Slök byrjun okkur aftur að falli!

Slök byrjun okkur aftur að falli!

Liðin sem mættust í Hólminum voru bæði komin í úrslitakeppnina, Snæfellingar rétt að sligast inn en Keflvíkingar sannfærandi í topp fjórum. Ekkert stig var skorað í rúmar tvær og hálfa mínútu en Stefán Karel bætti úr því og skellti fyrstu stigum leiksins á töfluna. Ótrúlega slakur sóknarleikur Snæfells eða góður varnarleikur Keflavíkur, dæmi hver fyrir sig, gerði það að verkum að staðan var 4-13 fyrir Keflvík þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta hluta. Snæfellingar komust þó yfir 10 stigin og staðan 13-23 fyrir gestina eftir fyrsta fjórðung sem voru sjálfir ekkert sérstakir og í raun hefðu þeir getað verið töluvert meira yfir.

Allt var þetta hin mesta óspenna og óttalega gæðalítið en Keflvíkingar voru sterkir í upphafi annars hluta og tóku 8-0 kafla á fyrstu tveimur mínútunum og komust í 13-30 þar sem Michael Craion var einráður að mestu. Snæfell voru framan af í stöðnuðum sóknarbolta og hittu illa nema að vítalínunni. Snæfellingar sóttu í sig veðrið úr 22-37 í 33-39 og hægt og sígandi fóru að gera sér þetta að leik. Staðan í hálfleik var 35-43 fyrir Keflavík.

Travis Cohn var kominn með 9 stig, Nonni Mæju 8 stig og Stefán Karel 7 stig fyrir Snæfell. Í liði Keflavíkur var Michael Craion með 19 stig og 8 fráköst en næstur honum var Gunnar Ólafsson með 8 stig.

Snæfellingar voru komnir á slóðina en misstu dampinn í þriðja hluta og Keflvíkingar tóku þetta úr 44-49 í 44-61 og á þeim kafla fékk Jón Ólafur sína fjórðu villu sem var tæknivilla og Snæfell voru hreint út sagt arfaslakir. Staðan eftir þriðja hluta var 54-66 og Snæfell höfðu girt sig aðeins.
Snæfellingar girtu sig það vel að þeir komust nær 74-79 þegar 3:50 voru á klukkunni í fjórða hluta og Jón Ólafur í miklum ham og slæmt fyrir Snæfell að missa hann útaf þegar staðan var 76-81. Tæknivilla fór á bekk Snæfells en mikil spenna var komin í loftið og fólk farið hrópa og kalla misjafnt hér og þar. Þessu fylgdi önnur tæknivilla og brottrekstur á Andy Johnston þjálfara Keflavíkur og Craion var kominn með fimm villur einnig. Óvenju miklir umhleypingar í þessum þýðingarlitla leik og líkt og um fyrsta leik í úrslitum væri að ræða. Þegar 1:30 voru eftir var staðan 80-83 fyrir Keflavík og Snæfell minnkaði munin í tvígang í eitt stig og Keflavík komust í 84-89 á vítalínunni sem voru lokatölur.

Að endingu athyglisverður og umhleypingasamur leikur sem leit svo allt öðruvísi út í fyrstu en hann endaði og varð frá því að vera leikur sem væri formsatriðið eitt og handónýtur körfubolti yfir í þrúgandi spennu og hitamikinn leik sem líktist mest oddaleik í undanúrslitum, en gæðin voru sett annarstaðar í leiknum og geymd fram í komandi úrslitakeppni ….…. vonandi.

Snæfell: Jón Ólafur 23/11 frák. Travis Cohn 19/12 frák/ 6 stoðs. Stefán Karel 11/9 frák. Pálmi Freyr 9. Kristján Pétur 8. Finnur Atli 8. Snjólfur BJörnsson 3. Þorbergur Helgi 3. Sveinn Arnar 0/4 frák. Viktor 0.

Keflavík: Michael Craion 27/10 frák. Darrel Lewis 21/4 frák. Guðmundur Jónsson 18/4 frák. Gunnar Ólafsson 10/6 frák. Arnar Freyr 5/5 frák. Þröstur Leó 4/5 frák. Valur Orri 4/5 frák/4 stoðs. Hafliði Már 0. Hilmir Gauti 0. Andri Daníelsson 0. Birkir Örn 0. Aron Freyr 0.

Símon B. Hjaltalín.
Mynd – Sumarliði Ásgeirsson