8.fl drengja upp um riðil.

8.fl drengja skellti sér á Flúðir um helgina, mikil spenna var í loftinu og ekki minnkaði hún þegar þeir sáu að einn fararstjóranna varð héraðsmeistari í knattspyrnu árið 2006, eins og allir bæjarbúar hafa fengið að heyra of mikið um.

Við lékum í C-riðli, byrjuðum tímabilið í D og náðum að halda okkur uppi í C á síðasta móti með nokkuð vængbrotið lið. Svo við vissum ekki alveg við hverju var að búast en við settum samt stefnuna á sigur.
Liðið var skipað þessum drengjum: Ólafur Ægisson, Jón Páll Gunnarsson, Hafsteinn Davíðsson, Haukur Hreinsson, Nökkvi Smárason, Viktor Alexandersson, Kristinn Pétursson, Kristófer Sævarsson, Marteinn Þorgrímsson og Hinrik Þórisson. Eðalhópur hér á ferð. Í hópinn vantaði Birki Júlíusson sem komst ekki núna en verður vonandi með okkur á síðasta mótinu…..

8.fl drengja skellti sér á Flúðir um helgina, mikil spenna var í loftinu og ekki minnkaði hún þegar þeir sáu að einn fararstjóranna varð héraðsmeistari í knattspyrnu árið 2006, eins og allir bæjarbúar hafa fengið að heyra of mikið um.

Við lékum í C-riðli, byrjuðum tímabilið í D og náðum að halda okkur uppi í C á síðasta móti með nokkuð vængbrotið lið. Svo við vissum ekki alveg við hverju var að búast en við settum samt stefnuna á sigur.
Liðið var skipað þessum drengjum: Ólafur Ægisson, Jón Páll Gunnarsson, Hafsteinn Davíðsson, Haukur Hreinsson, Nökkvi Smárason, Viktor Alexandersson, Kristinn Pétursson, Kristófer Sævarsson, Marteinn Þorgrímsson og Hinrik Þórisson. Eðalhópur hér á ferð. Í hópinn vantaði Birki Júlíusson sem komst ekki núna en verður vonandi með okkur á síðasta mótinu.

Fyrsti leikur var á móti Eyjapeyjunum í ÍBV, þeir höfðu komið niður úr B og þóttu því líklegir á mótinu. Sá leikur var ótrúlegur og hafa drengirnir aldrei spilað betur en í þessum leik. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 28-4 og við búnir að skora 7 þriggja stiga körfur á 8 mínútum, Hafsteinn kveikti í mannskapnum með einum þrist og svo settu Ólafur dagsins og Kiddi þrjá þrista hvor. Þess ber að geta að í þessum hluta þegar við náðum forystu var Hinrik að rífa niður sóknarfráköst og grýta þeim aftur út til strákana sem settu niður skotin.
Þessi munur hélst nokkurn veginn á liðunum út leikinn. Erfitt var að bæta við þetta þar sem ÍBV var með tvo sérlega flinka stráka, Aron Valtýsson og Sigurð Benonýsson. Með þessa tvo inná í einu eru þeir mjög erfiðir, en við höfðum meiri breidd og náðum að landa sigri. 79-59 og er afar fátítt að svo mikið sé skorað í þessum flokki.
Stig Snæfells: Kristinn með 21, Ólafur 16, Haukur 13, Viktor og Kristófer 10, Hafsteinn 5, Hinrik og Jón Páll 2 stig hvor.

Næst á dagskrá var lið Vals, Þjálfari þar er Björgvin Valentínusson, Hólmari og harðfisksali. Við höfðum tapað fyrir þeim síðast nokkuð örugglega. Mun minna var skorað í þessum leik, leikurinn einkenndist frekar af baráttu og góðri vörn. Jafnt var framan af leik og sá Kristófer Sævarss (sem er furðulega hávaxinn sé tekið mið af pabba hans) um að halda okkur inní leiknum í öðrum hluta þegar hann skoraði öll sín 6 stig. Þar áttu hann og Haukur nokkrar sérlega skemmtilegar fléttur uppúr „Vaggi og veltu“ taktíkinni en Haukur er með sérlega gott auga fyrir svoleiðis samspili. Við lönduðum nokkuð öruggum sigri 40-24 þó við hefðu hæglega getað spilað betur.
Stig Snæfells: Kristinn 16 stig, Haukur 8, Kristófer 6, Nökkvi 4, Ólafur dagsins, Jón Páll og Viktor 2 stig hver.

