Dýrmætur sigur hjá Strákunum!

Dýrmætur sigur hjá Strákunum!

Í seinni leik dagsins í Íþróttahöll Stykkishólms háðu Snæfell og Keflavík einvígi í Dominosdeild karla. Snæfellingar í 8. Sæti með 8 stig og Keflavík í 4. Sæti með 10 stig og því ekki mikið sem ber í milli í deildinni.

Snæfell byrjaði betur og voru yfir 20-10 þegar Sigurður Þorvalds innsiglaði 10 stiga forystuna með þrist um miðjan fyrsta fjórðung þar sem þeir komust úr 4-8 stöðunni með 16-2 kafla. Keflavík hafði verið að dragast aftur úr eftir kröftugt upphaf beggja liða. Snæfellingar áttu mjög fína kafla, nýttu sér hraða og frí skot og vörn Keflvíkinga var langt frá að vera á tánum og heimamenn leiddu 25-15. Valur Orri fékk séns að laga stöðuna á vítalínunni kláraði tvö niður og það þriðja eftir dæmda tæknivillu á Snæfell, 25-18 og eftir lokaflaut fyrsta hluta 27-19 fyrir Snæfell.

Keflavík gerðust líklegir með baráttu sinni en náðu einhvernvegin ekki að klára það þegar Snæfell var að spila illa í upphafi annars hluta. Pálmi Freyr breytti því snarlega með þremur og Sigurður lék það eftir og staðan fljót að breytast úr 28-21 í 36-23. Heimamenn héldu sér duglega í 12 stiga mun í hálfleik 51-39 og máttu líka hafa fyrir því en Keflavík gerðu sig oft líklega og voru að dreifa álaginu á töflunni.
Sigurður Þorvaldsson var hins vegar ljár í þúfu gestanna kominn með 17 stig og 11 fráköst og Chris Woods kom næstur með 11 stig og 4 fráköst. Hjá Keflavík var Þröstur Leó kominn með 8 stig og 5 fráköst. Næst komu þeir félagar William Thomas og Valur Orri með 6 stig hvor. Snæfellingar voru að vinna frákastabaráttuna með nokkru, 27 gegn 14 Keflavíkur.

Heilt yfir þriðja hluta var leikurinn jafn og liðin að klaufast og gera vel til skiptis en Keflavík þurftu að bæta fráköst og stoppa í götin í vörninni en það var hægara gert en sagt og Snæfellingar fundu leiðir í sínum leik með því að keyra til að halda fenginni forystu og leiddu 72-60 fyrir fjórða fjórðung.

Keflavík sóttu vel á Snæfell og náðu að saxa niður í sjö stig 74-67 og svo 77-70 og voru að reyna að berja sig inn í leikinn með að rífa sig upp með Þröst Leó, Guðmund og Val Orra finnandi fjalirnar um allt hús. Snæfellingar gáfu allverulega eftir og Keflavík jafnaði með flottum leik 82-82 en þeir fóru að drita niður eintómum þristum og spila hraðar á Snæfell og skotin duttu niður. Tveir þristar frá Austin Bracey kom Snæfelli aftur á kortið og í raun björguðu öllu fyrir þá. Staðan var 91-84 þegar mínúta var eftir og 91-86 þegar 30 sekúndur voru eftir. Snæfellingar voru þá búnir að leggja hönd á stigin tvö og Keflvíkingar unnu ekki þannig úr málum að þeir gerðu atlögu að sigrinum og Snæfell sigraði 93-88. Þar með var tvíhöfði kvöldsins sigraður fyrst karlaliðið og svo kvennalið Snæfells.

Snæfell: Sigurður Þorvaldsson 24/16 frák/ 4stoðs. Chris Woods 21/10 frák/8 stoðs. Austin Bracey 21/5 frák/4 stoðs. Stefán Karel 16/7 frák. Pálmi Freyr 9. Sveinn Arnar 2/4 frák. Snjólfur 0. Sindri 0. Jón Páll 0. Almar 0. Jóhann Kristófer 0. Hafsteinn Helgi 0.

Keflavík: Þröstur Leó 19/11 frák. Guðmundur Jónsson 17/ 4 frák. Valur Orri 16/5 frák/7 stoðs. William Thomas 16/7 frák. Eysteinn Bjarni 9. Andrés Kristleifsson 5. Davíð Páll Hermannsson 4. Reggie Dupree 2. Gunnar Einarsson 0. Arnór Ingi 0. Hilmir Gauti 0. Aron Freyr 0.

Símon B. Hjaltalín