Umfjöllun oddaleikur Snæfells og Njarðvíkur

 

Umfjöllun oddaleikur Snæfells og Njarðvíkur fengin af Karfan.is

Snæfell tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla með 84-82 sigri á Njarðvíkingum í oddaleik 8-liða úrslitanna. Risavaxið sóknarfrákast og karfa frá Ryan Amoroso þegar 4,5 sekúndur lifðu leiks gerðu útslagið eftir hnífjafnan og æsispennandi leik. Jay Threatt fór fyrir Hólmurum með 21 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en Nigel Moore var með 25 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar hjá Njarðvíkingum.
 
Njarðvíkingar sitja því eftir og eru komnir í sumarfrí, kveðja deildina í svipuðum sporum og í fyrra eða í 8-liða úrslitum en Snæfell er komið skrefinu lengra en á síðustu leiktíð þar sem þeir féllu út í 8-liða úrslitum en þramma nú inn í undanúrslitin og mæta þar Stjörnunni. Snæfell mun hafa heimaleikjaréttinn í seríunni gegn Garðbæingum…….

 

 

 

 

Snæfell tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla með 84-82 sigri á Njarðvíkingum í oddaleik 8-liða úrslitanna. Risavaxið sóknarfrákast og karfa frá Ryan Amoroso þegar 4,5 sekúndur lifðu leiks gerðu útslagið eftir hnífjafnan og æsispennandi leik. Jay Threatt fór fyrir Hólmurum með 21 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en Nigel Moore var með 25 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar hjá Njarðvíkingum.
 

Njarðvíkingar sitja því eftir og eru komnir í sumarfrí, kveðja deildina í svipuðum sporum og í fyrra eða í 8-liða úrslitum en Snæfell er komið skrefinu lengra en á síðustu leiktíð þar sem þeir féllu út í 8-liða úrslitum en þramma nú inn í undanúrslitin og mæta þar Stjörnunni. Snæfell mun hafa heimaleikjaréttinn í seríunni gegn Garðbæingum.
 

Marcus Van gerði fystu stig leiksins eftir sóknarfrákast en Jón Ólafur Jónsson var fljótur að svara fyrir heimamenn strax í næstu sókn. Sigurður Á. Þorvaldsson ,,loggaði“ svo inn fyrsta þristinn í leiknum þegar hann kom Snæfell í 5-4. Ekki leið svo á löngu uns Amoroso kom með annan þrist og heimamenn duttu í 10-4. Jón Ólafur bætti við þriðja þristinum og Snæfell komst í 13-6 og heimamenn voru ekki hættir því Pálmi Freyr mætti með þann fjórða og staðan 16-8 þegar Einar Árni bað um leikhlé eftir fimm mínútna leik.
 

Njarðvíkingar komu beittari út úr leikhléi og minnkuðu muninn í 18-12 og héldu Snæfell í aðeins tveimur stigum í heilar þrjár mínútur. Elvar Már fékk sína aðra villu í Njarðvíkurliðinu og inn í hans stað kom Óli Ragnar sem hafði farið mikinn í leik liðanna í Ljónagryfjunni. Heimamenn í Hólminum leiddu svo með sex stigum að loknum fyrstu tíu mínútunum, staðan 21-15.
 

Á milli fyrsta og annars leikhluta var ungur maður að nafni Ólafur Björn Eyjólfsson sem setti niður Domino´s skotið og fékk fyrir vikið ársbyrgðir af flatbökum.  Fannar Zimsen smellti svo niður Domino´s skotinu á milli 3 og 4 leikhluta og Hólmurinn að gefa vel í dag. Til lukku Ólafur Björn og Fannar Zimsen.

 

[mynd]

 

Njarðvíkingar gerðu fjögur fyrstu stig annars leikhluta og Ingi Þór kallaði þá sína menn í leikhlé og staðan 21-19. Sveinn Arnar gerði fyrstu stig Snæfell í öðrum leikhluta og jók muninn í 24-19 með þrist og þannig leiddu heimamenn lungann úr leikhlutanum, naumlega og grænir aldrei langt undan.
 

