Flott frammistaða í Keflavík

Flott frammistaða í Keflavík

Stelpurnar okkar í unglingaflokki töpuðu mjög stórt fyrir Keflavík í bikarúrslitum í febrúar en svo komu Keflavík í heimsókn í hólminn og þá sigruðu Keflavík 51-73 og léku án A-landsliðs kvenna sinna. Í kvöld voru Keflavík með fullmannað lið. Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum en hann endaði 69-51. Sara Diljá Sigurðardóttir var stigahæst með 18 stig.

Rebekka Rán byrjaði leikinn með látum og skoraði fyrstu 8 stig Snæfells sem leiddu allan fyrsta leikhluta, Sara Diljá, Andrea Björt og Anna Soffía skoruðu sínar körfur en Rebekka Rán sá mest um stigaskorið í þessum leikhluta eða 13 stig. Staðan eftir fyrsta leikhluta 18-20 Snæfell í vil. Í öðrum leikhluta komust Keflavík yfir í fyrsta skipti 25-22 og virtust ætla að taka leikinn yfir en barátta Snæfellsstúlkna var til fyrirmyndar og þær minnkuðu muninn í 32-31 sem var staðan í hálfleik.

Í þriðja leikhluta pressuðu Keflavíkurstúlkur vel á boltann og náðu auðveldum körfum uppúr því, staðan var 41-35 áður en frábær kafli hjá Snæfell datt í hús. Anna Soffía smellti þá niður þrist og Sara Diljá fylgdi á eftir og raðaði niður tveimur til viðbótar. Teódóra sem kom sterk inn í síðari hálfleikinn setti tvö stökkskot og Snæfell yfir 41-46. Pressuvörn Keflavíkur hertist og náðu þær að komast yfir með 8-0 kafla 49-46 áður en Sara Diljá jafnaði leikinn 49-49. Í fjórða leikhluta gekk ekkert upp hjá Snæfell – fjórar dömur voru búnar að spila allan leikinn og voru orðnar þreyttar á meðan að Keflavík gátu skipt hverjum landsliðsmanninum inná og skilaði það sér í fjórða leikhluta. Keflavík sigruðu hann 20-2 og lokatölur 69-51.

Snæfellsstepur stóðu sig mjög vel í þessum leik og eru töluverðar framfarir í leik þeirra frá því í haust. Stelpurnar eiga eftir einn leik í deildarkeppninni og það er frestaður leikur gegn Þór Akureyri á heimavelli 10. apríl.

Stelpurnar gætu endað jafnar Breiðablik en þær sigruðu með 10 stigum á heimavelli og töpuðu á útivelli með 10. Þær eiga ennþá leikinn gegn Þór Akureyri heima og verður hann að vinnast með meira en 9 stigum til að stelpurnar eigi möguleika á að komast í undanúrslit.

Stigaskor Snæfell: Sara Diljá Sigurðardóttir 18 stig, Rebekka Rán Karlsdóttir 13, Anna Soffía Lárusdóttir 8, Andrea Björt Ólafsdóttir 6, Teódóra Ægisdóttir 4, Kristín Birna Sigfúsdóttir 0, Emilía Ósk Jónsdóttir 0.

Stigaskor Keflvaíkur: Bríet Sif 12 stig, Sandra Lind 11, Guðlaug Björt 11, Marín Laufey 7, Emelía Ósk 6, Elfa 5, Katla Rún 4, Írena Sól 2, Þóranna 2, Lovísa Ósk 0, Andrea 0.