Þá var frí fram á næsta dag og strákarnir dunduðu sér við hitt og þetta, fengu gott að borða frá veitingastaðnum að Efra-Seli. Pabbarnir Pétur og Þorgrímur ætluðu reyndar að komast í sund en allt var lokað. Spurning hvort að „rússasturtan“ hafi verið látin duga en alla vega voru þeir snyrtilegir og hressir þegar við mættum til leiks morguninn eftir.

Þar biðu okkar heimamenn í UMFH, þeir eru með flott lið, tveir strákar sem höfðu gert gott mót, þeir Geir Helgason og Björgvin Jónsson. Við hinsvegar vorum vel vaknaðir og þá greinilega hefur Marteinn vaknað hressastur því hann byrjaði leikinn með tveim flottum körfum og kom okkur á bragðið. Staðan var 14-0 eftir fyrsta hluta og Kiddi búinn að halda besta manni heimamanni algjörlega niðri með frábærri vörn, sem hann reyndar spilaði allt mótið. Hrunamenn söxuðu aðeins á okkur í 2.hluta en í upphafi seinni hálfleiks sagði Viktor „let it rain!!!“ og lét þriggja stiga körfum rigna yfir um heimamenn og það sem meira er, hann gerði það með vinstri.
Eftir þetta var aldrei spurning hvar sigurinn endaði og við unnum sannfærandi sigur 51-35.
Stig Snæfells; Viktor 10 stig, Kristinn 9, Haukur 8, Ólafur og Kristófer 7, Marteinn 4, Hafsteinn 3 og Hinrik 2.

Nú var orðið ljóst að við færum upp um riðil þar sem við höfðum alltaf notað alla okkar menn og þannig fengið aukastig. Síðasti leikurinn var á móti Þór frá Akureyri sem eru með stóra og sterka stráka sem gætu orðið mjög góðir ef þeim verður sinnt vel og séu þeir samviskusamir. Tvíeykið Kiddi og Ólafur dagsins byrjuðu leikinn funheitir og komu okkur í ágæta stöðu. Þórsarar minnkuðu aðeins muninn en tvær körfur frá Nökkva Smára í öðrum hluta hluta héldu okkur á floti ásamt góðri vörn þar sem lítið var skorað. Ólafur sunnudagsins opnaði síðari hálfleik með snyrtilegri 3ja stiga körfu og sterkasti maður heims, Jón Páll kom svo með 2 körfur í röð, þar af önnur glæsileg 3ja stiga karfa, þarna skildu leiðir og við unnum öruggan sigur þar sem allir lögðu sitt í púkkið.
Stig Snæfells; Ólafur helgarinnar og Kristinn 14 stig hvor, Haukur 9, Nökkvi og Kristófer 7, Jón Páll 6, Viktor 5 og Hafsteinn 2.

Frábært mót hjá strákunum, þó maður sé ekki hlutlaus þá fannst mér okkar drengir hafa tekið mestum framförum frá síðasta móti. Sérstaklega var gaman að sjá til þeirra drengja sem mætt hafa vel á morgunæfingar. Þeir voru að hitta mjög vel og nokkuð stöðugt yfir mótið og eru allir dæmi þess að með því að æfa meira þá verður maður betri, sú staðreynd er reyndar fullsönnuð.

Þeir hafa bætt skotið mikið en mikið ofboðslega væri gaman ef helmingur af öllum skotæfingum færi ekki í að frákasta eða ná í tuðruna, þar kæmi skotvél sér einstaklega vel og myndi sérstaklega hjálpa þeim sem hafa mikinn áhuga og metnað að verða betri og nenna að æfa aukalega, fáir eða bara einir og óstuddir. Vonandi geta Snæfell og nokkrir áhugasamir aðilar komið sér saman um að fjárfesta í slíkri vél, það hlýtur að verða góð tilfinning í framtíðinni að sjá stráka og stelpur ná langt í körfunni, fá frítt háskólanám, fara í atvinnumennsku eða hvað sem það nú verður og geta hugsað til baka og vita til þess að maður hjálpaði til með einhverju fjárframlagi eða öðru sem tryggði svona skotvél í Hólminn. Vonandi verður svona vél komin sem allra fyrst hingað.

Þakka að lokum foreldrunum, Auður, Þorgrímur og Pétur sáu um drengina utan vallar og fóru létt með, enda komin með góða reynslu af svona ferðalögum.

Hlynur Bæringsson