http://snaefell.is/wp-content/uploads/2017/10/1492750_1384051081852180_1562516335_o.jpghttp://snaefell.is/wp-content/uploads/2017/10/1492750_1384051081852180_1562516335_o.jpgFormannsbréf

Formannsbréf

Þökkum öflugan stuðning kæru Snæfellingar og áfram gakk.

Mörg okkar muna Sigurð Helgason, íþróttakennara og síðar skólastjóra hér í Hólminum. Það var hann sem að gaf tóninn að hér myndi henta best að stunda körfubolta sem boltagrein yfir vetrartímann. Við erum að tala um árin upp úr 1952.
Allar götur síðan hefur verið gríðarlega gott samstarf á milli UMF Snæfells, skólanna, bæjarfélagsins sem og bæjarbúa. Það hefur verið rauði þráðurinn í gegnum starfið sem heild.
Árangur í öllu starfi tengist sannarlega ýmsum þáttum s.s. einstaklingunum hverju sinni, aðstöðunni, samfélaginu og síðast en ekki hvað síst, stemningunni í bæjarfélaginu fyrir hverju verkefni fyrir sig.

Menn koma og menn fara og þannig verður það alltaf og þannig er það í öllu sem að við erum að gera. Þessi ferðalög kalla fram bæði jákvæðar sem og neikvæðar sveiflur í starfinu sem aftur gefa okkur önnur tækifæri.

Ég undirritaður sem tók að mér metnaðarfullt starf sem formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells á vordögum 2009 er svo heppinn að hafa fengið tækifæri á að upplifa það að vera barn, unglingur og síðan fullorðinn maður hér í bænum. Stunda margt af því félagsstarfi sem í boði hefur verið hverju sinni.
Við krakkarnir horfðum á eldri stjörnur bæjarins með glampa í augum og hlökkuðum mikið til að verða stór og þannig hefur það alltaf verið og verður áfram. Þannig liggur mikil ábyrgð á okkur sem að stöndum í forsvari fyrir félagsstarfi að vanda okkur í öllum okkar verkefnum. Það er alveg á kláru að við erum öll að gera okkar besta hvort sem við erum innan vallar sem utan. Markmið okkar er alltaf að gera betur í dag en í gær og eingöngu þannig verður framþróun.

Sá hópur fólks sem nú heldur utan um starfið hjá meistaraflokkum Snæfells er öflugur og gefur allt sem mögulegt er í verkefnið. Það eru ekki allir sem hafa áttað sig á því að frá árinu 2009 hafa meistaraflokkar Snæfells skilað 17 titlum í Hólminn – já við erum að tala um magnaðan árangur hjá aðeins rúmlega 1200 manna samfélagi. Það er margur stærri klúbburinn sem getur ekki státað sig af slíku en myndu gjarnan vilja vera í okkar sporum.

Sannarlega er starfið miklu meira en þessir áðurnefndu titlar. Sjáum til að mynda aldursdreifinguna á leikjum Snæfells eða ættum við bara að kalla leikina veislur? Fólk sem kemur úr öllum áttum og öllum störfum samfélagsins. Hvað haldið þið að hafi m.a. staðið uppúr hjá yngri kynslóðinni og kannski fleirum þegar að Maríusystur voru heimsóttar af sjónvarpinu í sumar? Jú þær léku sér í körfubolta við gaflinn á íþróttahúsinu í öllum sínum herklæðum og brostu allan hringinn.

Það er svona sem að hlutirnir gerast og Maríusystur, eins og við hin, hafa beðið spenntar eftir að nýtt tímabilið hæfist því þetta er ein af þeirra leiðum til að kynnast bæjarlífinu sem og fólkinu í bænum sem best. Þær upplifa sig svo frjálsar og öruggar í þessu félagsmálaumhverfi eins og þær segja sjálfar.

Í kring um hvern leik eru ótal verkefni sem eru unnin í endalausri sjálfboðavinnu. Það þarf að auglýsa leikina, flagga á leikdegi, gera húsið klárt, selja miða, halda utanum leikinn, selja eitthvað hollt í hálfleik, ganga frá eftir leik o.fl., o.fl. Síðan er það ritaraborðið sjálft með öllum sérfræðingum leiksins. Til þessa starfa þurfum við að fá c.a. 20 manna hóp hverju sinni og hefur það gengið ótrúlega vel og vil ég færa þessu frábæra starfsfólki bestu þakkir.

