Tap í kvöld!

Tap í kvöld!

Snæfellingar tóku á móti Stjörnumönnum í Stykkishólmi í kvöld. Bæði lið höfðu sigrað sína leiki úr síðustu umferð og fyrirfram búist við hörkuleik. William Nelson opnaði leikinn fyrir heimamenn 3-0 en Snæfellingar hittu illa í kjölfarið og Stjarnan leiddi 5-8 en úr því var bætt og komust Snæfellingar í 11-8. Justin Shouse var kominn í liðið á ný og jafnaði 11-11 og var jafnræði með liðunum út fyrsta hluta, 24-22 eftir að Pálmi Freyr smellti þrist í lokin.

Liðin héldu uppi sama takti og í upphafi. Lykilmenn hjá Snæfellil voru að safna villum en Bracey og Nelson voru komnir með 3 villur hvor eftir þriggja mínútna leik í öðrum hluta. Frye og Nelson skoruðu vel fyrir liðin og vel studdir af bakvörðunum Pálma Frey og Degi Kár framan af en Dagur varð fyrir hnjaski snemma í leiknum og fékk högg á kjálkann og kom þá Justin ferskur inn. Snæfell reyndu að sprengja sig frá Stjörnumönnum 39-34 en sinntu ekki vörninni nægjanlega til að halda því og Stjarnan kom til baka 39-38.

Gestirnir reyndu ekki mikið af þristum og voru komnir með 1 af 5 reyndum á meðan Snæfell hafði sett 5 af 13, þess heldur settu þeir meira púður í að spila sig vel að körfunni með ágætum. Staðan í hálfleik 46-43 fyrir heimamenn eftir einhvejar þriefingar dómara þegar 4 sekúndubrot voru eftir og innkast tekið í þrígang á örugglega fimm mínútum. William Nelson var kominn með 16 stig og 8 fráköst fyrir Snæfell og Stefán Karel 12 stig og 7 fráköst. Hjá Stjörnumönnum var Jarrid Frye með 13 stig, Justin Shouse 9 stig og Dagur Kár 8 stig.

Liðin voru jöfn á flestum ef ekki öllum flötum leiksins og útlit fyrir að þetta yrði ráðið á síðustu mínútunum þegar staðan var 56-55 fyrir Snæfell en jafnharðan orðin 56-57 fyrir Stjörnuna. Dagur Kár smellti þrist og kom gestunum í 62-68 og Justin fór svo á vítalínuna 62-70 og William Nelson fór út af með fimm villur á flautunni eftir þriðja hluta sem var ekki gott fyrir breidd liðsins og töluverð spenna og dramtík farin að slást í för með þátttakendum leiksins.

Stjörnumenn gengu á lagið í góðu árferði og komust í 10 stiga forystu 66-76, keyrðu vel á körfuna og uppskáru vel. Snæfellsmenn reyndu að saxa á með þristum en Stjörnumenn héldu sig við fenginn hlut í þeirra áhalupi og voru menn ekki að gefa þumlung eftir þar á bæ. Bæði lið áttu að spila betur á köflum í leiknum og þó jafnræði hafi ríkt meðal þeirra áttu liðin áþekka góða og slæma kafla. Stjarnan héldu út síðustu mínúturnar og höfðu sigurinn í Hólminum 81-92 í kvöld eftir hörkuviðureign jafnra liða.

Hjá Snæfelli var Stefán Karel að spila vel og vex með hverjum leik en hann skoraði 22 stig og tók 11 fráköst. William Nelson 22/10 frák. Austin M Bracey 15/4 frák/4 stoðs. Pálmi Freyr 11. Sigurður Þorvaldsson 7/8 frák. Snjólfur Björnsson 4.

Í liði Stjörnunnar var Jarrid Frye að kom vel út undir körfunni og sótti oft vel á Snæfellinga, hann skoraði 28 stig og tók 9 fráköst. Justin Shouse minnti á sig með 19 stig og hafði ekki miklar áhyggjur af höfðinu. Dagur Kár 18/4 stoðs. Ágúst Angatýsson 12/5 frák. Jón Orri 5/12 frák. Marvin Valdimarsson 4/10 frák. Sigurður Dagur 2. Tómas Þórður 2. Sæmundur Valdimarsson 2.

Tölfræði leiksins
Myndasafn – myndir Sumarliði Ásgeirsson

Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín