http://snaefell.is/wp-content/uploads/2015/04/snaekef-1-8_1-1024x724.jpgHÁSPENNA, LÍFSHÆTTA!

HÁSPENNA, LÍFSHÆTTA!

Snæfell tók á móti Keflavík í fyrsta leik úrslita Dominosdeildar kvenna. Allar heilar og væntanlega klárar og ef ekki núna hvenær þá. Upphafsmínúturnar voru jafnar og lítið skorað um tíma og staðan 7-9 um miðbik fyrsta hluta. Liðin stilltu upp í mikla varnarveggi og voru alveg með þann hluta leiksins á hreinu. Sóknir urðu þá tilviljunarkenndari og liðin urðu að hafa sig við að komast að körfunni. Þær fóru að setja niður stigin á meðan mínúturnar liðu og Snæfell leiddi 22-18 í afar spennandi kappleik þar sem Helga Hjördís kom af krafti með síðustu 5 stig Snæfells.

Hildur Sigurðardóttir skellti niður þrist og tvist í upphafi annars hluta og kom Snæfelli í 27-18. Keflavík lagaði eilítið til hjá sér reyndu pressu eftir skoraða körfu en Snæfell sá til þess með hröðum sóknum sínum að vera í 10 stiga forystu 33-23. Ingunn Embla og Birna Valgarðs sáu til þess að fleyta gestunum inn í leikinn á ný með stórskotum nánast frá Grundarfirði og kraftur hljóp um liðið sem komust nær 35-33 með góðum stoppum í vörninni. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik var staðan aðeins eitt stig 40-39 og Sara Rún jafnaði af vítalínunni 40-40. Keflavík sóttu stíft og börðust vel og voru óhræddar er þær leiddu í hálfleik 40-45.

Um stigaskor Snæfells sáu fyrst og fremst Kristen McCarthy sem var komin með 16 stig í hálfleik og Hildur Sigurðardóttir kom næst með 12 stig. Carmen Thomas var komin með 13 stig og 7 fráköst fyrir Keflavík og Birna Valgarðsdóttir 11 stig. Sara Rún kom steinsnar frá þeim með 10 stig.

Snæfell byrjuðu seinni hálfleik af krafti og settu niður fyrstu níu stigin og tóku forystu aftur 49-45. Eftir rúman fjögra mínútna leik var eins og tappinn hefði verið tekinn úr Keflavík og engar sóknir gengu eftir. Munurinn var þó engu að síður bara 4 stig og Snæfell gátu gert betur í að bæta í en eins og lok hefði verið sett á körfu Keflavíkur. Staðan var 55-45 og Keflavík ekki enn skorað stig þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja hluta en þá bætti Sara Rún úr þurrkinum með glæsilegum þrist. Snæfell höfðu átt 15-0 áhlaup unnu leikhliutann 16-5 og leiddu eftir þriðja hluta 56-50.

Heimastúlkur voru harðar í að halda áfram og settu fyrtsu sex stigin í fjórða hluta. Kristen var fljótlega komin með fjórar villur og þurfti að vara sig því mikið var undir að hafa hana inni á vellinum fyrir Snæfell en þær leiddu 62-52. Snæfellsstúlkur héldu ágætlega á spöðunum yfir fjórða fjórðung héldu fenginni forystu og leiddi 69-59. Jafnræði var þó með liðunum sem skiptust á að skora. Keflavík síaði sig inn í leikinn undir lokin, áttu fín áhlaup og voru búnar að setja niður í fjögur stig 71-67 með 1:43 á klukkunni. Lokamínútan var æsispennandi og gríðalega mikil barátta. Carmen setti þrist og kom Keflavík einu stigi nær 73-72. Kristen fékk svo fimmtu villuna þegar 17 sekúndur voru eftir og Birna kom gestunum yfir 73-74 af vítalínunni. Brotið var á Hildi sem fór á vítalínunna setti bæði skotin niður þegar 5.9 sekúndur voru eftir og Keflavík náðu ekki að gera sér mat úr síðasta skotinu. Lokatölur 75-74 og Snæfell 1-0 yfir í einvíginu.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 32/12 fráköst/5 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 21/6 fráköst/7 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 10/4 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5/5 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 4/4 fráköst, María Björnsdóttir 3/5 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 0/5 fráköst, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Berglind Gunnarsdóttir 0, Anna Soffía Lárusdóttir 0.

Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 28/13 fráköst/7 stolnir, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 15/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 15/4 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 6/10 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 5/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 5/6 fráköst, Lovísa Falsdóttir 0, Hallveig Jónsdóttir 0, Svanhvít Ósk Snorradóttir 0, Marín Laufey Davíðsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Thelma Dís Ágústsdóttir 0.

Símon B. Hjaltalín.
Mynd – Eyþór Ben.
Hildur var lykil-maður leiksins

hildur-lykill