Margir ljósir punktar þrátt fyrir tap

Margir ljósir punktar þrátt fyrir tap

Það var hörkuleikur í Hólminum þegar Haukar mættu Snæfelli í Dominosdeild karla. Leikurinn var jafn og spennnandi allan tímann. Liðin skiptust á forystu og var engin leið að ráða í hvernig þetta gæti farið, en menn töldu sig minna að Haukar hafi ekki tekið sigur í Hólminum síðan 2002 og seljum við það ekki dýrara en Ívar seldi okkur. Haukarnir áttu góðan lokasprettinn og sigruðu 84-89 eftir að Snæfell hafði verið yfir 84-79 þegar um 2:30 voru eftir.

Snæfellingar áttu ekki góðar upphafsmínútur og eignlega enduðu einsog þeir byrjuðu. Haukar fengu auðveldar körfur í teignum og vörn Snæfells sein og engin fráköst tekin. Sigurður Þorvaldsson kom þeim þó yfir 11-10 og voru þeir að hanga í Haukum en hitnuðu þegar leið á fyrsta fjórðung og voru yfir 24-20 þegar fráköstin eftir stór skot Hauka hrukku af.

Leikurinn var hnífjafn og ekki meira en 5 stig skildu liðin af í leiknum þrátt fyrir frá 6-0 til 10-0 áhlaupa liðanna. Snæfell komust í 39-34 eftir bitlausa vörn Hauka á móti bitmeiri sókn Snæfells. Haukur Óskarsson bætti úr og kom gestunum yfir 39-41 en Snæfell jafnaði og liðin ekki að spila fegursta leikinn. Sigurður Þorvaldsson skoraði grimmt og setti síðustu fimm stig Snæfells á töfluna með þrist á lokaflauti fyrri hálfleiks, staðan 47-43 og Sigurður kominn með 21 stig. Næstur honum var Pálmi Freyr með 10 stig. Hjá Haukum var Alex Francis heitur undir körfunni og fékk oft mikið frítt, hann setti niður 9af 16 niður og var kominn með 18 stig.

Haukar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og Kári jónsson kom þeim strax í forystu með fimm fyrstu stigunum 47-48. Snæfellingar áttu í þriðja hluta oft ágætis vörn en sóknir æði ævintýralegar og fljótfærnar. Þetta gaf gestunum svigrúm til að leiða fjórðunginn og staðan í lok hans 63-65 fyrir Hauka.

Spennan var óþrjótandi og var William Nelson kominn á bekkinn hjá heimamönnum með 5 villur þegar um 6 mínútur voru en eftir. Kári Jónsson jafnaði 75-75 og voru stóru skotin að detta hjá Hafnfirðingum. Þegar um 2:30 voru eftir var staðan 84-79 fyrir Snæfell eftir þrist frá Austin og tveimur til frá Pálma Frey. Kristinn Marinósson átti þá þrist sem breytti öllu fyrir Hauka og þeir unnu boltann aftur og Haukur Óskarsson jafnaði 84-84. Snæfellsmenn áttu lítið sem ekkert bensín í þessar lokasekúndur en Austin brást bogalistin þegar tvö víti geiguðu með mínútu eftir og Snæfellingar áttu ekki fleiri svör eftir tvö þriggja stiga skot sem duttu ekki. Kári skilaði einu víti niður fyrir Hauka og Emil skráði á sig tvö á loksekúndunum. Miðað við hvernig leikurinn var þá hefði þetta allt eins getað skrifast Snæfellsmegin en Haukarnir með betri baráttu í lokin sem skilaði þeim 84-89 sigri.

Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur Snæfellinga með góða tvennu, 31 stig og 11 fráköst. Austin M Bracey 16/4 frák/5 stoðs. William Nelson 14/14 frák. Pálmi Freyr 12. Stefán Karel 10/6 frák. Snjólfur Björnsson 1/6 stoðs.

Alex francis var einnig með myndalega tvennu 30 stig og 15 fráköst. Kári Jónsson 20/5 stoðs. Emil Barja 18/4 frák/7 stoðs. Haukur Óskarsson 10. Hjálmar Stefánsson 6/4 frák. Kristinn Marinósson 5.

Símon B. Hjaltalín