FÉLAG STOFNAÐ
Ungmennafélagið Snæfell var stofnað 23. október 1938. Daníel Ágústsson, sem þá var sambandsritari UMFÍ, var upphafsmaður stofnunar félagsins og varð fyrsti formaður þess. Nafn félagsins var hugmynd Maggý Lárenzínudóttur, en það er dregið af Snæfellsjökli og Snæfellsnesi.
Upphafið
Félagið varð mjög fljótlega mikill driffjöður fyrir bæjarfélagið og ýtti af stað framkvæmdum á bættri íþróttaðstöðu í Stykkishólmi við byggingu íþróttahúss, sundlaugar og gerð íþróttavallarins.
Badminton
Árið 1947, þegar Þorgeir Ibsen flutti til Stykkishólms, varð hann helsti drifkrafturinn á bak við badminton í bænum. Félagið eignaðist fljótlega marga afbragðs badmintonleikmenn, þar á meðal Íslandsmeistara. Um tíma var jafnvel talað um Stykkishólm sem vöggu badmintoníþróttarinnar á Íslandi. Þessi sterka badmintonhefð lagði grunninn að öflugri íþróttamenningu í Stykkishólmi.
BADMINTON
Árið 1950 urðu Ágúst Bjartmars og Halla Árnadóttir Íslandsmeistarar í einliðaleik og vörðu titilinn ári síðar. Árið 1951 var sérstaklega eftirminnilegt fyrir Snæfellinga, því ekki aðeins endurtóku Ágúst og Halla Íslandsmeistaratitlana í einliðaleik, heldur sigruðu Ágúst og Ólafur Guðmundsson í tvíliðaleik og Halla og Þorgeir Ibsen í tvenndarleik.

Árið 1952 varð hin unga og efnilega Ebba Lárusdóttir Íslandsmeistari, og hún hlaut síðan titilinn bæði árið 1953 og 1954. Ágúst Bjartmars bætti svo við Íslandsmeistaratitlum árið 1958 og 1959 og svo Hanna Jónsdóttir 1958. Síðasta Íslandsmótið sem Snæfell tók þátt í var 1960 og dró verulega úr iðkun Badminton aðalega vegna þess að margir iðkendur voru fluttir í burtu.
Frjálsar
Árið 1952 varð mikil vakning í frjálsum íþróttum hjá Snæfelli þegar Sigurður Helgason, sem var þá íþróttakennari í Stykkishólmi, tók að sér þjálfun í greininni. Undir hans leiðsögn náðu margir íþróttamenn hjá Snæfelli miklum árangri, og það markaði upphafið að öflugri þátttöku félagsins í frjálsum íþróttum á landsvísu.
FRJÁLSAR
Einn af þeim íþróttamönnum sem kom fram á þessum tíma var Jón Pétursson. Árið 1954, aðeins 17 ára gamall, varð hann fyrsti Íslandsmeistari í sögu Snæfells þegar hann sigraði í hástökki á Íslandsmeistaramóti drengja. Jón náði enn frekari frama í frjálsum íþróttum og keppti fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum árið 1960.

Frjálsar íþróttir héldu áfram að blómstra hjá Snæfelli, og í gegnum árin eignaðist félagið fjölmarga efnilega íþróttamenn. Greinin hefur verið mikilvægur þáttur í íþróttastarfi félagsins og félagið hefur tekið virkan þátt í Íslandsmótum og öðrum keppnum á landsvísu.
Frjálsar íþróttir eru enn í dag mikilvægur þáttur í starfsemi Snæfells og félagið heldur áfram að leggja rækt við þessa grein.
Fótbolti
Saga Snæfells í fótbolta spannar ýmsar sveiflur í gegnum árin og tengist sterklega íþróttamenningu Stykkishólms. Það voru aðalega drengir sem æfðu upphaflega knattspyrnu í Stykkishólmi, æft var fyrst inn á flötum og var þá völlurinn hallandi og var hann kallaður Vallarflöt, þar var æft þangað til ungmennafélagið fékk land í Nýrækt og gat æft þar.

