Öruggur sigur í Rimaskóla

Öruggur sigur í Rimaskóla

Snæfellsstelpurnar héldu í borgina í dag og léku við Fjölnisstúlkur í Rimaskóla, lokatökur 64-84 fyrir Snæfell sem leiddu í hálfleik 29-37. Stigahæst var Rebekka Rán Karlsdóttir með 28 stig. Hjá Fjölni var Margrét Eiríks stigahæst með 18.

Snæfell náði forystunni í byrjun og leiddu 4-10 en Fjölnir jöfnuðu 10-10 og komust yfir 15-13 áður en Rebekka Rán jafnaði leikinn 15-15 sem var lokastaðan eftir fyrsta leikhluta. Rebekka Rán og Anna Soffía skoruðu átta fyrstu stigin í örðum leikhluta og eftir það hélst leikhlutinn jafn á milli liðanna, staðan í hálfleik 29-37 Snæfellsstelpunum í vil.

Snæfellsstelpurnar hertu tökin og spiluðu fína vörn og boltinn gekk betur í sókninni, 3-20 kafli á 4 mínútum kláraði nánast leikinn en staðan eftir þrjá leikhluta 45-62. Sara Diljá var að skjóta boltanum vel fyrir utan og var drjúg í stigaskorinu. Allar stelpurnar fengu góð tækifæri í leiknum og stóðu þær sig með prýði. Anna Soffía náði að snúa á sér ökklann en vonandi er það ekki alvarlegt. Lokatölur 64-84.

Stigaskor Snæfell: Rebekka Rán Karlsdóttir 28 stig, Anna Soffía Lárusdóttir 17, Sara Diljá Sigurðardóttir 16, Hrafnhildur Magnúsdóttir 8, Andrea Björt Ólafsdóttir 6, Kristín Birna Sigfúsdóttir 5, Lísbet Rós Ketilbjarnardóttir 1, Aníta Ýr Bergþórsdóttir 0, Emilía Ósk Jónsdóttir 0.

Stigaskor Fjölnis: Margrét Eiríksdóttir 18 stig, Aníka Linda Hjálmarsdóttir 17, Fanney Ragnarsdóttir 13, Friðmey Rut Ingadóttir 7, Elísa Birgisdóttir 4, Sigrún Elísa Gylfadóttir 2, Hanna Ástvaldsdóttir 0, Themla Rut Sigurðardóttir 0, Snæfríður Einarsdóttir 0.

Næstu leikir hjá stelpunum eru þeir báðir á heimavelli. Fyrst er það tvífrestaður leikur gegn Grindavík laugardaginn 5. mars klukkan 15:00 og svo sunnudaginn 6. mars klukkan 13:00 gegn Breiðablik.