Öruggur sigur á KR-stúlkum

Öruggur sigur á KR-stúlkum

Snæfellsstúlkur sigruðu Fjölnisstúlkur á útivelli mjög örugglega 44-95 fimmtudaginn 18. September, en allir leikmenn sem spiluðu náðu að skora í leiknum, stigahæst var Gunnhildur Gunnars með 18 stig.

Leikurinn í dag gegn KR var síðasti leikur okkar stúlkna í riðlakeppninni og með sigri myndum við tryggja sæti okkar í undanúrslitum endanlega. Góður fyrsti leikhluti þar sem góð keyrsla var á liðinu skilaði 32-17 forystu en allir leikmenn að leggja í púkkið saman hvort sem það var varnarlega eða með að klára hraðupphlaup. Í öðrum leikhluta gerðust hlutirnir full hægt og fór leikhlutinn 9-8 fyrir Snæfell sem leiddu 41-25 í hálfleik. Kristen McCarthy var stigahæst með 12 stig hjá Snæfell en hjá KR var Þorbjörg Andrea Friðriks stigahæst með 7.

Snæfellsstúlkur juku muninn hægt og bítandi í þriðja leikhluta og þéttur varnarleikur var þeirra aðalsmerki, Snæfell bættu forystuna um tíu stig og leiddu 69-33 eftir þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta fengu enn fleiri leikmenn að spreyta sig og lokatölur urðu 77-50.

Hildur Sigurðardóttir sem hafði haft hægt um sig í síðustu leikjum átti ljómandi fínan leik og lauk leik með 22 stig og 11 fráköst. Næst á eftir henna kom Kristen með 19 stig og 9 fráköst, Berglind Gunnars með 14, María Björns 6, Gunnhildur Gunnars 6 og 6 fráköst, Helga Hjördís Björgvins 4, Alda Leif Jónsdóttir 4, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2, Aníta Rún Sæþórs og Rósa Krisín Indriðadóttir 0. Anna Soffía Lárusdóttir var á skýrslu í sínum fyrsta leik, en við eigum vonandi eftir að sjá meira af þessari kjarnakonu.

Hjá KR voru Þorbjörg Andrea og Sara Mjöll Magnúsdóttir stigahæstar með 11 stig hvor.

Það er því ljóst að liðið okkar leikur gegn Valsstúlkum í undanúrslitum fimmtudaginn 25. September en leikurinn fer fram í Ásgarði í Garðabæ þar sem báðir undanúrslitaleikirnir verða leiknir. Hinn leikurinn er Keflavík gegn Haukum. Úrslitaleikurinn fer einnig fram í Ásgarði laugardaginn 27. September.