Eitt núll!


Úrslitakeppni kvenna var startað í Hólminum þar sem Snæfell tók á móti Valsstúlkum þar sem Snæfell hafði sigur 95-84 og leiða 1-0. Þær höfðu undirtökin ¾ af leiknum en Valsstúlkur komu með gríðarmikinn leik í fjórða hluta.

Leikurinn hófst af mikilli spennu og tempói og komust Valsstúlkur í 4-9 og var Ragna Margrét Snæfelli erfið í fráköstunum. Hildur Björg var einnig ákveðin í að gera eitthvað í málunum og eftir að nafna hennar hafði sett þrist þá kom hún Snæfelli yfir 15-11 með næstu 5 stigum og þremur fráköstum. Snæfell leiddi 23-18 eftir fyrsta hluta og allt opið. Hugrún Eva þurfti að fara meidd af velli undir lok hlutans og talið vera slæmt.
Snæfellsstúlkur gáfu svo hressilega í í upphafi annars leikhluta og komust í 39-25 og tóku varnarleikinn á hærra stig. Valsarar sáu þann kost vænstan að taka sér smá tíma í spjall þegar staðan var 42-27 og hraðar sóknir Snæfells voru að ganga ágætlega upp. Gestirnir reyndu pressu og uppskáru lítið og Snæfell hafði forystu í hálfleik 53-38 og voru illviðráðanlegar.
Hildur Björg var í góðu formi komin með 15 stig og 7 fráköst, Chynna Brown 13 stig og Helga Hjördís 10 stig. Hjá Val var Anna Alys Martin komin með 10 stig og Hallveig Jónsdóttir 7 stig.

Líkamlegir pústrar og barátta einkenndi leikinn og var fast spilað en dómarar leiksins settu línuna snemma sem var aðeins of há þrátt fyrir að úrslitakeppnin sé hafin og mættu skoða þá stefnu sem þeir settu í leiknum og leyfðu.
Snæfell byrjaði á að stela boltum spila öfluga vörn og skora fyrstu sex stig þriðja hluta og Valsstúlkur fengu varla að stilla upp. Heimastúlkur voru svo fljótt komnar í 20 stiga forskot 61-41 og komust hvað eftir annað inn í sendingar Valsara. Lítið var að gert í þessum þriðja hluta sem Snæfell réði með yfirburðum og staðan fyrir lokafjórðung leiksins 76-54.

Valsstúlkur höfðu saxað aðeins á og náð þessu niður fyrir 20 stiga mun eftir að Snæfells komust í 75-51 mun og staðan 76-56. Þær héldu áfram að vera grimmar á pressunni og uppskáru 9-0 kafla upphafi fjórða hluta og staðan 76-63 þegar Snæfellingar vildu laga sig til og skröfuðu um það og settu svo sín fyrstu stig á töfluna eftir þriggja mínútna leik.

Valsstúlkur settu upp flotta vörn og voru mættar til að reyna í alvöru að gera eitthvað í leiknum, með töluverðri hörku einnig og það stuðaði Snæfell sem voru að missa leikmenn útaf í meiðsli og harða pústra í leiknum. Snæfell hleyptu Val ansi nálægt miðað við forskotið sem þær höfðu og staðan 84-72 þegar 2:30 voru eftir og voru að ganga í fang Vals hvað eftir annað sem gestirnir nýttu sér. Snæfellstúlkur höfðu 8 stiga forskot 88-80 þegar mínúta var eftir og tíminn tikkaði með þeim og höfðu erfiðan sigur að lokum 95-84.

Snæfell: Chynna Brown 22/8 frák/4 stoðs. Hildur Björg 19/12 frák. Guðrún Gróa 15/8 frák. Helga Hjördís 15/7 frák. Hildur Sigurðardóttir 14/4 frák/12 stoðs/4 stolnir. Alda Leif 6. Eva Margrét 4. Edda Bára 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0. Hugrún Eva 0.

Valur: Anna Alys Martin 20. Hallveig Jónsdóttir 16. Kristrún Sigrjónsdóttir 15. Ragna Margrét 8/15 frák. Guðbjörg Sverrisdóttir 7/7 frák. Þórunn Bjarnadóttir 5. Unnur Lára 5. Ragnheiður Benónísdóttir 4. Rut Herner 2. María Björnsdóttir 2. Sólilja Bjarnadóttir 0. Margrét Ósk 0.

Hildur Björg var að vonum sátt við landa fyrsta leiknum en við hjá Karfan.is króuðum hana af í stutt spjall og hún talaði um þær hafi gengið aðeins of mikið í gildrur Valsstúlkna á slæma kaflanum í lokin. „Við gengum í allar þeirra gildrum sem þær settu upp og einfaldlega afhendum þeim boltann hvað eftir annað og urðu virkilega óákveðnar. Það verður klárlega farið yfir fullt af hlutum í okkar leik þrátt fyrir sigur hér í dag og við verðum búnar að klára það fyrir leikinn á mánudag.“

Ágúst Björgvinsson sagði okkur að sínar stúlkur hafa séð það fyrir sér að Snæfell væru á góðri leið með að rjúfa 100 stiga múrinn og eitthvað þyrfti að gera. „Við settum upp varnartaktík til að koma bara í veg fyrir að þær héldu áfram að skora og við náðum að halda þeim í um 3 stigum á sjö mínútum. Þetta kom bara með meiri ákveðni og erum að spila á móti liði sem hefur vart stigið feilspor í vetur og við höfum allt að vinna. Þegar að staðan var orðin vonlaus fórum við fyrst að spila. Það byrjar 0-0 á mánudaginn og spennandi á sjá hvernig dömurnar mæta til leiks.“

Símon B. Hjaltalín
mynd – Eyþór Ben