Stutt bikarævintýri hjá unglingaflokki lokið

Stutt bikarævintýri hjá unglingaflokki lokið

Strákarnir í Snæfell eru ekki með á Íslandsmótinu en þeir tóku þátt í bikarnum þar sem þeir mættu Fjölnismönnum í Stykkishólmi, lokatölur 74-93 fyrir Fjölni sem fara áfram í 8-liða úrslit og mæta þar KR.

Leikurinn hófst fjörlega og skoruðu þeir Jón Páll og Almar Njáll fyrir heimamenn sem lentu undir 11-16 en með góðum kafla leiddu strákarnir 22-20 að 1. leikhluta loknum. Tómas Helgi setti tvo þrista á stuttum tíma og Dawid Einar bætti öðrum við og Snæfell leiddu 30-28 og um 5 mínútur eftir af 2. leikhluta. Allt fór í baklás og hélt vörnin engu á þessum kafla sem Fjölnismenn nýttu sér vel og fóru til búningsherberja með 23 stiga forstyu 32-55. Annar leikhluti fór 10-36 og það er ekki vænlegt til árangurs.

Með mikilli elju og baráttu komu strákarnir leiknum fljótlega niður í 10 stig með pressuvörn 55-65 rétt fyrir lok 3. leikhluta en Magnús hjá Fjölni sem var að hitta gríðarlega vel setti þrist í lok leikhlutans og Fjölnir leiddu 55-70 eftir þrjá leikhluta. Snæfellsstrákarnir héldu áfram að berjast en Fjölnir stóðust áhlaupið og sigruðu 74-93.

Margir fínir kaflar í leik Snæfells í þessum leik en 2. leikhluti var vægast sagt undarlegur. Bikarævintýri unglingaflokks karla er því lokið.

Stigaskor Snæfells: Jón Páll Gunnarsson 27 stig, Almar Njáll Hinriksson 16, Tómas Helgi Baldursson 14, Dawid Einar Karlsson 6, Elías Björn Björnsson 5, Finnbogi Þór Leifsson 4, Viktor Brimir Ásmundarson 2, Jakob Breki Ingason 0, Aron Ingi Hinriksson 0.

Stigaskor Fjölnis: Hlynur Logason 17, Rafn Kristján Rafnsson 17, Magnús Sigurðsson 15, Arnar Geir 14, Sigmar Bjarnason 6, Þorsteinn Vignis 4, Þórður Ingibjargar 0.