Trausti og Snæfell í samstarf!

ágúst 27, 2025

Körfuknattleiksdeild Snæfells og Fasteignasalan Trausti hafa tekið höndum saman í gegnum hann Bjössa okkar Bensó til að styðja íþróttir og samfélagið í heild. Frá og með núna mun tíund af þeirri söluþóknun sem samið er um renna beint til Snæfells, ef þú velur svo þegar þú setur eign í sölu hjá Bjössa og Traustanum.  Þannig getur þú selt þína fasteign og styrkt uppáhalds liðið þitt í leiðinni.

Gaman er að segja frá því að fyrsta eignin sem fer í gegnum samstarf þetta er þegar seld. Það var skrifað í skýin að sú eign myndi vera Ásklif 22, húsið þeirra Láru og Gunna Svanlaugs okkar ágæta fyrrum formanns. Kaupendur voru dætur þeirra Berglind og Hrefna Dögg, Snæfellsgoðsagnir.

Bjössi náði að sannfæra Fasteignasöluna Trausta um ágæti þessa samstarfs fyrir alla aðila og bindum við hjá Snæfelli einnig miklar vonir við þetta allt saman.  Samningur þessi á ekki bara við eignir sem seldar eru í Stykkishólmi, heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu eða bara hvar sem er ef út í það er farið. 

Þið þekkið nú flest Bjössa en hann hefur með ýmsum leiðum stutt við okkur í Snæfelli í gegnum tíðina. Margoft komu þeir frændur í Hólminn til þess að veislustýra og spila á samkomum hjá fyrirtækjum og félagasamtökum sem komu hingað í bæ til að gera sér glaðan dag. Ekki tóku þeir frændur krónu fyrir það heldur rann allt til Snæfells. 

En hver er Bjössi?  Bjössi er útskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands ásamt því að vera með meistaragráðu í viðskiptum með áherslu á fjármál fyrirtækja. Hann er með víðtæka reynslu úr fjármálageiranum en hann starfaði hátt í 20 ár í viðskiptastýringu á fyrirtækjasviði VÍS. Undanfarin ár hefur hann stýrt vátryggingaútboðum fyrir mörg stærstu fyrirtæki og sveitarfélög landsins með góðum árangri. Samhliða þessu hefur Bjössi þjálfað yngri flokka KR í körfubolta. Hann er liðtækur á gítarinn og er alltaf líklegur til að grípa í gígjuna á góðri stundu og stýra stuðinu. Bjössi sem býr í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginkonu og tveimur börnum er mikill Hólmari og veit hann fátt betra en að renna heim í Hólminn fagra þar sem fjölskyldan á afdrep.

KKD. Snæfells mælir með þessu samstarfi ef þið eruð í söluhugleiðingum á fasteignum – þetta er mikilvægur samstarfssamningur fyrir okkur!

FRÉTTIR

Fylgstu með nýjustu fréttum Snæfells!

Skráning í Snæfell

Smelltu á takkann til þess að skrá barnið þitt í Snæfell

Styrkja SNÆFELL

Hvert framlag skiptir máli og hjálpar að skapa tækifæri fyrir íþróttafólkið okkar. Ef þú vilt spjalla frekar, geturðu sent okkur tölvupóst hér!