Frábær sigur í Keflavík!

Frábær sigur í Keflavík!

Stelpurnar okkar spiluðu frábærlega lengst af í leiknum, þá sérstaklega fyrstu 17 mínúturnar og þær síðustu 3-4 í leiknum. Skipulagið og baráttan skilaði sér í gegnum sjónvarpið fyrir þá sem ekki fóru á völlinn. Stelpurnar spila fyrir hvor aðra og hafa svo gaman af því, það er því hrein unun að fylgjast með þeim spila körfubolta.

Magnaður sigur hjá þeim, sem setur þær í ansi góða stöðu, við megum þó ekki fara fram úr okkur og halda að bikarinn fari þegjandi og hljóðlaust á loft á mánudaginn. Við munum sjá brjálað Keflavíkurlið mæta í Hólminn, við þurfum að mæta þeim bæði á vellinum og stúkunni!

Viðvörunnarbjöllurnar eru komnar í gang, TAKTU MÁNUDAGSKVÖLDIÐ FRÁ OG MÆTTU Á LEIK! GERUM ALLT VITLAUST!

Við grípum hér í umfjöllun af visir.is

Snæfell er komið í 2-0 í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna. Þær unnu Keflvíkinga í Keflavík í hörkuleik þar sem Snæfell var betri aðilinn í fyrri hálfleik og gerðu nóg í seinni til að klára leikinn sem endaði 76-85.

Gestirnir úr Stykkishólmi byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu fyrstu fjögur stig leiksins. Næstu andartök fyrsta leikhlutans þá skiptust liðin á körfum en Keflvíkingar voru meiri klaufar í sóknarleik sínum en þrátt fyrir það héldu þær í við gestina þangað til tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhlutanum þegar Snæfellingar náðu að rífa sig níu stigum frá heimakonum sem var mesta forskot þangað til í leiknum. Leikhlutanum lauk í stöðunni 22-31 og voru Snæfellskonur vel að forskotinu komnar.

Snæfellskonur byrjuðu annan leikhlutann betur og voru ekki á því að taka fótinn af bensíngjöfinni og opnuðu þær fjórðunginn á 7-0 sprett áður en heimakonur komust á blað. Þegar um þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum þá þurfti að gera hlé á leiknum vegna bilunar á skotklukkunni en Snæfellskonur komu betur út úr því og náðu þær mest 17 stiga forskoti um miðjan annan fjórðung 25-42 og voru Keflvíkingar ekki í sambandi. Heimakonurnar tóku síðan við sér og náðu að laga stöðuna niður í 10 stig áður en flautað var til hálfleiks. Það sem var að skila Snæfellingum forskotinu var mjög góð hittni ásamt því að heimakonur misstu boltann klaufalega frá sér á mikilvægum tímapunktum sem Snæfellingar nýttu sér vel.

Munurinn í þriðja leikhluta var lengi vel 8-10 stig og var mikið jafnvægi í leiknum. Það voru síðan Keflvíkingar sem náðu góðum leikkafla þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja fjórðung sem skilaði sér í því að munurinn var ekki nema þrjú stig fyrir lokafjórðunginn. Fínn varnarleikur sem neyddi gestina úr Stykkishólmi í erfið skot eða tapaða bolta voru lykilatriði fyrir heimakonur í þriðja leikhluta ásamt því að vítin fóru að rata niður fyrir Keflvíkinga en hittni þeirra af línunni hafði verið mjög döpur í fyrri hálfleik. Staðan 63-66 fyrir Snæfell þegar þriðja fjórðung lauk og allt í járnum.

Bæði lið skoruðu körfu á fyrstu mínútu fjórða leikhluta en næstu andartökin á eftir frysti í skothöndunum og var mikil spenna í leikmönnum beggja liða. Heimakonur náðu muninum niður í eitt stig sem var minnsti munur síðan í stöðunni 0-0. Þegar liðin byrjuðu að hitta aftur varð aftur mikið jafnvægi í leiknum og skiptust liðin á körfum en Snæfellingar náðu að halda Keflvíkingum fyrir aftan sig, einu til þremur stigum. Keflvíkingar náðu loksins að jafna og komast yfir þegar hálfur leikhluti var eftir af leiknum en í stöðunni 74-74 skoraði Helga Hjördís Björgvinsdóttir svakalegann þrist sem kom Snæfellingum yfir 74-77 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Þá skelltu gestirnir í lás í vörninni og það sem eftir lifði leiks skoruðu Keflvíkingar ekki nema tvö stig á móti átta stigum gestanna.

Snæfellingar eru því komnar í 2-0 og geta klárað einvígið og tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna á mánudaginn kemur í Stykkishólmi. Þær voru vel að sigrinum komnar og má segja að mikil áræðni í lok leiks hafi skilað sigrinum.

Ingi Þór Steinþórsson: Langt í frá að vera búið
Mjög svo ánægður þjálfari Snæfells var spurður að því í leikslok hvað hans leikmenn hafi gert rétt í sigrinum á Keflavík á föstudagskvöld.

