Frábær sigur strákunum!

Frábær sigur strákunum!

Strákarnir okkar fór í Hafnarfjörðinn í kvöld og náðu í tvö dýrmæt stig. Án fyrirliðans voru strákarnir okkar staðráðnir í að bæta við sig og landa sigri, það tókst og má segja að hann hafi verið þægilegur þegar leið á leikinn. Strákarnir voru að spila flotta vörn og skotin tekin í góðum jafnvægi. Frábær sigur sem tekur okkur upp í 4. sætið í deildinni.

Hérna grípum við í umfjöllun frá www.karfan.is

Snæfellingar fóru með 20 stiga sigur af hólmi í kvöld er þeir unnu Haukanna nokkuð sannfærandi 77-97 í Schenkerhöllinni. Snæfellingar voru með þrjá menn sem skoruðu yfir 20 stig en Austin Magnus Bracey var með 25 stig og þeir Sigurður Á. Þorvaldsson og Christopher Woods rétt á eftir með 23 stig hvor. Haukarnir skutu sig hins vegar í kaf en þeir voru með einkar skelfilega 6% skotnýtingu fyrir utan þriggjastigalínuna eða 2 í 33 skottilraunum.

Leikurinn byrjaði mjög jafn en liðin skiptust á körfum. Snæfell voru hinsvegar að hitta mjög illa í byrjun og voru þeir 3 af 9 í skotum á fyrstu þremur mínútunum. Haukarnir komu sér í 7 stiga forystu, 16-9 eftir fjögurra mínútna leik en þá tók Snæfell 7-0 kafla á 90 sekúndum. Snæfell voru að fara illa með Haukanna í frákastabaráttunni og voru þeir komnir með 9 fráköst og þar af 6 sóknarfráköst gegn aðeins 5 heildarfráköstum hjá Haukum þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Snæfell fóru síðan að hitta miklu betur á öllum vígstöðum á meðan að Haukunum tókst aðeins að skora undir körfunni, voru með 1 af 7 í þriggjastigaskotum að loknum fyrsta leikhluta og átti það aðeins eftir að fara versnandi því lengra sem leið á leikinn. Haukar leiddu engu að síður að loknum fyrsta leikhlutanum 27-24.
Alex Francis var Snæfellingum erfiður en hann var með 13 stig og 5 fráköst í leikhlutanum.

Annar leikhluti fór mjög hægt af stað. Liðin skoruðu aðeins 3 og 8 stig á fyrstu 5 mínútunum og skoruðu Snæfell 6 stig á milli 14. og 15. mínútu. En tvær „og-ein“ karfa kom þeim yfir 30-32. Þá kom smá sóknarvillufarsi er þrjár sóknarvillur voru dæmdar á rétt rúmum 30 sekúndum. Haukar jöfnuðu leikinn í 36-36 en Snæfell kom þá með tvo snarpa þrista á loka mínútunni og komust 6 stigum yfir, 36-42. Staðan í hálfleik síðan 37-44.
Francis með 20 stig og 10 fráköst og hjá Snæfellingum var Sigurður Á. Þorvaldsson með 15 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar og Christopher Woods ekki langt á eftir með 14 stig og 7 fráköst. Haukar héldu áfram að vera afleitir fyrir aftan þriggjastigalínuna og bættu þeir við 11 skotum í tilraunadálkinn.

Fyrri hluti þriðja leikhluta var mjög jafn og skiptust liðin á körfum. En þá tók við 6-0 kafli hjá Haukunum þar sem þeir minnkuðu muninn í 55-56. Inga Þór Steinþórssyni leist ekkert á gang mála og tók leikhlé. Í pirringskasti sparkaði leikmaður Snæfells í stól og fékk bekkurinn því dæmda á sig tæknivillu. Það kom þó ekki að sök þar sem að Haukarnir misnotuðu vítaskotið að loknu leikhléinu. Snæfellingar peppuðust við það og áttu 5-0 kafla og komu sér í stöðuna 55-61. Þá tók Ívar Ásgrímsson leikhlé, en ekkert var stólasparkið Haukameginn. Leikhléið gerði hins vegar ekkert fyrir Haukanna og bættu Hólmarar bara í og leiddu með tólf stigum, 57-69, fyrir fjórða leikhlutann og var loka karfa Snæfellinga einstaklega glæsileg, Óli Ragnar Alexandersson stal boltanum og sendi nánast frá miðju á Snjólf Björnsson sem greip boltann í loftinu og lagði hann ofan í körfuna.

