram í þriðja leikhluta og bæði lið voru ákveðin í að gefa ekkert eftir, Sigurður Þorvaldsson hóf leik á glæsilegum þrist og enn var það Jarrid Frye sem lét hlutina gerast fyrir Garðbæinga en hann kveikti all hressilega í kofanum með hörkutroðslu snemma í leikhlutanum. Þegar tæplega þrjár mínútur lifðu af þriðja leikhluta kom Jay Threatt Snæfellingum yfir með ævintýralegum þrist lengst neðan úr miðbæ auk þess að hljóta vítaskot að auki eftir brot Justin Shouse, þessi fjögurra stiga sókn kom Snæfellingum yfir en gleðin var skammvinn, örskömmu síðar fauk Asim MqQueen útaf með sína fimmtu villu, fjölmörgum Hólmurum í húsinu til lítillar gleði. Á þessum tímapunkti í leiknum var mikið flautað og þótti gestunum af Snæfellsnesi það oft vera gert fyrir litlar sakir. Snæfell leiddi með einu stigi 66-67 eftir þriðja leikhluta og allt stefndi í æsilegar lokamínútur.
 

Í upphafi fjórða leikhluta var komið að þætti Brian Mills, miðherjinn stæðilegi hreinlega tók yfir leikinn og raðaði niður stigum en Stjörnumenn skoruðu fyrstu 8 stig leikhlutans áður en þeir rauðklæddu náðu að svara fyrir sig. Shouse smellti í rándýran þrist úr horninu og kom Stjörnunni í 10 stiga forystu í fyrsta sinn í leiknum 79-69. Snæfellingar voru þó ekki af gáfust þó ekki upp, Sigurður var áfram funheitur, svo heitur að hann ákvað að smella næsta þrist niður af spjaldinu og minnka með því muninn niður í 2 stig, 79-77 og hér var hreinlega allt á suðupunkti og þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í Ásgarð voru vel með á nótunum.

 

Liðin skiptust á að skora og þegar mínúta lifði af leiknum renndi Jarrid Frye sér í gegnum vörn Snæfells með glæsilegri hreyfingu og kom Stjörnunni í 3 stiga forystu en Jay Threatt svaraði að bragði, Stjörnumenn misnotuðu næstu sókn og því var eins stigs munur á liðunum þegar 20 sekúndur voru eftir og Snæfell í sókn. Jay Threatt sem átt hafði stórgóðan leik fram að þessu sýndi algjörar stáltaugar og smellti niður galopnu skoti þegar rétt rúmar 6 sekúndur voru eftir á klukkunni. Stjörnumenn tóku leikhlé, Justin Shouse fékk boltann í hendurnar en tókst ekki að skora á ögurstundu gegn sínu gamla liði og Snæfellingar fögnuðu innilega sætum baráttusigri í algjörum hörkuleik 88-89.
 

Hjá Snæfelli átti Jay Threatt afbragðs leik með 28 stig auk þess að gefa 9 stoðsendingar. Sigurður Þorvaldsson var með 18 og Pálmi Freyr Sigurgeirsson 16 stig, báðir af bekknum. Það vakti athygli að Jón Ólafur Jónsson var stigalaus í leiknum en hann sinnti þó hlutverki sínu vel varnarlega þar sem hann reif niður 9 fráköst en í fráköstunum var Ólafur Torfason einnig öflugur með 12. Jarrid Frye var atkvæðamestur Stjörnumanna með 28 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar, næstir komu Justin Shouse með 19 stig og 6 stoðsendingar og Brian Mills með 13 stig, 7 fráköst og 4 varin skot.

Stjarnan-Snæfell 88-89 (21-23, 27-24, 18-20, 22-22)  

Stjarnan: Jarrid Frye 27/9 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 19/6 stoðsendingar, Brian Mills 13/7 fráköst/4 varin skot, Jovan Zdravevski 12/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 10/7 fráköst, Dagur Kár Jónsson 4, Kjartan Atli Kjartansson 3, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sæmundur Valdimarsson 0.

Snæfell: Jay Threatt 28/6 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 18, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 16/4 fráköst, Asim McQueen 10/4 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 7, Ólafur Torfason 6/12 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 4/5 fráköst, Kristinn Einar Guðmundsson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0, Stefán Karel Torfason 0, Óttar Sigurðsson 0, Jón Ólafur Jónsson 0/9 fráköst. 

Myndasafn eftir Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Jón Steinar Þórarinsson  af Karfan.is