Leiðinlega nálægt því…

Leiðinlega nálægt því…

Snæfell og KR áttust við í Hólminum og fengu KR-ingar þann heiður að spila í rauðum treyjum Snæfells þar sem þeirra svart/hvítu röndóttu urðu eftir í vesturbænum.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti beggja liða. Hratt var spilað og vel skorað. Snæfellsmenn voru komnir yfir 11-6 með þrist frá Sigurði Þorvaldssyni en Helgi Már svaraði að bragði. KR jafnaði svo 13-13 eftir að Darri fór vel í hraðaupphlaup en Snæfellsmenn máttu gá betur að sér. Austin Magnús gerði vel í að halda í við KR þegar þeir voru yfir 17-21 og breytti því í 20-21. Á köflum fannst manni eins og um fjórða hluta væri að ræða í þeim fyrsta en hann endaði 26-24 fyrir Snæfell þrátt fyrir tvær góðar tilraunir þeirra undir körfunni á síðustu sekúndunum til að bætta við tveimur.

Hörkuskemmtilegur leikur og Snæfell komust yfir 32-28 og voru tilþrif og glamúrheit hjá liðunum líkt og þegar Craion varði skot Stefáns og sekúndum síðar svaraði Sveinn Arnar fyrir sig gegn Helga Má. Svo rafmagnað var í húsinu að þegar staðan var 37-30 fyrir Snæfell sló klukkunni og stigatöflunni út þannig að örlítið hlé þurfti að gera. Snæfell leiddi 41-32 en í staðin fyrir að ná að bæta við í tvígang breyttu Pavel og Helgi Már stöðunni í 41-38 með sinn hvorn þristinn. Darri jafnaði svo 43-43 og Snæfellsmenn sátu orðið eftir undir lok annars hluta og broddurinn dofnaði sem skal svo ekki tekið af varnarleik KR. Snæfellingar náðu þó að halda upp um sig og náðu að jafna undir lok fyrri hálfleiks og staðan jöfn 48-48.

Í liði Snæfells voru Austin Magnús og Sigurður Þorvaldsson komnir með 14 stig hvor og Chris Woods 12 stig. Craion hafði sett niður 13 stig og Helgi Már var kominn með 9 stig hjá KR.

KR byrjuðu með fyrstu 5 stigin í seinni hálfleik 48-53 en heimamenn voru virkilega að sýna klærnar og jöfnuðu 53-53. Dæmi um jafnræði liðanna Pálmi skoraði þrist fyrir Snæfell 58-55 en Helgi svaraði að bragði 58-58. Ingi Þór fékk tæknivillu þegar staðan var 60-60 og KR voru í vítaskoti eftur skoraða körfu. KR nýttu sér tvö stig 60-62. Segja má að Snæfellsmenn voru mættir á sinn heimavöll til að láta gestina vinna má vinnuna sína og gott betur því þeir komust yfir 67-66 og leiddu út þriðja hluta og gífurlega margt að smella í leik þeirra. Snæfell var yfir 75-73 eftir þriðja hluta.

Chris Woods fór mikinn á köflum og virtist hreinlega púslið sem Snæfell vantaði. Snæfell jafnaði 84-84 eftir að hafa lent undir 77-82. Pavel snerti þrennuna þegar 11 frákastið datt í hús og var þá með 16 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar. KR náðu oft góðum hraðaupphlaupum en nýttu þau ekki sem skildi og leikurinn jafnari fyrir vikið en á köflum gátu þeir gert sér meira úr sóknum sínum. Eftir tekið leikhlé gerðu rauðir gestirnir nákvæmlega það að nýta sér það betur og komu sér þægilega í bílstjórasætið 84-92. Snæfellingar reyndu hvað þeir gátu að taka til baka slæma sóknarkaflann og tapaða boltana en allt kom fyrir ekki og KR nýttu sér forskotið í þetta sinn með klukkuna með sér og höfðu erfiðan sigur 91-99. Ekki voru það gefins tvö stig sem vesturbæingar fóru með úr Hólminum og og fjölmargir ljósir punktar á leik Snæfells.

Snæfell: Chris Woods 26/16 frák. Sigurður Þorvaldsson 24/4 frák/4 stoðs. Austin M. Bracey 19/7 frák/4 stoðs. Stefán Karel 15/6 frák. Pálmi Freyr 5/6 frák. Sveinn Arnar 2/4 frák. Snjólfur Björnsson 0. Almar 0. Jón Páll 0. Sindri 0. Jóhann Kristófer 0. Viktor 0.

KR: Michael Craion 25/7 frák/4 stoðs/4 stolnir. Helgi Már 22/3 frák. Brynjar Þór 17. Pavel Ermolinskij 16/11 frák/13 stoðs. Finnur Atli 7. Björn Kristjánsson 6. Darri Hilmarsson 6. Jón Hrafn 0. Högni 0. Illugi 0.

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Eyþór Benediktsson
Umfjöllun – Símon B. Hjaltalín