Nú er nýtt keppnistímabil ný hafið og mikill hugur í öllum hlutaðeigandi að standa okkur áfram vel.

Strákahópurinn leikur í 1. deild. Það urðu okkar hlutskipti að falla niður um deild s.l. vor. Því höfum við endurskipulagt allt okkar starf hjá ungu og gríðarlega efnilegu liði. Við ætlum áfram sem hingað til í hvern leik til að vinna en um leið efla okkur sem einstaklinga. Markmiðið er að verða enn betra körfuboltalið og vera komin aftur í hóp hinna bestu á næstu þremur til fjórum árum. Það hafa ekki verið fleiri heimamenn í strákaliði okkar lengi og er það vel. Þannig byggjum við best upp og það er það sem að samfélagið vill . Til viðbótar styrkjum við hópinn með öflugum leikmönnum sem hafa áhuga og metnað fyrir okkar markmiðum og starfi.

Stelpurnar eru sannarlega búnar að vera á toppnum í nokkur ár og hafa staðið sig ótrúlega vel miðað við samsetninguna á hópnum. Þær eru mjög margar sem að hafa verið að stunda ýmiskonar framhaldsnám á háskólastigi og því æft með hinum ýmsu liðum á Reykjavíkursvæðinu en komið svo heim í æfingar og leiki. Það eru forréttindi að fá að starfa með slíkum krökkum sem vilja berjast áfram fyrir sitt uppeldisfélag sem og Hólminn, þótt að klárlega væri þægilegra að ganga í einhvern stórklúbbinn á Reykjavíkursvæðinu þ.e. í næstu götu. Nei Snæfell er íþróttafjölskyldan okkar og þannig verður það, segja þær brosandi.

Við skulum endalaust muna þann góða árangur sem að liðin okkar hafa unnið til og öll önnur verkefni sem þau hafa sinnt með stakri prýði. Við höfum ekki alltaf verið sátt við árangur eða niðurstöður leikja . Slík reynsla nýtist hins vegar til að verða betri.

Kæru stuðningsmenn sem og styrktaraðilar. Án ykkar værum við ekki á þessum stað í okkar félagsstarfi. Ég vil fyrir hönd Snæfellsfjölskyldunnar þakka ykkur mikla tryggð við starfið og um leið jákvæða hvatningu því það er eingöngu þannig sem við náum að bæta okkur. Það er með íþróttafólkið eins og okkur öll að við mætum alltaf til leiks til að ná sem bestum árangri og það gerum við með því að gera alltaf okkar besta – meira getur maður ekki farið fram á.

Í þessum töluðu orðum ættu að vera komnir seglar í hvert hús á Snæfellsnesi sem er gjöf frá okkur til ykkar. Þar sjáið þið hvar og hvenær liðin okkar eru að spila. Við hvetjum ykkur til að heimsækja okkur hér í Hólminum nú eða í útileikjum okkar. Þannig styrkjum við best hið öfluga starf sem að við Snæfellingar erum svo stolt af.

Baráttukveðjur með endalausu þakklæti út um allan heim

Gunnar Svanlaugsson, formaður kkd Snæfells / meistaraflokka.

Meistaraflokkur karla hefur unnið alla titla sem í boði eru hjá KKÍ
Bikarmeistarar 2010 febrúar
Íslandsmeistarar 2010 apríl
Meistarar Meistaranna 2010 október
Lengjubikarmeistarar 2010 október
Deildarmeistarar 2011

Meistaraflokkur kvenna hefur unnið alla titla sem í boði eru hjá KKÍ
Lengjubikarmeistarar 2012 september
Meistarar Meistaranna 2013 október
Deildarmeistarar 2014 mars
Íslandsmeistarar 2014 apríl
Meistarar Meistaranna 2014 október
Deildarmeistarar 2015 mars
Íslandsmeistarar 2015 apríl
Meistarar Meistaranna 2015 október
Bikarmeistarar 2016 febrúar
Íslandsmeistarar 2016 apríl
Meistarar Meistaranna 2016 október
Deildarmeistarar 2017 mars

Pistilinn birtist fyrst í Stykkishólmspóstinum.