Slæmur dagur…

Stundum eiga lið slæman dag, sú varð raunin í kvöld hjá stelpunum okkar. 

Leikurinn hófst á frekar rólegu nótunum og voru liðin frekar varfærin og lin í sínum leik. Snæfell komst í 8-2 með þrist frá Chynna Brown sem kom smá bragði í leikinn en Adam var ekki lengi í paradís og KR stúlkurnar ekki á því að setja sig út í horn og jöfnuðu 9-9. KR var komið yfir 13-14 eftir fyrsta hluta og Snæfellsstúlkur héldu áfram að vera linar í sóknum sínum og gátu mikið betur.

 

KR jók forystuna í 13-17 strax í öðrum hluta en leikurinn var alls ekki áferðafagur. Liðin hittu alls ekki vel og sendu boltann illa og var þetta, að manni fannst, eintómt puð og pot fram og til baka en hærri tölur hafa fundist hjá þessum liðum og einnig aðeins frískari varnarleikur . Staðan var 17-17 og liðin skiptust á forystu þegar Snæfell komst í 23-20 en KR aftur í 23-24. Staðan var 27-28 fyrir KR í hálfleik og var Snæfell með 23% í tveggja stiga skotum sínum 7 af 30 en höfðu tekið 10 fleiri fráköst, 32 gegn 22 frá KR og af þeim 16 sóknarfráköst.

 

Í liði Snæfells var Chynna Brown komin með 10 stig og 5 fráköst. Hildur Sigurðardóttir 7 stig og 7 fráköst.  Hjá KR var Ebone Henry með 11 stig og 10 fráköst. Sigrún Sjöfn 8 stig og var mestur sóknarþungi að fara í gegnum þessar stúlkur í liðunum.

 

KR stökk af stað í upphafi seinni hálfleiks og juku forystuna með Ebone fremsta, 29-36. Snæfell eltist við gestina en ekki með neinum sérstökum árangri 33-36 og svo 35-43. Alltaf áttu KR greiða leið að körfunni með Bergþóru Holton í stuði til að halda forystu sem þær gerðu eftir þriðja hluta 41-48 og Snæfellsstúlkur, þrátt fyrir uppgang síðustu leiki, að öllum líkindum að spila sinn versta leik til þessa í vetur en mikið andleysi og áhugaleysi ríkti í leik þeirra.

 

Snæfell reyndu hvað þær gátu í fjórða hluta að saxa á en ekkert gekk og KR stúlkur leystu pressu og annað nokkuð vel og náðu með fínum leik að halda sér frá Snæfelli 51-60 þegar tvær mínútur voru eftir þrátt fyrir eitt og eitt fum og fát í sóknarleiknum en fumið og fátið var allt Snæfellsmegin þangað til þær náðu aðeins í skotið á KR 57-60 þegar 49 sekúndur voru eftir af leiknum. KR átti boltann og settu niður tvö 57-62 en þá kom Helga Hjördís hjá Snæfelli með stórann þrist 60-62 og 21 sekúnda eftir. Snæfell braut og KR setti niður tvö stig 60-64 sem urðu úrslit leiksins en Snæfell var löng búið að leggja inn fyrir þessu snemma í leiknum og heilt yfir og ekkert nema sanngjarn sigur KR í Hólminum þetta kvöldið.

 

Snæfell: Chynna Unique Brown 21/10 frák/4 stolnir. Hildur Sigurðardóttir 14/10 frák/5 stoðs. Helga Hjördís 8/8 frák. Guðrún Gróa 6/7 frák. Hugrún Eva 5/7 frák. Eva Margrét 5/5 frák. Rebekk Rán 1. Silja Katrín 0. Berglind Gunnarsdóttir 0. Aníta Rún 0.

 

KR:  Ebone Henry 27/19 frák/7stoðs. Bergþóra Holton 18. Sigrún Sjöfn 12/11 frák. Anna María 3. Björg Guðrún 2. Ragnhildur Arna 2. Sara Mjöll 0. Rannveig Ólafsdóttir 0. Sólrún Sæmundsdóttir 0.

 

Símon B Hjaltalín.