Fjórði leikhluti var jafn alveg þangað til á lokamínútunni og því breyttist lítið í leiknum. Emil Barja tókst að fá dæmda á sig tæknivillu fyrir kjaftbrúk þrátt fyrir að dæmt hafði verið tæknivilla á Óla Ragnar Alexandersson fyrir flopp í viðskiptum þeirra. En Haukum tókst ekki að stöðva sóknir Snæfellinga og bombuðu þristum í gríð og erg og því þæginlegur sigur fyrir Snæfell að leiks lokum.

Tölfræði leiksins

Hér fyrir neðan eru svo viðtöl við þá Ívar (þjálfara Hauka) og Sigga Þorvalds – viðtölin voru inn á visir.is
Ívar: Ekki hægt að menn komi ekki tilbúnir í leiki
„Við hittum einfaldlega ekki neitt. Það er erfitt að vinna þegar þú hittir ekki neitt,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, í leikslok.

„Kaninn var að setja niður sín skot, en við vorum ekkert að hitta fyrir utan. Við vorum að fá okkur hraðaupphlaup í bakið og þeir hittu vel úr sínum skotum, það er munurinn.“

„Við óðum í færum, það var ekki vandamálið, en það er ekki nóg. Menn þurfa að setja boltann ofan í. Við byrjum ágætlega sóknarlega, en varnarleikurinn var mjög slakur í fyrri hálfleik.“

„Við vorum ekki góðir í dag og við vorum að mssa mennina alltof mikið framhjá okkur hvort sem við vorum bakverðir eða senterar. Það vantaði meiri stemningu í vörnina einnig,“ en misstu hans menn hausinn?

„Það er erfitt að skjóta og skjóta og hitta aldrei, þá kemur svekkelsi. Við fórum að taka örvæntingarfull skot, sem er kannski skrýtið i ljósi þess að við vorum ekkert að hitta. Í staðinn fyrir að sækja á, en mér fannst við ekki missa hausinn og þetta er erfitt þegar þú hittir ekkert.

„Eins og staðan er í dag þá erum við að berjast um að komast í úrslitakeppni, en ekki um heimavallarrétt. Við ræddum það inn í klefa eftir leikinn að það væri ekki hægt að menn kæmu ekki tilbúnir,“ sagði Ívar og bætti við að lokum:

„Það eru búnir að vera góðar æfingar í vikunni að mínu mati, en það þarf að skila sér betur inn í leiki.“

Sigurður: Líklega okkar besti leikur í vetur
„Við náum bara varnarstoppum sem voru ansi stór fyrir okkur. Þeir hittu mjög illa,“ sagði Sigurður Þorvaldsson, lykilmaður Snæfells, í leikslok.

„Ég vona að þetta hafi verið við að spila góða vörn heldur en þeir að hitta illa. Það svona skóp sigurinn.“

„Við byggðum á vörninni í öðrum leikhluta. Þeir skoruðu ekki nema tíu stig í þeim leikhluta og mér fannst það vera kveikjan að þessu.“

„Í þriðja leikhluta duttum við aðeins niður, en tókum leikhlé og rifum svo okkur aftur upp. Við vorum ósáttir með varnarleikinn, en þegar við löguðum hann fannst mér þetta aldrei vera í hættu eftir það.“

„Það voru mjög margir að leggja á plóginn hjá okkur, en hjá þeim fannst mér þetta mæða mikið á útlendingnum. Hann var dálítið einn á móti okkur öllum. Við vorum með marga sem komu inn með stórar innkomur; kannski ekki að skora mikið, en að spila vel.

„Það komu allir inn með einhvað jákvætt og kraft. Þetta var líklega okkar besti leikur yfir allt í vetur.“

„Við stefnum á því að vinna alla leiki. Við erum ekki komnir í neina stöðu til að gefast upp. Við verðum bara að halda áfram,“ sagði þessi baráttujaxl að lokum.