Snæfell deildarmeistarar 2015!

Snæfell deildarmeistarar 2015!

Stelpurnar fóru suður með sjó og spiluðu hörkuleik! Við óskum stelpunum innilega til hamingju með Deildarmeistaratitilinn! Nú ætlum við að hjálpa þeim að klára tvo síðustu leikina með sigri og koma á flugbrautinni inn í úrslitakeppnina.

Hér fyrir neðan er umfjöllun frá karfan.is

Bikarmeistarar Grindavíkur voru nánast óþekkjanlegar í kvöld þegar þær tóku á móti toppliði Snæfells í Dominosdeild kvenna. Snæfell hinsvegar augljóslega tilbúnar að klára mótið með sæmd og tryggja sig sem fyrst deildarmeistaratigninni. Það gerðu þær svo um munaði í kvöld þegar þær óðu yfir gestgjafa sína og sigruðu 60:88 og eiga þær nú heimavallarréttinn vísan í úrslitakeppninni.

Það er ekki að sjá annað en að þetta Snæfellslið sé tilbúið í úrslitakeppnina. Þær voru samstilltar allan leikinn gegn Grindavík, vörn þeirra þétt og sóknarleikurinn létt leikandi. Mótspyrnan var hinsvegar töluvert minni en búist var við fyrir leik. Það tók Grindavíkurstúlkur langan tíma að átta sig á því að þetta kvöldið yrði leikinn körfuknattleikur. Vörn þeirra gulklæddur var í besta falli tilviljanakenndur og sóknin álíka slök. Leikur liðsins skánaði örlítið þegar líða tók á leikinn og þær áttu jú ágætis áhlaup í þriðja leikhluta þar sem þær náðu að minnka muninn niður í 13 stig en þar með var hápunkti þeirra náð þetta kvöldið.

Ljósi punkturinn í liði Grindavíkur var undir lok leiks þegar Hrund Skúladóttir kom inná, korn ung og efnilegur leikmaður og sýndi gestum sína litla virðingu og skoraði einhver 6 stig á jafn mörgum mínútum.

Þetta Snæfellslið líkt og það lék í kvöld er algert skrímsli að eiga við. Sem fyrr segir vörnin nánast loftþétt á tímum og svo voru þær fljótar að keyra í bakið á illa tilbúnum Grindavíkurstúlkum sem skilaði þeim svo auðveldum körfum. Kristen McCarthy er að spila gríðarlega vel þessa dagana og 33 stig og 11 fráköst virtist líta út eins og hver annar mánudagur hjá henni. Hlidur Sigurðardóttir skákaði henni hinsvegar og hnoðaði í þrennu takk fyrir takk og setti 23 stig, tók 11 fráköst og sendi 12 stoðsendingar á félaga sína.

Tölfræði leiksins
Myndasafn
Umfjöllun – karfan.is