Klaufaskapur á móti Haukum

Klaufaskapur á móti Haukum

Tvífrestaður leikur síðan 25. Febrúar og svo frá í gær loksins orðinn að veruleika en menn vilja meina að veðrið hafi verið að stríða okkur í vetur, en auðvitað er þetta allt spurning um hugafar og vorið á næsta leyti.
Haukastúlkur fóru snemma í langferðabílinn þennan daginn og leikurinn í Stykkishólmi kl 12:15 sem ætti auðvitað alltaf að vera leiktími, taka daginn snemma 🙂

Liðin voru að spila ágætis varnarleik í upphafi en fór að losna um allt slíkt þegar hraðinn fór að aukast. Staðan var 12-9 fyrir Snæfell og jafnræði var í leiki liðanna. Heimastúlkur þéttu þá varnarleikinn og Haukar tóku slök skot og hentu boltanum í hendur Snæfells sem nýttu sér það og komust í 21-10. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 23-14 og Snæfellsstúlkur í forystu.

Þær voru margar að skipta vel með sér framlagi í Snæfelli en flestar sóknir enduðu á Dagbjörtu Samúels og Lele Hardy hjá Haukum sem héldu í við forskot Snæfells í öðrum hluta og söxuðu eilítið á 34-29. Haukar voru þá þéttari fyrir og Snæfellsstúlkur að gera sér erfitt fyrir. Þrjú stig skildu liðin að þegar síga tók á fyrri hálfleikinn 37-34. Auður Íris og Sólrún Inga sóttu í sig veðrið við Breiðafjörðinn og gáfu í fyrir gestina. Snæfell hins vegar komust í 9 stiga forystu fyrir lokaflautið í fyrri hálfleik 43-34.

Í liði Snæfells var Kristen komin með 12 stig og Gunnhildur 10 stig. Hildur Sigurðar var þeim næst með 7 stig og 7 fráköst. Lele Hardy hafði skorað 12 stig fyrir Hauka og tekið 6 fráköst, Dagbjört var með 9 stig og Sólrún Inga var komin með 7 stig.

Haukar tóku 11-0 stökk þegar staðan var 47-37 og komust yfir 47-48. Lele Hardy var þar í aðalhlutverki ásamt Dagbjörtu. Lele smellti niður sex stigum og Dagbjört fjórum og allt liðið tók þátt í baráttunni varnarlega þar sem stökkið var á hvern bolta. Þriðji hluti varð æsispennandi fyrir vikið og leikurinn hnífjafn og mikil spenna fyrir alla sem í húsinu voru, sem voru allmargir. Snæfell gerðu sig líklegar í bílstjórasætið en Sólrún Inga tók það af þeim snarlega með þrist 53-54 sem var lokastaða fjórðungsins þriðja.

Þau voru ekkert að rjúka á töfluna með látum stigin hjá liðunum eftir rúmar þrjár mínútur í fjórða hluta og varnarleikurinn hafður í hávegum en staðan var 6-5 fyrir Snæfell og 59-59 í leiknum. Haukar komust þá í tíu stiga forystu 63-73 og Snæfellstúlkur fóru að afhenda boltann í hendur gestanna sem gerðu allt sitt með miklum krafti. Fyrir þeim fór Lele Hardy sem var að hirða fráköstin hvert af fætur öðru fyrir utan þessi 32 stig. Með 24 sekúndur eftir var staðan 67-73 fyrir Hauka og Snæfell voru að erfiða við að koma cher inn í leikinn og lítið gekk. Ingi Þór fékk sína aðra tæknivillu í leiknum og brottrekstur úr húsinu. Haukastúlkur voru hins vegar harðar og börðust vel og náðu flottum sigri með sínum leik 67-74.

Snæfell að líta sitt þriðja tap í vetur en áfram í efsta sæti með fjögra stiga forystu. Haukar að styrkja sína stöðu betur í topp fjórum með því að taka þriðja sætið og komast í úrslitakeppnina en það eru engu að síður fjórar umferðir eftir í deildarkeppni kvenna í Dominosdeildinni.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 20/11frák. Hildur Sigurðardóttir 14/8 frák/7 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 11/4 frák. Berglind Gunnarsdóttir 7/4 frák/4 stoðs. Helga Hjördís 5/5 frák. Hugrún Eva 4/4 frák. María Björnsdóttir 4. Rebekka Rán 2. Rósa Kristín 0. Anna Soffía 0. Alda Leif 0.

Haukar: Lele Hardy 33/23 frák/6 stoðs. Dagbjört Samúelsdóttir 13. Sólrún Inga 10. Auður Íris 7. Sylvía Rún 5/9 frák. Þóra Kristín 5. Hanna Þráinsdóttir 1. Guðrún Ósk 0. Rakel Rós 0. Rósa Björk 0. Magdalena 0. Dýrfinna 0.

Viðtal við Inga Þór
Viðtal við Ívar Ásgríms

Símon B Hjaltalín.