10. flokkur í Rimaskóla

Strákarnir í 10. flokk fóru í Rimaskóla á síðustu helgi.

Liðið skipar eftirfarandi einstaklinga:
Almar Hinriksson (Helgafells-undrið), Hermann Örn Sigurðarson (attitude-BOB), Elías Björn Björnsson (Killer-crossover), Jón Glúmur Hólmgeirsson (Ruslakarlinn), Jón Páll Gunnarsson (JP-SKILLS), Finnbogi Þór Leifsson (Finnbow21) og Jakob Breki Ingason (Byssubrandur). Nöfnin í sviganum fá þeir vegna þeirra vinnu sem þeir skila í leikjum og sleikjum.

Það er ekki stór hópur sem þessi árgangur býður upp á en hæfileikarnir eru í massavís. Ég var svo heppinn að fá að stýra þeim á þessu móti í fjarveru Gísla Páls sem þjálfar þá.

Fyrir mótið var mér tjáð að ég yrði að skila liðinu í einu af tveimur efstu sætunum annars væri ég ekki alvöru þjálfari. Strákarnir eru að syngja sitt síðasta í törneringa fyrirkomulaginu og munu því spila staka leiki á næsta ári. Að minnsta kosti tvö efstu liðin í B-riðli (okkar riðli) verða í efstu deild að ári. Það var því gott markmið fyrir helgina.

Við byrjuðum mótið á því að spila við Stjörnuna sem unnu sig upp í B-riðil á síðasta móti. Strákarnir voru ekkert of öflugir í fyrri hálfleik, enda ný staðnir upp úr bílnum og rétt búnir að renna niður bekkelsinu úr Geira bakarí. Í seinni hálfleik var allt annað uppi á teningunum og rúlluðu okkar menn yfir Stjörnuna með 20 stiga mun, 81-61 að mig minnir (Finnbogi tók allar skýrslur til að sjá hvað hann skoraði en lét mig ekki fá þær aftur). ☺
Sem sagt einn sigur kominn í hús og strákarnir farnir að hitna! Allir spiluðu slatta í leiknum og voru menn með ýmis verkefni sem þeir skiptu mjög bróðurlega á milli sín. Það geta víst ekki allir verið skorarar, það þurfa líka að vera menn sem berjast fyrir liðin og vinna skítverkin.

Seinni leikurinn á laugardeginum var á móti Haukum, en þeir ákváðu að faðma Almar allan leikinn og spila handboltavörn á hann, ótrúlega leiðinleg aðferð sem betur fer virkaði ekki fyrir þá því jú þeir töpuðu leiknum! Já strákarnir okkar fengu box and 1 á sig (varnarfyrirbrigði). Þeir eru auðvita ekki vanir því en við unnum vel úr því og skiluðum RISA sigri á móti Pétri Ingvarssyni og félögum í Haukum. Ætli hann hafi ekki verið með ca. 5-6 stigum.
Eftir leiki dagsins vorum við ásamt FSU jöfn að stigum og var það að verða ljóst að liðið sem sigraði í þeirri viðureign myndi vinna mótið.

Við þurftum ekki að bíða lengi eftir þeim leik, það var fyrsti leikur á dagskrá hjá okkur á sunnudagsmorgninum.
Snæfell – FSU
FSU eru með 2-3 2ja metra menn sem eru frekar góðir og höfum við átt í vandræðum með þá oft á tíðum. Þetta eru strákar sem halda okkar mönnum Almari og Jóni Páli fyrir utan landsliðið. Það var ekki erfitt að fá þá félaga til að spila vel í leiknum og sýndu þeir það að landsliðsþjálfararnir ættu að kíkja í Hólminn og athuga hvað er í gangi. Til að gera stutta sögu ennþá styttri þá unnum við leikinn með 10 stiga mun og voru allir að leggja sitt af mörkum. Frábær sigur hjá okkur á góðu liði FSU. Þá var það orðið ljóst að Snæfell myndi vinna mótið og einn leikur eftir.
Síðasti leikurinn var bara spilaður upp á heiðurinn og auðvita upp á það að maður vill vinna alla leiki. Við spiluðum við Pál Fannar og félaga í Fjölni. Leikurinn var hnífjafn allan leikinn en ég hafði á tilfinningunni ef við myndum nenna að gefa aðeins í þá myndi sigurinn koma. Sú varð raunin og góður sigur á fínu liði staðreynd – og takmarkið sem þjálfarinn fékk fyrir helgina komið í hús.

Ég segi það í fúlustu alvöru að við eigum góða körfuboltamenn sem eru að koma upp og með góðri þjálfun verða þeir alltaf fleiri og fleiri. Hlúum að yngriflokkum félagsins  og sýnum því starfi sem þjálfarar okkar eru að vinna góðan stuðning.

Virkilega gefandi og skemmtileg helgi búin og það er alltaf gott að koma heim með 4 sigra í 4 leikjum. Strákar þið stóðuð ykkur frábærlega og ég vona innilega að þið haldið áfram að blómstra sem körfuboltamenn og ég er viss um að þið verðið einn daginn fyrirmyndir ungra Hólmara.

Með körfuboltakveðju,
Gunnlaugur Smárason
Áfram Snæfell!!!

10149282_732882246732583_470206118_n