Tap í kvöld, áfram gakk!

Tap í kvöld, áfram gakk!

Stelpurnar náðu ekki að fylgja eftir góðri byrjun í leik kvöldsins, tapaðir boltar og sóknarfráköst Vals var stór partur af því að Valur náði í þennan sigur. Stelpurnar okkar hafa sýnt það í allan vetur að þær eru frábært lið og koma án efa tilbaka eftir þetta tap. Nú er að hvíla sig vel og mæta snarvitlausar í næsta leik sem er á miðvikudaginn hérna í Hólminum. Við viljum fylla húsið og fá alvöru stemmningu á pallana, stelpurnar eiga það svo sannarlega skilið. Hér fyrir neðan er góð umfjöllun frá www.visir.is við þökkum þeim kærlega fyrir og bjóðum þá velkomna í Hólminn á miðvikudaginn þegar leikur 3 er spilaður.

Helsta tölfræði leiksins:
Valur-Snæfell 78-66 (16-21, 25-11, 17-12, 20-22)
Valur: Anna Alys Martin 38/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 13, Kristrún Sigurjónsdóttir 8, Ragnheiður Benónísdóttir 7/4 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 6/5 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 2/8 fráköst/5 stoðsendingar, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 2, María Björnsdóttir 2/4 fráköst, Rut Herner Konráðsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0, Sóllilja Bjarnadóttir 0, Þórunn Bjarnadóttir 0.

Snæfell: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 20/9 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 15/7 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 11/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 10/8 fráköst/9 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 8/15 fráköst/5 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 2, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Edda Bára Árnadóttir 0, Berglind Gunnarsdóttir 0, Helga Margrét Þorsteinsdóttir 0.

Umfjöllun frá visir.is
Valur vann flottan sigur 78-66 í úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna í kvöld.
Þetta var annar leikur liðanna í undanúrslitum en deildarmeistarar Snæfells unnu fyrri leikinn og staðan því 1-1 í einvíginu. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki.
Snæfell varð fyrir því óláni að bæði Chynna Brown og Hugrún Eva Valdimarsdóttir meiddust í síðasta leik og léku ekki í kvöld. Hugrún verður ekki meira með á tímabilinu. Þessar fréttir gáfu Val byr undir báða vængi.

Snæfell byrjaði leikinn í kvöld reyndar prýðilega og náði tíu stiga forskoti. En Valsliðið efldist í stað þess að leggja árar í bát og lauk fyrri hálfleiknum með frábærum kafla. Valur náði þægilegri forystu og með skynsemi hleypti það Snæfelli ekki of nálægt sér.

Viðtal við Inga Þór
„Það voru mörg mistök hjá okkur sem gáfu þeim beint körfu eða góða stöðu. Það var of mikið af töpuðum boltum,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Snæfell byrjaði leikinn prýðilega og náði tíu stiga forystu en svo fór allt í baklás.

„Við urðum ragar um leið og liðið fór að gera mistök. Við fórum út úr því sem við vorum að gera. Við fengum ágætis tækifæri til að saxa á forskotið en nýttum þau ekki. Þegar okkur fannst við þurfa að laga eitthvað skutum við ótímabærum skotum og fengum hraðaupphlaup á okkur í staðinn.“

Ingi var allt annað en sáttur við að fá tæknivillu í lok fyrri hálfleiks.

„Ég var ósáttur við einn dóm og fékk aðvörun. Ég snéri mér við en fékk tæknivillu þrátt fyrir að hafa ekki verið neitt dónalegur. Svona er bara lífið og þegar sjónvarpið er í gangi þá eru hlutirnir oft erfiðari. Ég var ekki ókurteis en það má ekkert í dag. En þessi dómur breytti ekki úrslitum leiksins,“ sagði Ingi en leikurinn var sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Meiðslavandræði Snæfells hafa sett strik í reikninginn hjá Inga en næsti leikur verður strax á miðvikudag.

„Þetta er spilað alltof þétt. Öll liðin fjögur hljóta að vera ósátt. Einhverjar Valsstelpur snéru sig í dag og það sama er hjá okkur. Einn dagur eða tveir milli leikja myndi bjóða upp á meiri gæði í einvíginu. Við verðum samt tilbúnar á miðvikudag og seljum okkur dýrt í Stykkishólmi.“

Viðtal við Ágúst
„Við vorum að spila taktískt vel varnarlega,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals.

„Þetta gekk betur upp en í síðasta leik. Við byrjuðum ekki vel og ætluðum að gera of mikið í einu og vinna leikinn á fyrstu mínútunum. Snæfell er með hörkusterkt lið þó það vanti einhverja leikmenn, þær hafa sýnt það í vetur. Við þurfum að spila vel til að taka þær aftur í næsta leik.“

„Það var ánægjulegt í sóknarleiknum okkar að við héldum boltanum ágætlega en vorum samt sem áður of örar. Þegar við náðum aðeins meiri yfirvegun í því gekk sóknarleikurinn betur og Anna bar upp sóknarleikinn hjá okkur í dag.“

„Það er Stykkishólmur á miðvikudaginn og við eigum fullt inni. Við verðum bara að mæta tilbúnar í Hólminn. Nú er staðan í einvíginu bara 0-0.“
Mynd – Eyþór Ben.