Tap í Hafnarfirði hjá unglingaflokk kvenna

Stelpurnar í unglingaflokki kvenna sem höfðu fyrir leikinn í dag unnið alla sína þrjá leiki mættu toppliði unglingaflokks Haukum á útivelli, lokatölur 72-52.

Lítið var skorað í upphafi og bæði lið að gera mistök, Haukar voru með þær Evu Margréti og Sylvíu í fantastuði en þær skoruðu 16 af 18 stigum Hauka í fyrsta leikhluta. Staðan eftir fyrsta leikhluta 18-13. Rebekka Rán og Sara Diljá sáu um stigaskorunina en Lísbet hjálpaði þeim með lokakörfu leikhlutans. Kristín Birna og Rebekka Rán komu Snæfell yfir með tveimur þriggja stiga körfum í upphafi annars leikhluta og í tvígang skiptust liðin á að hafa forystu. Fjögur síðustu stig fyrri hálfleiks voru Hauka og þær leiddu 33-27 í hálfleik.

Í upphafi þriðja leikhluta byrjaði Rebekka Rán að skora og minnka muninn í fjögur stig 33-29, en sex stig í röð komu leiknum í tíu stig og Haukastúlkur bættu um betur og náðu 13-4 kafla og leiddu 54-37 eftir þrjá leikhluta. Þriðji leikhlutinn varð stelpunum okkar að falli í þessum leik og reyndu að skipta um vörn en það dugði ekki, skotin náðu ekki að detta þrátt fyrir góðar stöður og um það snýst leikurinn.

Í fjórða leikhluta náðu Snæfellsstelpurnar með góðri baráttu að koma muninum niður í 8 stig 54-46 með 9-0 kafla en Haukastúlkur voru öflugri og áttu fleiri vopn sem dugði þeim til 72-52 sigurs og þær því ennþá ósigraðar með 5 sigra á meðan að Snæfellsstúlkur eru með 3 sigra og eitt tap.

Næsta verkefni Snæfellsstúlkna er heimaleikur gegn Keflavík sunnudaginn 15. nóvember klukkan 16:00. Keflavík hafa einungis leikið tvo leiki, sigrað Breiðblik mjög stórt en tapað fyrir Haukum með sex stigum.

Stigaskor leikmanna í dag.

Snæfell: Rebekka Rán Karlsdóttir 17 stig, Anna Soffía Lárusdóttir 12, Sara Diljá Sigurðardóttir 10, Theodóra Ægisdóttir 6, Kristín Birna Sigfúsdóttir 3, Andrea Björt Ólafsdóttir og Lísbet Rós Ketilbjörnsdóttir 2, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0.

Haukar: Eva Margrét Kristjánsdóttir 21 stig, Sólrún 13, Sylvía 12, Þóra 9, Dýrfinna 8, Ragnheiður 6, Rósa 3, Magdalena, Kristín, Alexandra, Þórdís og Hanna 0.