7 stiga tap í vesturbænum

7 stiga tap í vesturbænum

Karlaliðið lék báða leiki sína í D-riðli á þremur dögum og eftir góðan sigur á ÍR-ingum var komið að heimsækja KR-inga í DHL-Höllinni sem höfðu sigrað ÍR-inga einnig og því um hreinan úrslitaleik í riðlinum að ræða.

KR-ingar hófu leikinn ákveðið og leiddu 9-2 og komust í 22-12, Will og Sindri náðu að laga stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta og staðan 22-17. Okkar menn náðu að minnka muninn fljótt í eitt stig og jafna 29-29 með þrist frá Austin, KR-ingar áttu lokaorðin í fyrri hálfleik og leiddu 35-31 í hálfleik. William Nelson nýji erlendi leikmaðurinn okkar var ekki í takt við liðið og náði þar af leiðandi ekki að sýna sinn rétta leik. Í hálfleik var Michael Craion stigahæstur KR-inga með 13 stig og 9 fráköst, en hjá Snæfell var Austin Magnús Bracey stigahæstur með 12 stig og fjögur fráköst.

Í upphafi þriðja leikhluta skoruðu KR-ingar í þremur hraðupphlaupum og leiddu 41-31, Mestur varð munurinn 16 stig 56-40. Snæfellingar með Snjólf sem sinn besta mann þéttu varnarleikinn og löguðu stöðuna, Sindri og Austin börðust vel en aðrir leikmenn hafa skinið skærar. Staðan eftir þriðja leikhluta 58-47. Í fjórða leikhluta ná Snæfellingar að minnka muninn með góðu áhlaupi og skyndilega eftir góðar körfur frá Sigurði staðan orðinn 72-66. Craion og Darri náðu að svara þessu áhlaupi Hólmara og lokatölur 77-70.

Stigahæstur í Snæfell var Austin Magnús Bracey með 18 stig og 6 fráköst, Snjólfur Björnsson átti góðan dag og skoraði 15 stig og gaf 3 stoðsendingar, Siguður Ágúst Þorvaldsson og William Henry Nelson settu báðir 11 stig, Stefán Karel setti 10, Sveinn Arnar 3 og Sindri Davíðs 2.

Hjá KR var Michael Craion stigahæstur með 22 stig og 15 fráköst, Darri Hilmar kom næstur með 16 stig, Brynjar Þór með 14 og Björn Kristjánsson var sjóðandi heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði 12 stig.

KR-ingar sigruðu því D-riðil og mæta liðinu í öðru sæti í C-riðli Njarðvík á heimavelli sínum DHL-Höllinni, en Snæfell mætir liði númer eitt í C-riðli Tindastól á útivelli á Sauðárkróki. Leikirnir fara fram þriðjudaginn 23. September klukkan 19:15

Snæfellsliðið var greinilega ekki langt komið í sínum leik og eiga töluverða vinnu framundan til að standa betur að vígi til að ná sínum besta leik. Í liðið vantaði fyrirliðann Pálma Frey Sigurgeirsson sem var í leyfi vegna barneigna nóttina fyrir leikinn, við óskum Pálma og Drífu innilega til hamingju með frumburðinn. KR-liðið er fyrnasterkt og lék án Pavel Ermolinski.

Mynd – Sumarliði Ásgeirsson