Meistararnir snéru taflinu sér í hag: Dramatískur lokasprettur í Röstinni

Íslands- og bikarmeistarar Snæfells gerðu rándýra ferð í Röstina í kvöld og lögðu heimamenn í Grindavík 86-90 í toppslag Iceland Express deildar karla. Þegar allt stefndi í Grindavíkursigur hrukku þeir Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Jón Ólafur Jónsson í gang og hreinlega stálu sigrinum í Grindavík. Sveiflukenndur baráttuleikur var á boðstólunum en gulir munu vísast eiga erfitt með svefninn í nótt eftir að hafa kastað frá sér tveimur afar dýrmætum stigum í kvöld.
Jafnt var á með liðunum, bæði nokkuð köld fyrstu andartök leiksins en svo hrundu stigin inn á færibandi þegar menn tóku að hitna. Í stöðunni 12-12 tóku gestirnir úr Hólminum frumkvæðið í fyrsta leikhluta, nýji maðurinn Zeljko Bojovic……

[mynd]

 
Íslands- og bikarmeistarar Snæfells gerðu rándýra ferð í Röstina í kvöld og lögðu heimamenn í Grindavík 86-90 í toppslag Iceland Express deildar karla. Þegar allt stefndi í Grindavíkursigur hrukku þeir Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Jón Ólafur Jónsson í gang og hreinlega stálu sigrinum í Grindavík. Sveiflukenndur baráttuleikur var á boðstólunum en gulir munu vísast eiga erfitt með svefninn í nótt eftir að hafa kastað frá sér tveimur afar dýrmætum stigum í kvöld.

Jafnt var á með liðunum, bæði nokkuð köld fyrstu andartök leiksins en svo hrundu stigin inn á færibandi þegar menn tóku að hitna. Í stöðunni 12-12 tóku gestirnir úr Hólminum frumkvæðið í fyrsta leikhluta, nýji maðurinn Zeljko Bojovic var að finna sig í sínum fyrsta leik í rauðu og skoraði 13 stig í fyrsta leikhluta og þar lágu m.a. þrír þristar.
 
Kevin Sims var með 10 stig eftir fyrsta leikhlutann í Grindavíkurliðinu en Hólmarar leiddu 25-28 eftir fyrstu 10 mínúturnar þar sem gestirnir fundu taktinn í skotum sínum fyrir utan en réðu illa við Ryan Pettinella miðherja Grindavíkur í teignum.
 
Atli Rafn Hreinsson kom Hólmurum 9 stigum yfir með þriggja stiga körfu eftir tveggja mínútna leik í öðrum leikhluta, Helgi Jónas tók þá leikhlé fyrir Grindvíkinga en útlitið átti aðeins eftir að versna. Jón Ólafur Jónsson breytti stöðunni í 29-41 með þriggja stiga körfu og vörn heimamanna víðsfjarri.
 
Grindavík náði þó að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og minnka muninn í 8 stig, 35-43 en þá tóku gestirnir á rás og lokuðu fyrri hálfleik með 3-10 áhlaupi og staðan 38-53 í hálfleik eftir að Sean Burton prjónaði sig í gegnum Grindavíkurvörnina og lagði boltann ofaní um leið og hálfleiksflautan gall.
 
Zeljko Bojovic var stigahæstur Hólmara með 15 stig í hálfleik og 7 fráköst og ekki langt undan var Jón Ólafur Jónsson með 14 stig og 7 fráköst. Hjá Grindavík var Ryan Pettinella með 15 stig og 10 fráköst og Kevin Sims 10 stig.
 
Allt annað Grindavíkurlið mætti í síðari hálfleikinn, vörn heimamanna var þétt og gestirnir sigu á hælana. Grindvíkingar með Ryan Pettinella fremstan í flokki skoruðu 16 fyrstu stig síðari hálfleiks og komust í 54-53! Gestirnir úr Hólminum áttu aldrei svör við Pettinella í kvöld sem skoraði að vild.
 
Það tók Snæfell fimm mínútur að skora í þriðja leikhluta og þegar fyrstu stigin komu var ekki lengi að bíða þeirra næstu og leiddu Hólmarar 67-68 eftir þriðja leikhluta sem Grindavík vann 29-15 og töluverð læti komin í kofann enda von á góðum lokasprett sem og varð raunin.
 
Liðin önduðu ofan í hálsmálið á hvoru öðru allan fjórða leikhluta en Grindvíkingar slitu sig frá, náðu góðum hraðaupphlaupum eftir slakar sóknir gestanna og leiddu 82-74 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell og eitthvað hefur gullkálfurinn í Hólminum sagt rétt við sína menn sem komu grimmir inn í lokapsrettinn enda ekki annað í boði þar sem Snæfell átti ekki fleiri leikhlé eftir.
 
Pálmi Freyr var kæruleysislega skilinn eftir strax í fyrstu sókn Snæfells eftir leikhléið og hann þakkaði fyrir sig með þrist, satðan 82-77. Pálmi var aftur á ferðinni er hann minnkaði muninn í 84-83 með þriggja stiga körfu og 1.17mín til leiksloka. Það sauð á Helga Jónasi Guðfinnssyni þjálfara Grindavíkur á hliðarlínunni enda hans menn í tvígang úti á túni þegar Pálmi fær þægileg þriggja stiga skot.
 
Til þess að bæta gráu ofan á svart hjá Grindvíkingum splæsti Jón Ólafur Jónsson í baneitraðan þrist og breytti stöðunni í 84-86. Grindavík missti boltann í næstu sókn, brotið á Burton sem breytti stöðunni í 84-88 þar sem Snæfell var komið með skotrétt. Grindavík reyndi erfiðan þrist í næstu sókn sem geigaði og Burton lokaði svo leiknum á vítalínunni fyrir Hólmara, 86-90. Þrír magnaðir þristar hjá Pálma og Jóni sem dugðu til þess að færa meisturum Snæfells trú á lokasprettinum þegar allir, nema Ingi Þór og hans menn, höfðu haldið að Grindavík myndi hirða stigin í kvöld.
 
Vert er að minnast á þriggja stiga skotnýtingu heimamanna í kvöld en hún taldi heil 8%! Grindavík setti aðeins niður 2 af 24 þristum sínum í leiknum en tórðu inni allan leikinn þökk sé skrímslatvennu Ryans Pettinella með 35 stig og 20 fráköst.
 
Snæfell er því á toppi deildarinnar með 28 stig en Grindavík er í 2.-4. sæti með Keflavík og KR en Keflavík hafði öruggan sigur á Fjölni í kvöld.
 
Þeir Emil Þór Jóhannsson og miðherjinn Ryan Amoroso fylgdust meiddir með af Snæfellsbekknum í kvöld á meðan Jón Ólafur Jónsson og nýji maðurinn Zeljko Bojovic gerðu 48 af 90 stigum Hólmara. Samkvæmt heimildum Karfan.is styttist biðin í Ryan og Emil og ekki ósennilegt að öðrum hvorum þeirra bregði fyrir í næstu umferð.