
Í gær gerðu stjórn, þjálfarar og leikmenn meistaraflokks Snæfells upp leiktímabilið, skemmtilegt kvöld þar sem leikmenn liðsins, þjálfarar og stjórn gerðu sér glaðan dag á Skúrnum. Ýmis verðlaun voru afhent og helstu verðlauna hafar voru eftirfarandi.
Mikilvægasti leikmaður tímabilsins 2024/2025 var valinn Juan Luis Navarro en Juan átti frábært tímabil fyrir Snæfell og er mikill leiðtogi innan sem utan vallar.
Mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar var valinn Khalyl Waters en hann steig virkilega vel upp og spilaði frábærlega í seríunni við Hamar.
Besti varnarmaður tímabilsins 2024/2025 var valinn Sturla Böðvarsson en þessi ungi leikmaður hefur sýnt ótrúlega góða takta varnarlega og les leikinn frábærlega. Sturla er mikið efni sem við bindum miklar vonir við á næstu tímabilum. Sturla fékk mörg verkefni varnarlega í vetur og skilaði þeim flestum mjög vel þá sérstaklega í úrslitakeppninni þar sem hann náði að halda sneggri leikmönnum vel fyrir framan sig.
Mestu framfarir á tímabilinu 2024/2025 fékk ungur og efnilegur leikmaður, Hjörtur Jóhann Sigurðsson. Hjörtur hefur alla burði til þess að brjóta sér leið inn í lið Snæfells á næsta ári. Sumarið er tíminn eins og segir í kvæðinu og vonumst við til að sjá Hjört í frábæru standi í upphafi næsta tímabils.
X-Factor tímabilsins 2024/2025 var valinn Matt Treacy en Matt kom inn í liðið 9. janúar og frá fyrstu mínútu breytti hann liðinu. Matt sýndi gæði sín með frábærum sóknarleik og gerði hann mikið fyrir aðra leikmenn liðsins í leikjum og á æfingum. Matt var sannkallaður X-factor fyrir Snæfell á þessu tímabili.
Síðastur en alls ekki sístur var valinn félagsmaður Snæfells tímabilið 2024/2025, þau verðlaun fékk Aron Ingi Hinriksson. Aron Ingi er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Hann leggur sig ávallt fram innan sem utan vallar. Aron Ingi er svo sannarlega vel að þessum verðlaunum kominn og vonandi fáum við að njóta hans krafta í mörg ár í viðbót. Aron Ingi sýndi það og sannaði að hann er frábær leikmaður í úrslitakeppninni og verða lið að varast þriggjastiga skot hans auk þess spilar Aron Ingi vörn af líf og sál.
KKD. Snæfells þakka enn og aftur fyrir frábæran stuðning á tímabilinu og vonumst við til þess að halda áfram á sömu braut á næsta tímabili. Fleiri fréttir innan tíðar af samningamálum og fleira.
Áfram Snæfell