Vont að horfa!

Vont að horfa!

Tindastóll vann öruggan sigur á Snæfelli í Dominos deild karla í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Lokatölur urðu 104-77 heimamönnum í vil og Sigur Tindastóls í raun aldrei í hættu. Grunninn að sigrinum lögðu Tindastólsmenn í 2. leikhluta þegar liðið keyrði nær eingöngu á heimamönnum, góðri blöndu af eldri og yngri leikmönnum sem léku sér á tíðum að Snæfellsliðinu sem vissu stundum ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Staðan 43-27 í hálfleik og heimamenn í góðum málum.

Lewis og Dempsey komu aftur inn í liðið í 3. leikhluta og komu sterkir inn, sérstaklega Dempsey sem spilaði á tíðum á annarri hæð en aðrir leikmenn inni á vellinum, átti nokkrar tröllatroðslur og endaði leikinn með 27 stig og 12 fráköst. Tindastólsliðið hélt áfram sömu keyrslu og í fyrri hálfleik og munurinn fljótlega kominn yfir 20 stig og nánast formsatriði að klára leikinn sem heimamenn og gerðu með stæl og unnu 27 stiga sigur.

Eins og áður segir var Dempsey yfirburðamaður á vellinum. Helgi Margeirs átti góða innkomu með 15 stig og setti niður 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum í leiknum, ótrúlegur sá gamli!. Pétur Rúnar Birgisson bætti við 13 stigum. Darrel Lewis var frekar rólegur fannst manni, sérstaklega miðað við síðasta leik hans í Röstinni en skoraði þó 13 stig, tók 12 fráköst og bætti við 6 stoðsendingum.

Ingi Þór, þjálfari Snæfells, var að vonum svekktur með úrslitin. Hann sagði í spjalli við karfan.is eftir leikinn að hans menn hafi vitað hverju þeir máttu eiga von á í Síkinu og hafi talið sig tilbúna í þá baráttu. Tindastóll hafi spilað mjög fast eins og þeir hefðu búist við og að þeir komist upp með það á heimavelli. Ingi sagði að Tindastóll hafi einfaldlega verið sterkara liðið og það hafi verið sama hver kom inná hjá Tindastól, allir hafi skorað. „Amma þín hefði skorað hefði hún spilað“ bætti Ingi við.

Kári Marísson var ánægður með Tindastólsliðið og sérstaklega hvernig þeir hefðu náð að rúlla á öllum leikmönnum. “ Það var hvergi veikur blettur“ sagði Kári.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Umfjöllun og myndir/ Hjalti Árnason
www.karfan.is