Unglingaflokkur kvenna tryggðu sér í úrslitakeppnina með sigri á Þór Akureyri

Unglingaflokkur kvenna tryggðu sér í úrslitakeppnina með sigri á Þór Akureyri

Stelpurnar voru í mjög einfaldri stöðu, sigur tryggir þær í úrslit en tap myndi þýða endalok tímabilsins. Fyrri leikur liðanna fór fram á Akureyri þar sem Þórsarar sigruðu 65-56.

Andrea Björt Ólafsdóttir var að vinna í bænum og kom hún í húsið um leið og leikurinn hófst, hún var svo klár í slaginn eftir 5 mínútna leik. Rebekka Rán Karlsdóttir hóf leikinn á að setja þrist en ákveðnar Þórsstúlkur komust yfir 5-11 og leiddu 12-17 eftir fyrsta leikhluta. Voru betra liðið og Snæfell að elta. Í öðrum leikhluta hertu Snæfellsstelpur vörnina og Þórsstelpur gáfu eftir og það nýttu heimastúlkur sér vel. Úr stöðunni 20-18 skoruðu Snæfell 11 stig í röð og leiddu í hálfleik 31-18. Þær héldu gestunum í einu stig og sigruðu leikhlutann 19-1.

Rebekka Rán og Anna Soffía byrjuðu seinni hálfleikinn með þriggjastiga körfum og Snæfell komust fljótlega 44-24 og útlit fyrir þægilegan sigur Hólmara í loftinu. Þórsstelpur voru ekkert á þeim buxunum og minnkuðu muninn í 13 stig 46-33 sem var staðan eftir þrjá leikhluta. Þórsstelpur voru ekki komnar alla þessa leið til að steinliggja og skoruðu 0-11 og minnkuðu muninn í 46-44 áður en Rebekka Rán smellti þrist og kom muninum uppí 5 stig. Sóknarleikurinn hjá Snæfell var kominn í frost og sniðskot og opin skot vildu ekki niður. Þórsstelpur nýttu sér það og komust yfir 49-50 með 0-6 áhlaupi. Anna Soffía sem hafði verið ólík sjálfri sér smellti þá takk fyrir túkall stórum þrist og kom Snæfell yfir 52-50. Brotið var svo á Jóhönnu Rún sem setti bæði skotin niður og jafnaði leikinn 52-52. Rebekka Rán sótti hart á körfuna og uppskar tvö vítaskot. Hún setti annað niður og staðan 53-52 þegar að 19 sekúndur voru eftir. Þórsstelpur tóku sér smá tíma til að setja upp en Bríet Lilja kom þeim yfir eftir að hafa skorað körfu af harðfylgi og staðan 53-54 fyrir Þór Akureyri og 6.7 sekúndur eftir. Ingi Þór tók leikhlé og endaði sókn Snæfell með því að Anna Soffía tók þriggja stiga skot og brutu Þórsarar á henni í skotinu þegar að 2 sekúndur voru eftir og hún fékk því þrjú skot. Anna Soffía var öryggið uppmálað og smellti öllum þremur skotum sínum niður. Staðan 56-54 og Þórsstelpur með innkastið þegar 2 sekúndur voru eftir, þær fengu ágætist skot sem fór framan á hringinn og Snæfellsstúlkur fögnuðu sigri.

Snæfellsstelpurnar hafa lokið sínum leikjum í vetur og sigruðu þær í 10 og töpuðu þær 6. Stelpurnar búnar að standa sig vel í vetur og fóru alla leið í bikarúrslit þar sem þær töpuðu fyrir góðu liði Keflavíkur. Framundan er að sjá hvaða liði stelpurnar mæta í úrslitakeppninni.

Stigaskor Snæfells: Rebekka Rán Karlsdóttir 28 stig, Sara Diljá Sigurðardóttir 13, Anna Soffía Lárusdóttir 11, Andrea Björt Ólafsdóttir 4, Aníta Ýr Bergþórsdóttir 0, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0, Lísbet Rós Ketillbjarnardóttir 0, Kristín Birna Sigfúsdóttir 0, Theodóra Ægisdóttir 0, Emilía Ósk Jónsdóttir 0.

Stigaskor Þór Akureyri: Heiða Hlín 18 stig, Bríet Lilja 13, Jóhanna Rún 13, Gréta Rún 7, Árdís Eva 3, Sædís 0, Guiha 0.