Tvö stig í Vodafonehöllinni

Snæfellskonur söxuðu í kvöld forskot Keflavíkur niður í fjögur stig á toppi Domino´s deildar kvenna. Snæfell vann sterkan sigur á Val í Vodafonehöllinni en Keflavík lá í Hafnarfirði gegn Haukum. Lokatölur að Hlíðarenda voru 46-60 fyrir Snæfell þar sem Kieraah Marlow og Alda Leif Jónsdóttir gerðu báðar 14 stig í liði Hólmara. Jaleesa Butler var stigahæst í liði Vals með 23 stig og 15 fráköst. Heimakonur í Val voru ferskari í fyrsta leikhluta og leiddu 14-11 að honum loknum og Jaleesa Butler komin með 9 stig á 10 mínútum, umtalsvert meira en hún gerði í allan bikarúrslitaleikinn gegn Keflavík….

[mynd]

 

Snæfellskonur söxuðu í kvöld forskot Keflavíkur niður í fjögur stig á toppi Domino´s deildar kvenna. Snæfell vann sterkan sigur á Val í Vodafonehöllinni en Keflavík lá í Hafnarfirði gegn Haukum. Lokatölur að Hlíðarenda voru 46-60 fyrir Snæfell þar sem Kieraah Marlow og Alda Leif Jónsdóttir gerðu báðar 14 stig í liði Hólmara. Jaleesa Butler var stigahæst í liði Vals með 23 stig og 15 fráköst. Heimakonur í Val voru ferskari í fyrsta leikhluta og leiddu 14-11 að honum loknum og Jaleesa Butler komin með 9 stig á 10 mínútum, umtalsvert meira en hún gerði í allan bikarúrslitaleikinn gegn Keflavík!
 

Hólmarar opnuðu annan leikhluta og reyndar alla þrjá eftir fyrsta hluta með hvell. 5-0 syrpa í upphafi annars leikhluta breytti stöðunni í 14-14 og var annar leikhluti öllu áferðafallegri en sá fyrsti, meira skorað og meiri hraði. Ragna Margrét Brynjarsdóttir jafnaði leikinn í 26-26 fyrir Val og heimakonur leiddu svo 30-29 í hálfleik en þeim fyrri lauk á ruðningi sem Kieraah Marlow fékk dæmdan á sig við lítinn fögnuð Hólmara sem töldu að brotið hefði verið á henni og fóru gestirnir ekki par sáttir inn í leikhlé.
 

Jaleesa Butler var með 19 stig í liði Vals í fyrri hálfleik en Kieraah Marlow var með 10 stig í liði Snæfells.
 

Hólmarar mættu ákveðnir inn í síðari hálfleik, Alda Leif Jónsdóttir skellti niður þrist og Hildur Björg Kjartansdóttir kom með skot við endalínuna skömmu síðar og Snæfell heilsaði með 7-0 hvell áður en Valskonur komust á blað. Valskonur beittu mikið svæðisvörn í þriðja leikhluta og hún fór á stundum illa í gestina sem leiddu engu að síður 42-46 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og unnu því þriðja leikhlutann 12-17.
 

Í fjórða leikhluta kom enn ein óskabyrjun á leikhluta hjá Snæfell, 8-0 hviða og staðan orðin 42-54 fyrir Snæfell þar sem Berglind Gunnarsdóttir gerði sex stig í röð fyrir gestina úr þriggja stiga skotum. Jaleesa Butler gerðu fyrstu stig Vals í leikhlutanum eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Sóknarleikur Valskvenna var flatur, mikið mæddi á Butler og lítið mál fyrir sterka Snæfellsvörn að verjast einum leikmanni lengst af. Lokatölur reyndust 46-60 Snæfell í vil þrátt fyrir að Marlow hafi verið í mesta basli í teignum, lítið fékk hún sóknarlega og þegar hún náði skoti voru þau mörg hver sem dönsuðu af hringnum, teignýting í daprari kantinum hjá þessum sterka leikamnni.
 

Þegar öllu er á botninn hvolft vann Snæfell leikinn sem lið á meðan Valskonur gleymdu sér oft og ætluðust til fullmikils af Butler og fyrir vikið brast takturinn.

 

Valur-Snæfell 46-60 (14-11, 16-18, 12-17, 4-14)

 
Valur: Jaleesa Butler 23/15 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 10/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 8/4 fráköst/6 stolnir, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 3/4 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 2, Berglind Karen Ingvarsdóttir 0, Kristín Óladóttir 0, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Ragnheiður Benónísdóttir 0, Sóllilja Bjarnadóttir 0, Þórunn Bjarnadóttir 0/5 fráköst/8 stoðsendingar.
 
 

Snæfell: Alda Leif Jónsdóttir 14/6 fráköst, Kieraah Marlow 14/12 fráköst/5 stoðsendingar/5 varin skot, Hildur Björg Kjartansdóttir 11/6 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 10, Hildur Sigurðardóttir 8/11 fráköst/6 stoðsendingar, Rósa Indriðadóttir 3, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0/6 fráköst, Aníta Sæþórsdóttir 0, Sara Sædal Andrésdóttir 0.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun og myndir frá Karfan.is

 

[mynd]