,,Einhvers staðar verður að byrja”

,,Einhvers staðar verður að byrja”

Í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þann 8. mars síðastliðinn, fannst mér ekki annað hægt en að vekja athygli á misrétti kvenna og karla í körfuboltaheiminum á Íslandi í dag. Til eru endalaus dæmi. Ég ætla einungis að nefna örfá en ég veit varla hvar ég á að byrja.

Þegar ég var 17 ára var ekkert A-landslið kvenna starfandi. Ekki heldur þegar ég var 18 ára. Eftir síðasta leik minn á mínu síðasta Norðurlandamóti yngri landsliða þurfti ég að spyrja mig að því hvert ég stefndi. Ég sá ekki næsta skref. Ég þurfti að leita eftir fyrirmyndunum mínum á meðan besti vinur minn horfði á fyrirmyndirnar sínar í A-landsliði karla með stjörnur í augunum, því það var þangað sem hann stefndi.

Þann 15. janúar 2011 fór ég á fyrirlestur fyrir öll yngri stúlknalandslið í Ásgarði. Þar voru mjög áhugaverðir fyrirlestrar varðandi afreksstarf. Á þessum fundi varpaði ég fram spurningu varðandi U-20 ára landslið karla sem senda átti á Evrópumót um sumarið, og af hverju það væri ekkert U-20 ára landslið stúlkna. Svarið sem ég fékk var það að einhvers staðar þyrfti að byrja. Árið 2013 var svo U-22 ára landslið karla kallað saman, en aldrei heyrðist neitt af stúlknalandsliðum í þessum aldursflokkum, hvorki U-20 ára né U-22 ára.

Stjörnuleikir karla og kvenna hafa alltaf verið skemmtilegir viðburðir í íslenskum körfubolta. Þetta voru leikir sem sýndir voru í beinni útsendingu á laugardögum og fullkomið tilefni fyrir popp, kók og körfuboltagláp. Stjörnuleikur kvenna var lagður niður í tvö ár, 2011 og 2012. Í janúar 2013 var hins vegar svakaleg endurkoma á stjörnuleik kvenna. Leikurinn var auglýstur og haldinn á miðvikudegi í Keflavík(!) á meðan karlaleikurinn var haldinn á laugardegi í Ásgarði. Þetta hlaut að vera eitthvað grín. Þvílík vanvirðing við íslenska kvennakörfu.

Umfjöllun um körfubolta almennt hefur ekki verið upp á marga fiska síðastliðin ár í sjónvarpi, og hvað þá umfjöllun um kvennakörfubolta. Það er ekki langt síðan RÚV fór að segja frá úrslitum í körfuboltaleikjum kvöldsins í fréttunum og ennþá í dag er það ekki alltaf gert.

Íslenski boltinn hóf göngu sína á RÚV árið 2011 þar sem fjallað var aðallega um handbolta, körfuboltinn fékk smá part og körfubolti kvenna fékk nokkrar mínútur. 8. október 2013 var mikill gleðidagur fyrir áhugafólk um íslenskan (karla)körfubolta því þá var gerður samstarfssamningur á milli KKÍ og Stöðvar 2 Sport um að sýna frá íslenskum körfuknattleik í sjónvarpi. Stöðin hafði greinilega engan áhuga á að sýna leiki í beinni útsendingu í Dominos deild kvenna en 10 leikir voru á dagskrá í beinni útsendingu frá Dominos deild karla!

Fyrir utan misrétti í dómaramálum kvenna og karla í körfubolta sem er mjög greinilegt, misrétti í landsliðsmálum og í umfjöllun um kvennakörfubolta í sjónvarpi er umgjörð kvennaleikja það sem mér finnst allra sorglegast. Oftar en ekki líður mér eins og ég sé komin á minniboltamót en ekki að spila leik í efstu deild kvenna. Ég veit að taka átti m.a. á þessum þáttum eftir síðasta leiktímabil, þ.e. að hafa umgjörðina eins á kvennaleikjum og karlaleikjum liða. Því miður sé ég enga breytingu þar á.

Það er einungis á heimaleikjum í Stykkishólmi sem mér finnst eitthvað vera í gangi. Snæfellingar eru að gera virkilega góða hluti að mínu mati í jafnréttismálum í körfunni enda er árið 2014 komið í Hólminn.

Á hverjum einasta leik bæði hjá konum og körlum, í deildinni sem og í úrslitakeppninni er kynning á öllum leikmönnum beggja liða, ásamt dómurum. Þar er leikskrá þar sem nöfn leikmanna koma fram og þar er einnig dagskrá yfir næstu leiki. Þar er tónlist og stemmning. Og þar er alveg sama hvort þú sért með typpi eða píku.

Ég skora á þig að líta á þitt eigið íþróttafélag með gagnrýnum augum. Ég skora á þig að sýna í verki að þú viljir það sama fyrir dóttur þína og son þinn í íslenskum körfubolta. Hafðu áhrif og breyttu einhverju í kringum þig. Ég veit innst inni að 2014 er ekki bara komið í Stykkishólm.

Áfram stelpur,
og áfram körfubolti.

Berglind Gunnarsdóttir