Tveir góðir sigrar og Snæfell/Skallagrímur ósigraðir

Strákarnir í drengjaflokk, sameinuðu liði Snæfells og Skallagríms, léku tvo leiki um helgina, sá fyrri í Borgarnesi gegn KFÍ og sá síðari í DHL-Höll þeirra KR-inga.

Fyrri leiknum stýrði Konrad Tota þjálfari Skallagrímsmanna þar sem Ingi Þór stýrði meistaraflokk kvenna í KR-heimilinu. KFÍ menn byruðu leikinn með látum og leiddu 2-10 en með góðum leik Trausta Eiríks sem skoraði 20 stig í leiknum leiddu Snæfell/Skallagrímur 17-16 eftir fyrsta leikhluta.

Strákarnir í drengjaflokk, sameinuðu liði Snæfells og Skallagríms, léku tvo leiki um helgina, sá fyrri í Borgarnesi gegn KFÍ og sá síðari í DHL-Höll þeirra KR-inga.

 

Fyrri leiknum stýrði Konrad Tota þjálfari Skallagrímsmanna þar sem Ingi Þór stýrði meistaraflokk kvenna í KR-heimilinu. 

 

KFÍ menn byruðu leikinn með látum og leiddu 2-10 en með góðum leik Trausta Eiríks sem skoraði 20 stig í leiknum leiddu Snæfell/Skallagrímur 17-16 eftir fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á að skora í upphafi annars leikhluta en það var svo Birgir Þór Sverrisson sem kom heimamönnum yfir 25-24 með góðum þrist.  Ekki var munurinn á liðunum mikill en staðan í hálfleik 38-34.

 

Áfram hélt barátta liðanna en Snæfell/Skallagrímsmenn héldu forystunni og leiddu með 2-5 stigum út leikhlutann þar sem Kristján Pétur og Egill aðstoðuðu Trausta í stigaskorun.  Í stöðunni 48-45 heimamönnum í vil skoruðu þeir 18-3 og gerðu út um leikinn og staðan eftir þrjá leikhluta 65-48.  KFÍ náðu aldrei að ógna stöðu heimamanna sem léku vel og allir tóku þátt í leiknum.

 

Stigaskor Snæfell/Skallagríms: Trausti Eiríksson 20 stig og 11 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 14 stig og 7 fráköst, Egill Egilsson 14 stig, Sigurður Þórarinsson 9 stig, Ásmundur Þrastarson 6 stig, Guðni Sumarliðason 5 stig, Sigursteinn Orri Hálfdánarson 4 stig, Birgir Þór Sverrisson 3 stig, Birgir Pétursson og Elfar Már Ólafsson 2 stig hvor.  Hlynur Hreinsson náði ekki að skora.

 

Á sunnudeginum léku strákarnir gegn KR-ingum sem voru einnig taplausir fyrir leikinn. 

 

Bæði lið ætluðu sér sigur í þessum leik, enda toppsætið í húfi.  Snæfell/Skallagrímur byrjuðu betur og leiddu 5-9 og höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta þangað til að KR jöfnuðu í blálokin 17-17.  Liðin skiptust á að skora en mestri forystu náðu Snæfell/Skallagrímur 26-33 í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik 37-39.  Varnarleikur Snæfells/Skallagríms var hriplekur og líkt við götótta regnhlíf í stormi. 

 

Þriðja leikhluta hófu Snæfell/Skallagrímur af krafti og skoruðu sjö fyrstu stigin en því miður hélt vörnin ekki og KR-ingar náðu að jafna 55-55 rétt fyrir lok leikhlutans áður en Kristján Pétur setti niður stóran þrist og staðan 55-58 eftir þrjá leikhluta.  Snæfell/Skallagrímur urðu fyrir áfalli þegar að Trausti Eiríksson snéri sig illa við að lenda á ökklanum á öðrum leikmanni og kom ekki meira við sögu.  Fjórða leikhluta hófu Snæfell/Skallagrímur af sama krafti og þann þriðja og skoruðu níu stig í röð og leiddu 55-67.  Kæruleysi og slappur varnarleikur hleyptu KR-ingum aftur inn í leikinn og jöfnuðu þeir 69-69 þegar um 1:30 voru eftir af leiknum.  Egill Egilsson sýndi styrk sinn  og kom liði sínu yfir eftir mikla baráttu 69-71.  KR-ingar fengu gott tækifæri á að komast yfir en Birni Kristjánssyni mistókst vítaskot eftir að hafa skorað, staðan 71-71 og um 50 sekúndur eftir.  Hlynur Hreinsson sýndi úr hverju hann er byggður og setti niður skot af millifærinu sem kom Snæfell/Skallagrím yfir 71-73.  Birni Kristjáns brást svo bogalistinn með þriggja stigaskoti fyrir KR og Egill var öryggið uppmálað á vítalínunni þegar að KR-ingar brutu óíþróttmannslega af honum og innsiglaði kappinn sigurinn 71-77.

 

Stigaskor Snæfells/Skallagríms: Egill Egilsson 27 stig og 7 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 18 og 6 fráköst, Sigurður Þórarinsson 9 stig og 12 fráköst, Trausti Eiríksson 8 stig og 10 fráköst á 19 mínútum, Hlynur Hreinsson 7 stig og 3 stoðsendingar, Sigursteinn Orri Hálfdánarson 6 stig og 3 stoðsendingar, Birgir Þór Sverrisson 2 stig og 5 stoðsendingar.  Ásmundur Þrastarson, Guðni Sumarliðason, Birgir Pétursson, Elfar Már Ólafsson og Davíð Guðmundsson náðu ekki að skora.

 

Næsti leikur liðsins er gegn Grindavík á útivelli 17. nóvember.