Góður sigur

Góður sigur

Snæfell og Valur voru bæði ósigruð eftir fyrstu tvær umferðir Dominosdeildar kvenna en þau mættust í Hólminum í kvöld. Liðin skiptu leikhlutunum á milli sín Snæfell átti annan og fjórða en Valur fyrsta og þriðja. Þetta var jöfn barátta en með sveiflumog virtust heimastúlkur hafa eilítið meiri tök þegar þær sóttu á.

Valsstúlkur voru einbeittar í upphafi og komu með látum í leikinn. Hildur Sigurðardóttir náði að jafna fyrir Snæfell með þrist 4-4 og þær komust yfir 6-4. Valur tóku þá 10-0 sveiflu skelltu í lás og hittu úr ÖLLU, staðan 6-14. Sara Diljá og Margrét Ósk sáu til þess að halda Snæfelli 10 stigum undir með sínum þristi hvor og Joanna Harden hafði skorað 10 stig og staðan var 21-27 eftir fyrsta fjórðung.

Snæfell hafði verið feti á eftir í leiknum í vörn og sókn. Þær stilltu þá loksins upp í hörkuvörn og snéru við blaðinu. Kristen McCarthy losaði sig trekk í trekk og þurfti ekki annað en henda boltanum upp í loft og hann endaði í körfunni og betra flæði kom í sóknarleikinn á meðan Valur opnaði sig nokkuð í vörninni. Þá uppskáru þær 8-0 kafla og voru komnar yfir 41-34. Valur réttu úr kútnum 43-43 og ætluðu ekki að láta henda sér úr leiknum. Snæfell áttu næsta leik og leiddu í hálfleik 51-43.

Kristen McCarthy var komin með alveg þokkalegar tölur, 18 stig/ 5 frák/5 stoðs og 5 stolna bolta. Hildur Sigurðardóttir var svo næst með 14 stig. Í liði Vals var Jjoanna Harden komin með 17 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir 9 stig og 4 fráköst.

Valsstúlkur voru ekki af baki dottnar, voru einu stigi undir 57-56 en náðu aldrei að byggja betur undir grunninn og komast yfir í leiknum. Joanna meiddist að virtist vera en var fljótt komin inn aftur en Valur var undir 68-66 fyrir lokafjórðunginn þrátt fyrir að sigra þann þriðja .

Snæfell héldu uppi öruggri forystu mest í 12 stigum 85-73 þar til þrjár mínútur voru eftir en þá hóf Valur að pressa. Þær uppskáru að saxa niður forystuna í tvö stig 87-85 eftir þrist frá Joanna Harden þegar 23 sekúndur voru eftir. Snæfell komust í 88-85 þegar 9 sekúndur voru eftir og Joanna Harden fékk ekki fleiri sénsa á skotum hjá Snæfelli. Helga Hjördís kláraði svo tvö niður af vítalínunni og Snæfellsstúlkur tóku sigurinn 90-85 í afmælisgjöf til fyrirliðans Hildar Sigurðardóttur.

Snæfell: Kristen McCarthy 27/8 frák/6 stoð/6 stolnir. Hildur Sigurðardóttir 19/7 frák/6 stoð. Gunnhildur Gunnarsdóttir 15/7 frák. Helga Hjördís 9/7 frák. Hugrún Eva 9/6 frák. Berglind Gunnarsdóttir 6/4 frák. Alda Leif 3. María Björns 2. Rebekka Rán 0. Rósa Kristín 0. Helena Helga 0. Anna Soffía 0.

Valur: Joanna Harden 31/4 frák/4 stoðs. Ragna Margrét 14/6 frák. Guðbjörg Sverrisdóttir 12/9 frák. Margrét Ósk 8. Ragnheiður Benónísdóttir 7/11 frák/4 stoðs. Fanney Lind 4/6 frák. Kristrún Sigurjónsdóttir 3/5 stoðs. Sara Diljá 3. Sóllija Bjarnadóttir 3. Bylgja Sif 0. Bergdís Sigurðardóttir 0. Regína Ösp 0.

Símon B. Hjaltalín