Andrée Michelsson til liðs við Snæfell

Andrée Michelsson til liðs við Snæfell

Körfuknattleiksdeild Snæfells skrifuðu í dag undir eins árs samning við ungan og efnilegan bakvörð Andrée Michelsson en hann er uppalinn í Svíþjóð þar sem hann hefur leikið með Malbas í Malmø. Andrée er fæddur 1997 en hann á Íslenska móður sem kom með honum í Stykkishólm þegar að pilturinn skrifaði undir í dag.

Andrée varð sænskur meistari með U19 ára liði Malbas í fyrra en þar var hann með 15.1 stig að meðaltali, 3.5 fráköst og 6.8 stoðsendingar. Andrée var einnig í leikmannahópi Malbas í sænsku úrvalsdeildinni en kom minna við sögu þar.

Andrée er 188 cm hár en hann leikur stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Kappinn mun koma í Hólminn í haust þar sem hann mun koma til að sýna sig og sanna.

Það voru ánægðir formenn sem skrifuðu undir samninginn við Andrée í dag.
Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson formaður Snæfells og Gunnar Svanlaugsson formaður KKD Snæfells eru hérna ásamt Andrée Michelsson.