Einar á toppnum!

Einar á toppnum!

Snæfellingar unnu toppslaginn á móti Keflavík í Keflavík fyrr í kvöld. Leikurinn var í járnum allan tímann en Keflavík hafði forystu fyrstu þrjá leikhlutanna en stelpurnar úr Stykkishólmi voru sterkari aðilinn í seinasta leikhlutanum og náðu sterkum sigri á útivelli.

Lokatölur 71-76 og Snæfellingar einar á toppi deildarinnar.

Keflvíkingar byrjuðu leik liðanna betur í kvöld og komust í 8-0 áður en Snæfellingar náðu að komast á blað. Snæfell náði þá 0-7 sprett og þar með náðu þær að minnka muninn úr átta stigum í eitt. Liðin skiptust þá á að skora en það leið langur tími milli karfa en nýting liðanna var ansi döpur í fyrri hálfleik öllum, varnarleikurinn var hinsvegar í fínu lagi. Keflvíkingar náðu að halda gestunum einu til þremur stigum fyrir aftan sig en Snæfellingar leiddu þó þegar fyrsta fjórðung þar sem þær skoruðu körfu rétt áður en flautan gall.

Það var sama sagan í öðrum leikhluta, það er að segja vörnin var í fyrirrúmi og Keflvíkingar náðu að halda Snæfellingum fyrir aftan sig á meðan liðin skiptust á að skora körfur. Keflvíkingar náðu mest fimm stigum í forskot en Snæfellingar náðu einu sinni forskotinu í öðrum fjórðung. Þegar annar leikhluti leið voru Keflvíkingar með þriggja stiga forystu, 33-30 og allt í járnum fyrir seinni hálfleik.

Seinni hálfleikur þróaðist á svipaðann máta og sá fyrri þar sem liðin voru að hitta illa en að spila fína vörn á köflum. Keflvíkingar höfðu þó undirtökin og náðu að komast mest í níu stiga forskot þegar skammt var eftir af þriðja fjórðung. Gestirnir náðu þó að laga forskotið aðeins með því að skora flautukörfu þegar leikhlutanum lauk og staða 50-44 fyrir lokaátökin.

Snæfellingar voru síðan sterkari aðilinn í lokafjórðungnum en þær voru búnar að éta upp sex stiga forskot heimamanna þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta og komnar yfir skömmu seinna. Þær bættu jafnt og þétt við forskotið og voru komnar sjö sigum yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Þær spiluðu skynsaman körfubolta það sem lifði af leiknum og Keflvíkingar komust ekki nær þeim en fimm stigum. Lokatölur urðu 71-76 Snæfellingum í vil og þær því einar á toppi Dominos-deildarinnar með 20 stig.

Keflvíkingar þurfa samt ekki að örvænta því þær eru í öðru sæti með 18 stig en þurfa jafnvel að vera ákveðnari í lok leikja til að loka þeim. Stigahæstar voru þær Carmen Tyson-Thomas, Keflavík með 19 stig og Kristen McCarthy hjá gestunum með 32 stig.

Sara Rún Hinriksdóttir: Spiluðum ekki nógu vel til að vera yfir
„Mér fannst við ekki tapa þessu á varnarleiknum allavega, við áttum fína spretti þar“, sagði Sara Rún Hinriksdóttir þegar blaðamaður spurði hvar leikurinn hefði tapast í kvöld. Hún hélt áfram: „Þetta var kannski eitthvað í hausnum á okkur sem var ekki á réttum stað í lok leiks. Við vorum yfir en áttuðum okkur kannski ekki á því af því að við spiluðum ekki nógu vel til að vera yfir.“

„Það er svekkjandi að hafa tapað þessum leik þar sem við vorum á heimavelli og ættum að geta spilað það vel að ná sigri á heimavelli. Við spilum oft vel á heimavelli og áttum að gera það í kvöld og vinna þennan leik“, sagði Sara að lokum.

Hildur Sigurðardóttir: Við ætlum náttúrulega að halda toppsætinu
leiðtogi Snæfellinga var spurð að því hvað hafi breyst fyrir seinasta leikhlutann og skilað sigri í hús: „Við þjöppuðum okkur betur saman og verið ákveðnari í okkar aðgerðum og hitta aðeins betur, ég var til dæmis ekkert að hitta í fyrri hálfleik. Þetta fór að detta í seinni hálfleik og við misstum þær aldrei of langt frá okkur og þetta var í rauninni mjög jafn leikur allan tímann.“

Skotnýting beggja liða var ekki til fyrirmyndar og var Hildur spurð að því hvort hún hefði skýringu á því: „Þetta var nú ekki stress þó að þetta hafi verið toppslagur, það er nóg eftir af deildinni. Við höfum ekki hitað nógu vel upp því þetta batnaði í seinni hálfleik. Fyrstu mínúturnar í leiknum eru liðin náttúrulega að reyna að finna sig í leiknum.“

Hildur var spurð út í framhaldið í deildinni en Snæfellingar eiga einir toppsætið í deildinni eftir kvöldið: „Við ætlum náttúrulega að halda toppsætinu, það eru held ég þrír leikir fram að jólum og við verðum að vinna þá til að vera á toppnum yfir jólin sem væri virkilega skemmtilegt. Ég veit samt að þetta verður hörku barátta og Keflvíkingar gefa ekkert eftir og bæði þessi lið verða í baráttunni um hverjir enda á toppnum.“

Mynd: Þorsteinn Eyþórsson (úr leik KR og Snæfells)
Frétt tekin af www.visir.is