Fyrsti leikurinn sem Snæfell spilaði var árið 1944 gegn Reykdælum í Borgarfirði.
FÓTBOLTI
Eins og í mörgum öðrum smærri bæjarfélögum á Íslandi var knattspyrna ein af helstu íþróttagreinum félagsins. Snæfell lagði mikið kapp á að efla knattspyrnustarfsemi sína, bæði í karla- og kvennaflokki. Með tilkomu betri aðstöðu, eins og nýjum knattspyrnuvelli, jókst iðkun íþróttarinnar til muna. Bæði barna- og unglingaflokkar félagsins tóku virkan þátt í Íslandsmótum og öðrum mótum á landsvísu og ekki má gleyma héraðsmótunum á Snæfellsnesi.

Í dag er fótboltinn hluti af fjölbreyttri íþróttastarfsemi Snæfells, þar sem félagið tekur þátt í samstarfi með öðrum félögum á Snæfellsnesi.
sund
Fyrstu heimildir af sundkennslu var þegar Sigurður Finnson kennari við grunnskólann 1943 - 44 útbjó strigalaug til þess að kenna sund. Kennslan fór fram í frystihúsinu hjá kaupfélaginu og var notaður kælisjór af frystivélunum. Sundkennsla og sundæfingar í Stykkishólmi hófust af krafti eftir að sundlaugin í Stykkishólmi var byggð árið 1954
íÞRÓTTIR
Margar aðrar íþróttir hafa verið stundaðar í hólminum eins og Handbolti frá stofnun 1938 - 1955 og þá aðalega af stúlkunum í bænum, fyrsti þjálfari liðsins var Viggó Nathanelson og var æft utandyra í skólaportinu og svo niðri á túninu við gamla brunaskúrinn. Farið var í keppnisferðir á landsmót og héraðsmót og urðu stúlkurnar landsmótsmeistarar árið 1949.
KÖRFUBOLTI
Körfuknattleikur kom til Stykkishólms veturinn 1952, þegar kennsla hófst fyrir stelpur og stráka í janúar það ár. Þjálfarar voru Sigurður Helgason og Ingveldur Sigurðardóttir, og þátttaka var mjög góð. Snæfell hefur síðan fest sig í sessi meðal fremstu körfuknattleiksfélaga landsins og ritað nafn sitt í titlabækurnar. Sterk hefð hefur myndast fyrir körfubolta í Stykkishólmi, og íþróttin er orðin órjúfanlegur hluti af bæjarbragnum.

Um 1990 varð mikil bylting í körfubolta hjá Snæfelli þegar meistaraflokkur karla sigraði í 1. deild og komst í fyrsta sinn í úrvalsdeild. Það má segja að körfuboltaæði hafi hafist í Stykkishólmi á þeim tíma. Árið 1993 var eftirminnilegt þegar liðið komst í úrslitaleik bikarsins, þar sem það tapaði gegn Keflavík. Sama ár tók liðið einnig þátt í evrópukeppni, FIBA European Champions Cup, og tapaði naumlega fyrir írsku liði St. Vincent með einu stigi samanlagt eftir tvo leiki.

Karlalið Snæfells festi sig síðan í sessi í úrvalsdeild karla frá tímabilinu 2002-2003 sem eitt af toppliðum deildarinnar. Á sama tíma tók kvennalið Snæfells stórt skref fram á við og frá 2008 til 2017 varð það eitt af sterkustu liðum í efstu deild kvenna, með þrefalda Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitla og deildarmeistaratitla.
KÖRFUBOLTI
Eftir að karlalið Snæfells hafði fest sig í sessi í úrvalsdeildinni tók liðið stór stökk í átt að því að verða eitt af sterkari liðum landsins. Á þessum árum tók liðið reglulega þátt í úrslitakeppnum deildarinnar og var oft í baráttunni um titla.

Karlalið Snæfells naut mikils stuðnings frá samfélaginu í Stykkishólmi, þar sem heimaleikir liðsins urðu stórir atburðir í bænum. Íþróttahúsið fylltist reglulega af stuðningsmönnum, og andrúmsloftið á leikjum var einstakt.

Félagið lagði einnig mikla áherslu á yngri flokka starf sitt, sem lagði grunninn að framtíð körfuboltans í Stykkishólmi. Yngri flokkarnir náðu frábærum árangri, og margir leikmenn meistaraflokksins á næstu árum komu upp úr þessum flokkum.

