
Tindastóll hafði betur gegn Snæfelli í fjörugum og skemmtilegum leik þar sem lokatölur urðu 115–98, Snæfell leiddi í byrjun 4. Leikhluta en Tindastóll seig fram úr síðustu 5 mínútur leiksins og kláruðu leikinn af mikilli yfirvegun. Leikurinn var þó lengi jafn og spennandi þar sem okkar menn sýndu hvað í þeim býr og ættu að vera til alls líklegir í framhaldinu.
Snæfell byrjaði leikinn af krafti og Jakorie Smith lét strax til sín taka með tveimur þristum snemma í fyrsta leikhluta. Leikurinn var jafn framan af og liðin skiptust á að leiða, þar sem bæði liðin léku hraðan leik og sóttu mikið í körfuna. Juan Luis og Aytor Johnson komu Snæfelli vel af stað sóknarmegin, á meðan Taiwo Badmus og Dedrick Basile voru áberandi hjá Tindastóli.
Tindastóll náði þó smám saman tökum á leiknum í fyrsta leikhluta með sterkri pressu og góðri sókn. Þeir nýttu mistök Snæfells vel og náðu nokkurra stiga forskoti, en Snæfell hélt sig þó vel inni í leiknum með góðri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Fyrsti leikhluti 25 – 27 fyrir Tindastól.
Í öðrum leikhluta hélt svipuð stemning áfram. Snæfell sýndi sterkar taugar og liðin skiptust á að leiða, meðal annars með góðu framlagi frá Hirti Jóhanni Sigurðssyni og Ísaki Erni Baldurssyni. Varnarleikurinn var þó ekki alltaf nægilega stöðugur og Tindastóll refsaði oft fyrir það sérstaklega í hraðaupphlaupum.
Taiwo Badmus var afar áhrifamikill á þessum kafla, bæði undir körfunni og af vítalínunni, á meðan Davis Geks og Ivan Gavrilovic settu niður mikilvæg skot utan af velli. Í hálfleik var Tindastóll með forskot, 51–48, en ljóst var að leikurinn var langt frá því að vera ráðinn.
Í þriðja leikhluta reyndi Snæfell að minnka muninn og Jakorie Smith hélt áfram að leiða sóknina með góðum skotum og endaði meðal annars leikinn með 10 þriggja stiga körfur. Sturla Böðvarsson var grimmur í frákastabaráttunni sérstaklega á þessum kafla og reif niður 15 stykki í leiknum. Leikhlutinn var sveiflukenndur, þar sem liðin skiptust á áhlaupum. Snæfell minnkaði muninn í nokkur skipti niður í 3–4 stig, en í hvert skipti svaraði Tindastóll með stórum körfum, oft eftir sóknarfráköst eða stolna bolta. Fyrir lokahlutann var staðan 82–79 Snæfell í vil eftir magnaðann bözzer þrist frá Jakorie Smith og allt opið.
Snemma í fjórða leikhluta leiddu okkar menn leikinn en þegar um 5 mínútur voru eftir sýndi Tindastóll hins vegar styrk sinn. Dedrick Basile var þá sérstaklega öflugur og setti niður þrjá þrista á skömmum tíma sem kippti fótunum undan Snæfelli. Varnarleikur gestanna varð betri og Snæfell tapaði boltum á vondum tímapunktum og Tindastóll refsaði um leið.
Þrátt fyrir að Snæfell næði að jafna leikinn um miðjan leikhlutann og jafnvel komast yfir í stuttan tíma ásamt því að gestirnir voru búnir að pressa okkar menn allan leikinn, þá tók reynsla og meiri orka Tindastóls yfir, Taiwo Badmus leiddi sína menn til sigursl, sótti vítaskotin af mikilli festu og þeir héldu forskotinu þar til lokaflautan gall.
Snæfell barðist til vel loka leiks og eiga stórt klapp á bakið skilið eftir þessa frammistöðu. Frábær leikur hjá okkar mönnum og ekki vantaði stemninguna með fulla stúku!
Heildstætt var þetta skemmtilegur leikur með miklum hraða og fjölmörgum flottum tilþrifum, þar sem Tindastóll sýndi yfirvegun þegar mest á reyndi og tryggði sér sigur eftir öflugan fjórða leikhluta.
Jakorie Smith var mjög öflugur og stigahæstur í leiknum. Hann skoraði 36 stig, hitti 52% úr skotum sinna. Auk þess tók hann 10 fráköst, stal 4 boltum og bar uppi sókn Snæfells stóran hluta leiksins.
Sturla Böðvarsson skilaði mjög flottu framlagi með 11 stig, 15 fráköst og öflugan varnarleik, meðan Juan Luis Navarro bætti við 13 stigum og barðist vel undir körfunni eins og alltaf.
Aytor Johnson Alberto átti einnig sterkan leik fyrir Snæfell með 23 stig, og fína skotnýtingu (50%). Hann stjórnaði tempói liðsins lengi vel og var mikilvægur hlekkur í sóknarleiknum.
Fyrir Tindastól voru nokkrir leikmenn áberandi. Taiwo Badmus var öflugur með 30 stig, 11 fráköst og 9/10 í vítum, meðan Dedrick Deon Basile var með 25 stig, frábæra skotnýtingu (80%) og 8 stoðsendingar.
Adomas Drungilas klikkaði ekki á skoti og skoraði 18 stig.
Ítarlegri tölfræði: https://fibalivestats.dcd.shared.geniussports.com/u/KKI/2793378/bs.html#ASFSK