Öruggt hjá stelpunum!

Öruggt hjá stelpunum!

Snæfellsstúlkur sem hófu leik svolítið æstar tóku á móti Breiðablik í Hólminum. Heimastúlkur voru að flýta sér heldur mikið og leit út fyrir að þær ætluðu að klára þetta strax sem var alls ekki að ganga og á móti hittu þær illa og sendingar hurfu út í myrkrið. Blikar náðu þar með að halda jöfnu 6-6 eftir 6 mínútna leik en þær voru án, Hólmarans og grjótaharða Breiðfirðingsins úr Elliðaey, Unnar Láru. Snæfell tók hins vegar völdin síðustu tvær mínúturnar í fyrsta hluta eftir allt brasið og baslið í upphafi og staðan snarlega orðin 21-8.

Snæfell hélt áfram að stela boltum og ná flestum fráköstum og voru komnar í 20 stiga forystu um miðjan annan fjórðung, 37-17. Kristen McCarthy var komin með 18 stig fyrir Snæfell og Gunnhildur Gunnars 7 stig og hafði þá Rebekka Rán sett 5 stig þegar Snæfell leiddi í hálfleik 44-23. Hjá Breiðablik var Arielle Wideman komin með 7 stig og Berglind Karen 5 stig.

Í raun áttu Snæfell að vera fleiri stigum á undan en það sem komið var og skrifum við það oft á of mikinn kraft og að einföld sniðskot rötuðu ekki ofan í að, þar sem flest stigin voru eftir hraðaupphlaup og mikla spretti. Staðan eftir þriðja hluta 59-35.

Ekki skal það tekið af Breiðablik að henda oft í baráttumikla vörn og vera sífellt að reyna að pikka upp sinn leik og uppskáru oft ágætlega. Snæfell var hins vegar töluvert sterkara þetta kvöldið og í þessari síðustu umferð ársins í kvennadeildinni. Lokatölur 79-45 og Snæfell verma efsta sætið yfir hátíðarnar.

Snæfell: Kristen McCarthy 22/9 frák/ 6 stolnir. Gunnhildur Gunnarsdóttir 14. María Björnsdóttir 12. Hildur Sigurðardóttir 10/ 8 frák. Rebekka Rán 8. Berglind Gunnarsdóttir 5/12 frák/5 stoðs/6 stolnir. Alda Leif 4. Helga Hjördís 2/7 frák. Hugrún Eva 2/ 5 frák. Anna Soffía 0.

Breiðablik: Arielle Wideman 11/8 frák. Elín Sóley 10/9 frák/4 stolnir. Aníta Rún 8. Ingunn Erla 7. Berglind Karen 5. Jóhanna Björk 2/5 frák/4 stoðs. Arndís Þóra 0/4 frák. Hafrún Erna 0. Elín Kara 0. Kristín Rós 0.

Texti: Símon B. Hjaltalín.
Mynd – Sumarliði Ásgeirsson