10 í röð hjá stelpunum!

Chynna Brown á fleygiferðStelpurnar halda áfram að fara á kostum. Þær unnu sinn 10 leik í röð þegar þær lögðu Grindvíkinga af velli í kvöld.
Hér fyrir neðan er umfjöllun sem tekin er að www.karfan.is

Snæfell fann sinn tíunda deildarsigur í röð í Röstinni í dag þegar Hólmarar völtuðu yfir Grindavík 74-93. Toppliðið gaf sér þó drjúgan tíma til að finna sitt rétta andlit gegn gulum heimakonum sem léku án Ingibjargar Jakobsdóttur sem er meidd á ökkla. Seigla Hólmara braust þó út í þriðja leikhluta sem rauðar unnu 19-34 og kláruðu þar með leikinn. Chynna Brown átti flottan dag í liði Snæfells með 24 stig og 15 fráköst og þá bætti Hildur Sigurðardóttir við 21 stigi, 8 fráköstum og 6 stoðsendingum en Crystal Smith gerði 29 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í liði Grindvíkinga. María Ben Erlingsdóttir var svo með 21 stig og 7 fráköst. Sigurdemban telur nú tíu í röð hjá Snæfell sem er félagsmet, gamla metið var sex sigurleikir í röð í deildinni en rauðar hafa sent það út í hafsauga.

Heimakonur í Grindavík fóru vel af stað og komust í 9-2 eftir þriggja stiga körfu frá Crystal Smith. Hólmarar tóku þó við sér og skelltu í 2-12 kafla og leiddu svo 20-23 að loknum fyrsta leikhluta. Chynna Brown var með tíu stig fyrir Hólmara eftir fyrsta leikhluta og var að reynast Grindvíkingum erfið.

Hólmarar áttu fyrstu fimm mínútur annars leikhluta, vörn gestanna réttara sagt því hún hélt Grindvíkingum stigalausum lengi vel og gestirnir náðu 20-31 forystu áður en Crystal Smith skoraði fyrir gular af vítalínunni. Snæfell komst í 29-38 en þá hrukku Grindvíkingar loks í gang, Smith splæsti í þrist og María Ben Erlingsdóttir stal boltanum, rauk upp völlinn og kláraði með vinstri, rétthent konan, landsliðsstöff eins og það á að vera. Rjúkandi gangur á gulum síðustu tvær mínútur annars leikhluta eftir kaldar og daprar átta mínútur þar á undan en Hólmarar leiddu þó 35-38 í leikhléi.

Chynna Brown var stigahæst hjá Snæfell í hálfleik með 14 stig og 9 fráköst en þær Crystal Smith og María Ben Erlingsdóttir voru báðar með 13 stig í liði Grindavíkur.

Topplið Snæfells notaði hálfleikinn vel til þess að gíra sig upp í næstu 20 mínútur enda settu rauðir gestirnir 23 stig yfir Grindvíkinga á rétt rúmum sex mínútum og komust í 46-61. Jón Halldór Eðvaldsson bað þá um leikhlé og messaði hið augljósa yfir sínum konum, varnarræða til að stoppa í götin. Fjallræða Jóns náði ekki að kveikja neistann varnarlega það sem eftir lifði þriðja leikhluta því Snæfell setti 34 stig yfir Grindavík og leiddi 54-72 fyrir og fjórða og síðasta hluta. Mulingsvélin úr Stykkishólmi sýndi flestar sínar bestu hliðar á þessum tíu mínútum og lögðu hér grunninn að tíunda deildarsigrinum í röð.

Þess má svo geta að Alda Leif Jónsdóttir lék sínar fyrstu mínútur á árinu 2014 með Snæfell er hún kom inn af tréverkinu í þriðja leikhluta. Alda hefur verið mikið fjarverandi sökum erfiðra meiðsla og þéttast þá enn raðir Snæfells við endurkomuna. Því má svo bæta við að síðasti leikur Öldu fyrir meiðsli var einmitt gegn Grindavík.

Fjórði leikhluti var aldrei spennandi og reyndust lokatölur 74-93 fyrir Snæfell. Mögnuð frammistaða hjá toppliðinu en að sama skapi sýndi það sig að Grindvíkingar geta illa verið án leikmanns eins og Ingibjargar Jakobsdóttur.

Tölfræði leiksins
Viðtal við Evu Margrét eftir leik

Áfram með þetta!!

Áfram Snæfell