Elvar Már átti erfitt uppdráttar fyrstu 15 mínútur leiksins í Njarðvíkurliðinu en hýrnaði yfir leikstjórnandanum öfluga þegar hann setti þrist og minnkaði muninn í 28-24 og hans fyrstu stig í leiknum komin í hús sem og fyrsti Njarðvíkurþristurinn en á sama tíma höfðu heimamenn gert fimm slíka. Ekki laust við stress í herbúðum Njarðvíkinga sem á þessum tíma fyrir þrist Elvars voru 1-5 í vítum og 0-6 í þristum. Alltaf náðu heimamenn að slíta sig nokkrum stigum frá eftir Njarðvíkurrispur og Jay Threatt var beittur undir lok fyrri hálfleiks. Grænir gestirnir áttu lokaorðin í fyrri hálfleik þegar Nigel Moore keyrði upp að körfunni og minnkaði muninn í 39-35 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 

Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur í liði Snæfellinga með 11 stig og 2 stoðsendingar í hálfleik og Elvar Már Friðriksson var stigahæstur Njarðvíkinga með 8 stig og Marcus Van með 6 og 11 fráköst.
 

Njarðvíkingar byrjuðu vel og minnkuðu muninn í 39-37 og fengu síðan ruðning dæmdan á Jay Threatt. Heimamenn voru þó ekki lengi að slíta sig aftur frá og Sigurður Þorvaldsson breytti stöðunni í 42-37 með þrist gegn klunnalegri vörn gestanna á upphafsmínútum síðari hálfleiks.
 

Hólmarar héldu vel um stýrið uns þrjár mínútur lifðu eftir af þriðja leikhluta en þá hrukku þeir Ólafur Helgi og Ágúst Orrason í gang og skoruðu saman átta stig á örskömmu tíma fyrir gestina og grænir komust í 50-52 og leiddu í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0-2.
 

Nigel Moore kom svo með fjögur sterk Njarðvíkurstig á lokasprettinum og gestirnir leiddu 56-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Threatt minnkaði muninn fyrir heimamenn með sterku gegnumbroti um leið og leikhlutinn rann út.
 

Moore var enn sjóðheitur í liði Njarðvíking í upphafi fjórða og skoraði átta stig í röð fyrir gestina sem komust í 59-66. Heimamenn ætluðu ekki að láta stinga sig af, Amoroso splæsti í tröllatroðslu og Sigurður Þorvaldsson kom með þrist og staðan 64-66. Ekki leið á löngu uns heimamenn náðu forystunni á ný en það gerði Amoroso með stökkskoti við endanlínuna og staðan 70-68 þegar sex mínútur voru til leiksloka og Njarðvíkingar tóku leikhlé.
 

Heimamenn í Hólminum voru komnir á bragðið, lokaspretturinn var þeirra með angan af reynslu. Pálmi Freyr sendi niður einn stóran og kom heimamönnum í 78-74, teigskotin fóru að detta hjá Amoroso en Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 82-79 með þriggja stiga körfu frá Ólafi Helga en nær komust þeir ekki. Síðasta mínútan eða svo var ansi mistæk á báða bóga en þegar um hálf mínúta lifði leiks hélt Snæfell í sókn, skotið reið af og Amoroso náði sóknarfrákastinu og skoraði af harðfylgi og breytti stöðunni í 84-79 þegar 4,5 sekúndur liðfu leiks og björninn unninn. Njarðvík skoraði þrist um leið og leiktíminn rann út og lokatölur 84-82.
 

Tölfræði leiksins

Byrjunarliðin:
Snæfell: Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Á. Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Maciej Baginski, Ólafur Helgi Jónsson og Marcus Van.
 

Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson og Davíð Kr. Hreiðarsson.
 

Mynd og umfjöllun/ Jón björn Ólafsson – [email protected] 

 

[mynd]