Snæfell á Nettómótinu

Snæfell á Nettómótinu

Um síðustu helgi 7.-8. mars fór fram stærsta minniboltamót í körfu sem haldið er hér á landi. Mótið er samstarfsverkefni barna- og unglinaráðs körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur í samvinnu við Nettó og Reykjanesbæ. Mótið hefur undanfarin sex ár gengið undir heitinu Nettómótið. Þetta var 25. skiptið sem mótið er haldið í Reykjanesbæ og því afmælismót þar sem öllu var til tjaldað. Til leiks mættu yfir 1.100 krakkar frá 23 félögum, drengir og stúlkur á aldrinum 5 til 11 ára. Keppnisliðin reyndust vera 206 og leiknir voru 488 leikir á 31. klukkustund. Leikið var á 13 völlum samtímis og hver leikur 2 x 12 mínútur, þrátt fyrir að mótið hafi að þessu sinni einungis verið fyrir 5. bekk og yngri.

Mótið gekk frábærlega og eiga mótshaldarar heiður skilinn að klára mótið áfallalaust. Snæfell sendi 6 lið sem samanstóðu af 35 keppendum og þar af voru 2 iðkendur búsettir í Grundafirði sem spiluðu undir merkjum Snæfells og vonandi að þeir verði fleiri á næsta ári. Keppendur jafnt sem foreldrar gáfu allt í mótið, hvort sem var á vellinum, stúkunni, hoppuköstulunum, matmálstímunum, bíósýningum eða sundi. Kvöldvaka á laugardeginum hófst með svakalegri troðslusýningu þar sem 3 leikmenn úr röðum Keflavíkur og Njarðvíkur sýndu háloftatakta af bestu gerð. Þvínæst steig á stokk hinn barnungi töframaður, Jón Arnór, sem gerði hina ótrúlegustu hluti þó ekki sé hann hár í loftinu sá snillingur. Friðrik Dór mætti síðan með kassagítarinn og hristi stemminguna svo upp í hæstu rjáfur, að flestar mömmurnar í salnum urðu friðlausar og allt leit út fyrir að dansleikur væri að bresta á í TM höllinni. Til að leggja rjómatoppinn á tertuna kynnti Friðrik Dór til leiks Evróvisjón fulltrúa Íslands þetta árið, Maríu Ólafsdóttir sem sló botninn í kvöldvökuna þegar hún flutti framlag Íslands með íslenska textanum og allt varð brjálað í salnum. Endapunktur mótsins voru mótsslitin þegar keppendur í búningum undir fánum síns félags gengu inn á völlinn, fengu gullpening um hálsinn og körfubolta, sem vonandi verðu vel nýttur. Að lokum þökkuðu þau fyrir sig í kór.

Barna og unglinaráðs körfuknattleiksdeildar Snæfells færir þjálfurum, liðstjórum og foreldrum þakkir fyrir þeirra starf en lykillinn að velhepnuðu móti sem þessu er samvinna og jákvæðni. Fyrir starf félagsins eru mót sem þessi góður vettvangur til þess að meta árangur og sjá hvar tækifærin liggja, en umfram allt til þess að auka áhuga krakkana að taka þátt í hollri hreyfingu. Að lokum er rétt að hrósa Snæfellskrökkunum fyrir frábæra framistöðu og ljóst að framtíð félagsins er björt.