Æfingaleikur Snæfellsstrákanna við Stjörnuna

Það fór fram hörkuleikur í Ásgarði í Garðabæ í dag, þar mættust Stjarnan sem ekki höfðu tapað leik á undirbúningstímabilinu og Ísland- og bikarmeistarar Snæfells.  Leikurinn var vel dæmdur af þeim Baldri Inga Jónassyni og Agnari Gunnarssyni en þeim er þökkuð þeirra vinnubrögð sem voru með miklum ágætum…….

Það fór fram hörkuleikur í Ásgarði í Garðabæ í dag, þar mættust Stjarnan sem ekki höfðu tapað leik á undirbúningstímabilinu og Ísland- og bikarmeistarar Snæfells.  Leikurinn var vel dæmdur af þeim Baldri Inga Jónassyni og Agnari Gunnarssyni en þeim er þökkuð þeirra vinnubrögð sem voru með miklum ágætum.
 
Jafnræði var á milli liðanna í fyrsta leikhluta þó svo að Snæfell hafi verið hálfu skrefi á undan á stigatöflunni.  Eftir að staðan hafði verið jöfn 18-18 sigldu gestirnir örlítið framúr og leiddu 21-26 eftir fyrsta leikhluta.  Daníel skoraði fyrir Stjörnuna en Nonni Mæju smellti niður tveimur þristum og Snæfell komnir níu stigum yfir 23-32. 
 
Marvin Valdimars og Fannar Helga voru drjúgir fyrir heimamenn og í stöðunni 33-35 sigldu Stjörnumenn framúr og leiddu í hálfleik 41-38.  Ágætis barátta var hjá leikmönnum og bæði lið að koma lag á sína hluti.  Emil og Nonni Mæju smelltu sitt hvorum þristinum í upphafi síðari hálfleiks en Stjörnumenn leiddu 48-44 þegar 4-21 áhlaup Snæfells datt í gang, liðið skoraði fimm þrista á mjög stuttum tíma af 18 í leiknum og leiddu 52-65.  Justin Shouse hélt áfram að berjast og dró sína menn áfram með mikilli baráttu, staðan eftir þrjá leikhluta 67-72 Snæfell í vil.  Nonni Mæju og Ryan komnir með fjórar villur sem og Marvin hjá Stjörnunni. 
 
Pálmi hóf fjórða leikhluta með þrist en Justin skoraði þá sjö stig í röð fyrir bláa og staðan 74-75.  Ryan setti niður langskot og kom muninum í þrjú stig.  Marvin skoraði en Emil svarar með spjaldið ofaní þrist og staðan 76-80 þegar um 3 mínútur voru eftir af leiknum.  Góðar körfur frá Guðjóni Lárussyni og Fannar Helgasyni jöfnuðu leikinn.  Sean Burton sem hafði leikið vel framan af kórónaði fínan leik með því að setja niður þrist og koma Snæfell í 80-83.  Marvin fékk tvö vítaskot og staðan 82-83, þá smellti Sean öðrum þrist og sá þriðji kom strax á eftir og staðan 82-89, lokatölur 84-89.
 
Stigaskor leikmanna:
Stjarnan: Justin Shouse 20 stig, Fannar Freyr Helgason 17, Jovan Zdreavevski og Marvin Valdimarsson 15, Guðjón Lárusson og Birgir Pétursson 6 og Daníel Guðmundsson 5.
 
Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 19 stig, Ryan Amoroso 17, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Sean Burton 16, Emil Þór Jóhannsson 13, Atli Rafn Hreinsson 5 og Sveinn Arnar Davíðsson 3.
 
Strákarnir leika á morgun gegn Hamarsmönnum í Hveragerði.