„Við mættum til leiks með rosalega áræðni og reynslu af tveimur tapleikjum hérna í Keflavík bæði í deild og bikar. Í þeim leikjum verðum við hræddar og bökkum þegar Keflvíkingar réðust að okkur. Í dag bökkuðum við ekki og vorum áræðnar og stýrðum þessum leik þó að þær hafi náð forystu í fjórða leikhluta. Við vorum að fá framlag frá öllum einnig.“

Ingi var því næst spurður út í frammistöðu Kristen McCarthy sem sallaði 43 stigum á Keflvíkinga í kvöld.
„Báðir útlendingar núlla sig út og voru þær báðar frábærar í dag en við fengum aðeins meira framlag frá fleirum í dag en Keflavík og fannst mér það munurinn í kvöld. Í fyrri hálfleik sýndum við besta sóknarleikinn okkar í allan vetur og erum að skjóta vel, setjum t.d. sjö þriggja stiga skot í röð en það hafa komið nokkrir leikir í röð þar sem við skorum ekki þriggja stiga körfu. Þetta kom úr vörninni, eins og gamla klisjan segir, með góðri vörn kemur sjálfstraust.“

„Bæði lið voru að spila vel í kvöld, Keflvíkingar skora 42 stig í fyrri hálfleiks sem er mjög mikið en við setjum 52 stig sem er frábært. Við vitum það hinsvegar að þetta er langt í frá að vera búið.“

Hvað þurfa Snæfellingar að gera til að gera út um einvígið á mánudaginn kemur?

„Við þurfum að spila betur, ná betri vörn og halda áfram að fá framlag frá öllum. Við megum ekki við einu eða neinu. Það eru tvær hjá okkur, ef við segjum að það séu 130 þræðir í vöðvunum, þá eru þær með sex eða sjö þræði eftir. Við þurfum að jafna okkur um helgina og fara yfir það sem við gerðum vel og leiðrétta það sem við gerðum rangt og bara vera betri á mánudaginn heldur en við höfum verið í fyrstu leikjunum.“

Sigurður Ingimundarson: Við ætlum að vinna á mánudaginn, það er alveg klárt
Þjálfar Keflavíkur var spurður að því á hvað væri hægt að skrifa tap Keflvíkinga fyrir Snæfell í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við erum náttúrulega að spila við mjög gott lið sem urðu deildarmeistarar í vetur sem spiluðu frábærlega í kvöld. Við hinsvegar vorum of köflóttar og á tímum gátum við bara ekkert í sóknarleiknum. Við erum ungt lið og þær eiga það til að fara út úr því sem þær eiga að vera að gera og það eru fáar sem eru að skora. Það er vandamálið núna.“

Sigurður var því næst spurður út í hvað hægt væri að gera svo að einvígið sneri aftur til Keflavíkur í næstu viku.

„Við gerum helling. Það gerir okkur hinsvegar erfitt fyrir að úrslitakeppni yngir flokka er um helgina, einhver snillingur ákvað það, þannig að flestar af stelpunum mínum verða í Hólminum að keppa í úrslitum um helgina. Þannig ég hef engar æfingar og getum við því ekki breytt neinu en við ætlum að vinna á mánudaginn, það er alveg klárt.“

Þannig að það er hugarfarið hjá leikmönnum sem Sigurður verður að vinna með fyrir leikinn á mánudag?

„Já, þær eru alveg nógu góðar en eiga það til að fara út úr því sem þær eiga að gera og má skrifa það á reynsluleysi enda mjög margar enn í unglingaflokk og hafa aldrei verið aðalleikmenn í einvígi áður. Það tekur tíma að ná því.“

Sigurður var spurður hvort eitthvað væri hægt að gera varðandi Kristen McCarthy.

„Hún er hrikalega góð, ég hef reyndar ekki oft séð Snæfell hitta eins og þær hittu í dag. Þær hittu nánast úr öllu og McCarthy sérstaklega, hjá okkur er ekkert vandamál hver skorar hjá þeim bara er við skorum meira. Sóknarleikurinn okkar hefur verið smá vandamál hjá okkur, við erum að fá stig frá fáum leikmönnum og það er ekki það sem við viljum. Svo er kaninn okkar að skora mjög mikið fyrir okkur og við viljum það ekki heldur við viljum hafa þetta öðruvísi. Snæfellingar eru sáttir við að kaninn sinn taki öll þessi skot en það viljum við ekk.“

Keflavík-Snæfell 76-85 (22-31, 20-21, 21-14, 13-19)

Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 43/11 fráköst/7 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 16/10 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 9/7 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 6, Hallveig Jónsdóttir 2, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 0/4 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 0, Marín Laufey Davíðsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Ingunn Embla Kristínardóttir 0, Elfa Falsdottir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 43/11 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 17/13 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/7 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5, Alda Leif Jónsdóttir 5/6 fráköst/6 stoðsendingar, María Björnsdóttir 4, Berglind Gunnarsdóttir 2, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0/6 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0, Anna Soffía Lárusdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.