

Snæfell tók á móti Hetti frá Egilsstöðum í 1. deild karla í gærkvöldi í Stykkishólmi. Leikurinn hófst af miklum krafti og sáust margar jákvæðar hliðar á liðinu bæði í vörn og sókn. Snæfell lék vel í fyrri hálfleik þar sem boltinn gekk vel á milli manna og var vörnin skipulögð og góð. Jakorie Smith átti virkilega flottan fyrri hálfleik og Sturla Böðvarsson spilaði einnig vel. Snæfell leiddi 53–52 þegar gengið var til búningsklefa eftir fyrri hálfleik og var stemmingin góð í liði Snæfells.

Höttur byrjaði hins vegar seinni hálfleik af miklum krafti og tók algjöra stjórn á leiknum. Gestirnir spiluðu mun fastar og létu vel finna fyrir sér í vörn sem fór alltof mikið í taugarnar á okkar mönnum, sóknarleikurinn varð mjög snemma tilviljunarkenndur og óþolinmóður sem varð til þess að strákarnir fengu einungis þvinguð skot úr sínum sóknum.
Höttur vann þriðja leikhluta 36–11 og þar með var leikurinn í raun búinn. Allavega miðað við líkamstjáningu okkar manna í byrjun 4. leikhluta þá virtust þeir ekki líklegir til þess að koma tilbaka og minnka muninn.
4. Leikhluti var formsatriði fyrir gestina, alltaf gaman að sjá ungu strákana í Snæfells liðinu spreyta sig og var það eina jákvæða við seinni hálfleikinn.

Þrátt fyrir þennan erfiða kafla var margt jákvætt í leik Snæfells, sérstaklega í fyrri hálfleik. Stuðningsmenn hafa saknað þess að sjá liðið spila eins og þeir gerðu í fyrri hálfleik. Það gefur vonir um að liðið geti byggt á þessum jákvæða kafla í komandi leikjum.
Leiknum lauk með 121–83 sigri Hattar.
Myndasafn úr leiknum: https://www.facebook.com/photo?fbid=122254065950168823&set=a.122254071608168823
Stutt er í næsta leik og viljum við hvetja ykkur stuðningsmenn til þess að koma og hvetja liðið áfram!
Næsti leikur er hér heima gegn Fjölni 11. Desember kl 19:15