Mikilvægur sigur í toppbaráttunni í 2. deild Unglingaflokks

Mikilvægur sigur í toppbaráttunni í 2. deild Unglingaflokks

Strákarnir í Unglingaflokki karla heimsóttu Njarðvíkinga sem voru taplausir í efsta sæti í 2. deild. Snæfellsstrákarnir töpuðu fyrsta leiknum í vetur og þá einmitt gegn Njarðvík með átta stigum í Stykkishólmi. Það var því mikilvægt að vinna og ná innbyrðis í viðureignum liðanna.

Það gekk brösulega að koma liðinu suður með sjó en rútan tók uppá því að bila og voru öll sambönd notuð til að redda mannskapnum til Njarðvíkur. Sem betur fer gekk það upp á kostnað upphitunar en leikurinn fór fram í Akurskóla í Innri Njarðvíkum.

Njarðvíkingar opnuðu leikinn á þriggja stiga körfu en Andrée og Geir Helga komu Snæfell í 3-8 en jafnræði var á milli liðanna í fyrsta leikhluta. Gunnlaugur hjá Njarðvík skoraði 8 síðustu stigin fyrir heimamenn og leiddu þeir 25-20 eftir fyrsta leikhluta.

Njarðvíkingar bættu svo bara við og komust í 30-20 áður en Árni Elmar minnkaði muninn í 30-24. Gunnlaugur var atkvæðamikill hjá Njarðvík. Geir og Árni voru að skora fyrir Snæfell sem léku framliggjandi vörn og minnkuðu muninn í 38-35 áður en Njarðvíkingar komust í 41-35. Áræðni okkar manna skilaði sér í 0-10 áhlupi og leiddu þeir 41-45 í hálfleik.

Andrée, Viktor og Árni opnuðu svo seinni hálfleikinn með 0-8 áhlaupi og staðan skyndilega orðinn 41-53. Gunnlaugur, Jón Arnór og Adam settu í gírinn og voru nokkuð fljótir að minnka muninn í 55-59 og svo aftur 62-64. Andrée var drjúgur á þessum kafla og Viktor Alexanders setti svo körfur í öllum regnbogans litum sem komu Snæfell í 66-74, Jón Arnór smellti niður þrist í lokasókn þriðja leikhluta og staðan 69-74.

Loka leikhlutinn var æsispennandi – Adam hjá Njarðvík minnkaði muninn í 72-74 en Aron Ingi kom með mikilvægar körfur sem kom greinilega örvhentum í gang, Geir smellti niður í kjölfarið sjö stigum og Snæfell komnir 75-83 yfir þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum. Jón Arnór minnkaði þá muninn snögglega í samvinnu með Gunnlaugi í 80-83 en fékk svo tæknivillu fyrir pirring og skömmu síðar sína fimmtu villu. Strákarnir komust í 80-88 og kláruðu svo leikinn 85-95 og náðu þar með að komast yfir á innbyrðis viðureignum líka.

Mikilvægur sigur í toppbaráttunni í 2. deild Unglingaflokks, þar sem tvö efstu liðin fara í úrslitakeppni með 6 efstu liðunum í 1. deild. Baráttan er á milli Snæfells, Skallagríms og Njarðvíkur.

Stigaskor Snæfells: Andrée Michelsson 22 stig, Geir Elías Úlfur Helgason 21, Viktor Marínó Alexandersson 16, Árni Elmar Hrafnsson 13, Jóhann Kristófer Sævarsson 7, Aron Ingi Hinriksson 6, Dawid Einar Karlsson 2, Jón Páll Gunnarsson 1, Andri Þór Hinriksson 0, Tómas Helgi Baldursson 0, Daníel Husgåard 0.

Stigaskor Njarðvíkur: Gunnlaugur Sveinn 32 stig, Jón Arnór 21, Adam 11, Hermann 9, Elvar Ingi 8, Ágúst 6.