Snæfell heldur enn í dag uppi öflugu barna- og unglingastarfi, og félagið teflir fram meistaraflokksliðum í bæði kvenna- og karlaflokki. Bæði lið hafa unnið fjölda titla, jafnt á boðsmótum sem og á stærstu mótum sem haldin eru af KKÍ.
KÖRFUBOLTI
Titlar meistaraflokks kvenna:

Íslandsmeistarar:
2014
2015
2016

Bikarmeistarar:
2016

Deildarmeistarar:
2014
2015
2017

Lengjubikarmeistarar:
2012

Meistarar Meistaranna:
2014
2015
2016

Ljósanæturmótið
2012
KÖRFUBOLTI
Titlar meistaraflokks karla:

Íslandsmeistarar:
2010

Bikarmeistarar:
2008
2010

Deildarmeistarar:
2004
2011

Fyrirtækjabikarinn:
2004
2007
2010

Meistarar Meistaranna:
2011

Reykjanes Cup Invitational:
2009
2011
2012
KÖRFUBOLTI
Körfuknattleiksdeild Snæfells hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á uppbyggingu yngri flokka. Markmiðið er að skapa sterkan grunn fyrir framtíðina með því að gefa börnum og unglingum tækifæri til að þróa hæfileika sína í körfubolta.
Framtíð
Framtíð og stefna Snæfells er að leggja metnað í að bjóða upp á fjölbreyttar og öflugar íþróttir fyrir alla aldurshópa í Stykkishólmi. Framtíðarsýn félagsins er að efla þessa hefð enn frekar, með áherslu á að skapa sterkan grunn fyrir heilsusamlegt og virkt samfélag.

Við höldum áfram að þróa okkar sterkustu greinar, þar á meðal körfubolta, frjálsar íþróttir, og fótbolta, en einnig bjóðum við upp á fjölbreyttari möguleika eins og styrktarþjálfun og badminton. Snæfell er staðráðið í að gera öllum kleift að finna sína íþrótt og njóta hennar á sínum forsendum, hvort sem það er á keppnis- eða afreksstigi, eða til að viðhalda heilsu og vellíðan.

Körfubolti er einn af hornsteinum félagsins og hefur Snæfell á undanförnum árum unnið til fjölda titla í bæði kvenna- og karlaflokki. Við höldum áfram að byggja upp sterka leikmenn og leggja áherslu á yngri flokka, sem tryggja framtíð körfuboltans í bænum.

Í frjálsum íþróttum hefur félagið alið upp Íslandsmeistara og framtíðarsýnin er að halda áfram að veita unga fólkinu tækifæri til að þróa sína hæfileika í fjölbreyttum greinum.

Fótboltinn hefur lengi verið hluti af starfi hjá félaginu, með áherslu á að byggja upp öflug lið og einstaklinga sem keppa á bæði með Snæfell og sameinuðu liði á Snæfellsnesi, við hvetjum ungu kynslóðirnar til að njóta knattspyrnunnar.

Styrktarþjálfun er nýtt svið sem hefur fengið aukið vægi, þar sem félagið býður upp á styrktaræfingar fyrir bæði íþróttafólk og almenning sem vilja efla líkamlegan styrk og hreysti.

Einnig erum við stolt af því að badminton hefur aftur komið á dagskrá og gaman væri ef félagið næði að byggja upp badmintonmenningu á ný, með áherslu á bæði börn og fullorðna.

Snæfell leggur ríka áherslu á að skapa hvetjandi og stuðningsríkt umhverfi fyrir alla iðkendur, þar sem jákvæðni, samvinna og virðing eru leiðarljósin. Með öflugu starfi í öllum þessum greinum, stefnum við að því að vera leiðandi afl í íþróttalífi bæjarins til framtíðar.


Skráning í Snæfell

Smelltu á takkann til þess að skrá barnið þitt í Snæfell

Styrkja SNÆFELL

Hvert framlag skiptir máli og hjálpar að skapa tækifæri fyrir íþróttafólkið okkar. Ef þú vilt spjalla frekar, geturðu sent okkur tölvupóst hér!