http://snaefell.is/wp-content/uploads/2016/10/14876311_10154598553414593_1405629979_o.jpgFlottur sigur á Tindastólsdömum í Stykkishólmi

Flottur sigur á Tindastólsdömum í Stykkishólmi

Stelpurnar í unglingaflokksliði Breiðabliks/Snæfell fengu Tindastólsdömurnar í heimsókn í Stykkishólm í dag þar sem heimastúlkur sigruðu 68-47 eftir að hafa verið yfir 42-22 í hálfleik. Anna Soffía Lárusdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir voru stigahæstar með 20 stig.

Jafnræði var á milli liðanna í byrjun og staðan 5-5 en þá kom heimahnátan Anna Soffía inn og kveikti í liðinu með góðri þriggja stiga körfu og staðan eftir fyrsta leikhluta 20-11. Stelpurnar voru að spila vel saman og opna trekk í trekk fyrir hvor aðra. Isabella Ósk eignaði sér teiginn með vörðum skotum og varnarfráköstum.

Í öðrum leikhluta skoruðu Tindastólsdömur fyrstu körfuna og minnkuðu muninn í 20-14, stelpurnar voru ákveðnar gegn bæði maður á mann og svæðisvörn gestanna og sigldu fram úr og leiddu 42-22 í hálfleik þar sem allir leikmenn komu inná og gerðu fína hluti.

Tindastólsdömurnar hófu seinni hálfleik af krafti og skoruðu fyrstu sex stigin áður en Isabella Ósk skoraði fimm stig í röð fyrir Breiðablik/Snæfell en áræðni gestanna var örlítið meiri í þessum leikhluta sem endaði 10-13 fyrir Tindastól og staðan 52-35.

Tindastóll kepptust á að skipta um varnarleik og það leystu dömurnar okkar á köflum ljómandi vel og sigldu þær flottum 21 stigs sigri 68-47 í höfn.

Stigaskor Breiðablik/Snæfell: Anna Soffía Lárusdóttir, Isabella Ósk Sigurðardóttir 20 stig, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 12, Lísbet Rós Ketilbjarnardóttir 7, Kristín Rós Sigurðardóttir 3, Linda Kristjánsdóttir, Melkorka Pétursdóttir og Arndís Þór Þórisdóttir 2, Kristín Birna Sigfúsdóttir 0.

Stigaskor Tindastóls: Bríet Lilja 22 stig, Linda Róberts 8, Telma Ösp 6, Hera Sigrún 4, aðrar minna.

Eftir leik buðu foreldrar Önnu Soffíu dömunum heim í Kjúklingasúpu og er myndin þaðan.

Næsti leikur er gegn Keflavík í Smáranum laugardaginn 5. nóvember klukkan 16:00. Breiðablik/Snæfell hafa unnið alla þrjá leiki sína líkt og Keflavík og verður spennandi að sjá hvernig sá leikur fer.