Stelpurnar í stuði

Flottur leikur í kvöld hjá stelpunum okkar…

Snæfellsstúlkum hefur gengið vel í deildinni og eru í öðru sæti á meðan Hamar er í því fimmta og er að fóta sig um miðja deild. Berglind Gunnarsdóttir er komin í lið Snæfells að nýju og hefur bati á hennar meiðslum verið framar vonum.

 

Leikurinn byrjaði rólega í stigaskori og meira í hlaupum fram og til baka og staðan ekki nema 3-5 fyrir Hamar eftir fyrstu fjórar minútur leiksins en bæði lið voru ekki beint í skotgírnum og reyndu að halda varnartibrigðum sínum til haga. Þegar Hamar hafði komist í 5-11 var það Rebekka Rán sem hélt Snæfelli inni í ansi slökum sóknarleik þeirra með þrist 8-11 en líkt var og lok væri á körfum Snæfells. Á meðan lék Íris Ásgeirs lausum hala og hafði sett 9 stig eftir fyrsta hluta og staðan 11-15 fyrir blómastúlkurnar úr Hveragerði.

 

Heimastúlkur náðu að seiglast áfram og jafna 18-18 eftir að hafa fengið fimm stig frá Helgu Hjördísi í beit og að berjast frekar um lausa bolta. Svæðisvörn Hamars var að virka á köflum en Snæfell lærðu fljótt á hana og náðu miklvægum fráköstum í sóknum sínum og komust yfir 25-23. Fanney Lind var að gera vel fyrir Hamar sem voru hungraðar í tvö stig í þessum leik komin með 12 stig og 9 fráköst um miðjan annan hluta. Chynna Brown dritaði hverju skotið eftir annað niður og hélt uppi skori Snæfells þegar þær komust í 31-23 með 11-0 kafla. Eva Margrét átti síðasta orðið undir lok fyrri hálfleiks tveimur þristum alveg sjóðheit og staðan 37-28 fyrir Snæfell.

 

Hjá Snæfelli var Chynna Brown komin með 17 stig og Eva Margrét 6 stig en Hildur Sigurðar ætlaði að hækka meðaltalið komin með 8 stoðsendingar. Hjá Hamri var áður nefnd Fanney Lind komin með 12 stig og 9 fráköst og næst henni var Íris Ásgeirsdóttir komin með 9 stig.

 

Hamarsstúlkur misstu alveg taktinn í upphafi þriðja hluta og Snæfell byrjuðu á fullu krafti. Snæfell hittu núna úr öllu á meðan Hamar misstu boltann illa, fengu óíþróttamannslega villu og vörnin var í molum. Staðan varð fljótt 47-28 fyrir Snæfell og voru fóru mikinn. Þrátt fyrir 23 stiga mun 60-37 voru Hamarsstúlkur að berjast og reyna að koma sér aftur inn í sinn leik og settu Fanney og Íris niður þriggja stig skot sín. Staðan eftir þriðja hluta 66-47 fyrir Snæfell. Di´Amber Johnson komst ekki mikið inn í leikinn fyrir Guðrúnu Gróu en stúlkan virtist haltra á köflum.

 

 Hamar virtist ætla að saxa á forskot Snæfells 68-53 en það var ekki meira en svo. Heimastúlkur voru einfaldlega komnar á annan stall og þustu í 80-55 sem sagði allt um hve sterkar þær voru í leiknum og höfðu yfirhöndina eftir að hafa komist inn í leikinn í öðrum hluta og tekið hann yfir. Berglind Gunnars kom inn á og sýndi strax ótrúlega flottar hreyfingar sem henni einni er lagið og henti niður tveimur stigum í sína fyrsta skoti og svo var stemmingin Snæfellsmegin þegar Silja Katrín kom inn á og skellti einum ísköldum þrist á lokaflautinu. Leikurinn endaði 88-58 fyrir Snæfell sem eru að gera fína hluti í deildinni þessa dagana og eru komnar upp að hlið Keflavíkur með jafnmörg stig.

 

Snæfell: Chynna Brown 24/7 frák/4 stoðs/8 stolnir. Eva Margrét 16/5 frák/4 stoðs. Guðrún Gróa 14/5 frák. Hildur Sigurðardóttir 10/8 frák/12 stoðs. Hugrún Eva 8/11 frák. Helga Hjördís 5/6 frák. Rebekka Rán 3/5 stoðs. Aníta Rún 3. Silja Katrín 3. Berglin Gunnarsdóttir 2. Edda Bára 0.

 

Hamar: Fanney Lind 18/12 frák. Íris Ásgeirsdóttir 17/3 frák. Di´Amber Johnson 15/4 frák/6 stoðs. Marín Laufey 6/12 frák. Dagný Lísa 2. Jóna Sigríður 0. Jenný Harðardóttir 0. Katrín Eik 0. Helga Vala 0. Kristrún Rut 0. Sóley Guðgeirsdóttir 0.

 

 

Sumarliði Ásgeirsson tók myndina, það eru fleiri myndir á facebook-síðunni hans. Endilega kíkjið á það.

Símon B. Hjaltalín.