Snæfell sigraði eftir slaka byrjun

ÍR mætti í Hólminn fullir sjálfstrausti enda vel mannaðir fyrir veturinn en voru án Sveinbjörns Claesen og þjálfarans Jóns Arnars Ingvarssonar sem var frá vegna veikinda og stýrði Steinar Arason aðstoðarmaður hans liðinu. Með góðum hraða og krafti í vörninni komust gestirnir í 4-10 eftir að Eric Palm og D´Andre Jordan Williams settu sinn þristinn hvor og Snæfellingar á hælunum í vörninni og Williams að stjórna leik ÍR vel. Snæfellingum gekk herfilega að komast í gang en hægt og bítandi sigu þeir nær þegar Nonni Mæju svaraði þristi Þorvaldar Hauksonar og staðan var 19-22 fyrir ÍR sem voru harðir í horn að taka eftir fyrsta hluta sem Snæfellingar vilja gleyma sem fyrst……

ÍR mætti í Hólminn fullir sjálfstrausti enda vel mannaðir fyrir veturinn en voru án Sveinbjörns Claesen og þjálfarans Jóns Arnars Ingvarssonar sem var frá vegna veikinda og stýrði Steinar Arason aðstoðarmaður hans liðinu. Með góðum hraða og krafti í vörninni komust gestirnir í 4-10 eftir að Eric Palm og D´Andre Jordan Williams settu sinn þristinn hvor og Snæfellingar á hælunum í vörninni og Williams að stjórna leik ÍR vel. Snæfellingum gekk herfilega að komast í gang en hægt og bítandi sigu þeir nær þegar Nonni Mæju svaraði þristi Þorvaldar Hauksonar og staðan var 19-22 fyrir ÍR sem voru harðir í horn að taka eftir fyrsta hluta sem Snæfellingar vilja gleyma sem fyrst.

Snæfell komst fyrst yfir 27-26 en Nemjana Sovic svaraði því með þremur 27-29. Asim McQueen var að detta inn í leikinn eftir bras í fyrsta hluta þar sem klaufagangur einkenndi reyndar flesta í hans liði. Hann var seinn í gang en komst á ágætis skrið og fór að taka til sín og átti slæma lendingu á parketinu eftir að Þorvaldur Hauksson braut óíþróttamannslega. ÍR virtist slaka á klónni þegar D´Andre Williams var kominn í villuvandræði og vermdi bekkinn en Snæfell gekk á lagið og komst yfir í 40-35 en ekki auðveldlega þó. Þegar Hreggviður gaf færi á sér í tæknivillu komst Snæfell í 46-37 og staðan í hálfleik 48-39. Stigahæstir í hálfleik Nonni Mæju með 15 stig fyrir Snæfell og Eric James Palm með 13 stig fyrir ÍR.

Snæfell átti fantabyrjun í þriðja hluta skoraði 13-0 og staðan fljótt 22 stig 61-39 og ÍR-ingar virkuðu þreyttir og voru ráðalausir í sókn og vörn. ÍR tók sig lítið saman í andlitinu og Snæfell komst ekki lengra í bili en orkan fór í að elta muninn uppi og eftir að Williams fór útaf með fimm villur var leikur ÍR ekki burðugur og fáir ef nokkur steig upp í hans fjarveru. Gríðalegt magn af sóknarvillum fauk á bæði lið í þriðja hluta og ekki af því að það er stækkandi straumur á Breiðafirði en kannski þess vegna sem tæknivillur hlóðust á ÍR sem voru orðnir pirraðir og staðan 76-47 fyrir Snæfell eftir þriðja hluta og urðu algjörlega yfiráðandi í leiknum.

Það var í raun barátta fram og til baka í fjórða hluta en 30 stiga munur Snæfells á kafla 84-54 var orðin staðreynd og ekkert í kotunum sem sagði að ÍR kæmu til baka. Undirritaður átti von á jafnari leik í kvöld og kom ÍR liðið svolítið á óvart hvað þeir brotnuðu við mótlætið þó fjórði hluti væri öllu jafnari en þeir tveir á undan. Eric Palm var óhræddur á troða yfir Snæfell undir lokin en Asim McQueen hafði rétt áður átt eina hálofta. Stóru strákarnir í Snæfelli komu sér hægt inn í leikinn og réðu svo flestu i teignum með 49 fráköst gegn 26 ÍR. Leikurinn endaði 96-77 fyrir Snæfell sem sýndu klærnar þegar á leikinn leið en enginn skal afskrifa ÍR í vetur þrátt fyrir allt.

Stigaskor Snæfell: Jay Threatt 24/6 frák/8 stoð. Asim McQueen 22/14 frák. Nonni Mæju 18/5frák. Pálmi Freyr  14/4 frák. Hafþór Ingi 6/5 frák Ólafur Torfason 5/9 frák. Stefán Karel 5. Sveinn Arnar 2. Kristinn Einar(Tinni), Magnús, Óttar og Kristófer skoruðu ekki.

Stigaskor ÍR: Eric Palm 26. Nemjana Sovic 12/4 frák. Hreggviður Magnússon 12. Þorvaldur Hauksson 10. D´Andre J. Williams 9. Hjalti Friðriksson 4/9 frák. Ellert Arnarson 2/5 frák. Vilhjálmur Theódór 2. Ólafur, Friðrik, Tómas og Þorgrímur skoruðu ekki.

Þjálfarar liðanna voru að sjálfsögðu misbrattir eftir slíkann leik sem Snæfell – ÍR var, þar sem Snæfell sigraði 96-77. Steinar Arason sem stjórnaði liðinu í fjarveru Jóns Arnars sagði að hann hafi verið ánægður með liði í upphafi en að leikur liðsins hafi riðlast verulega eftir að D´Andre hafi spilað lítið í öðrum og þriðja hluta vegna villuvandræða.

”Hann [innsk. blm: D´Andre] stýrir sóknarleiknum hjá okkur og er leiðtogi en í þriðja hluta mættum við bara alls ekki til leiks, skelfilega flatir, spilum ekki kerfin og þeir rúlla okkur upp í fráköstum. Það vantaði svo bara marga til að stíga upp í kvöld hjá okkur.”

Ekki er annað hægt að segja en að ÍR sé þokkalega mannað lið og varla þetta sem koma skal hjá Breiðhyltingum?

” Við erum bara fínt lið og vorum með sjálfstraust fyrir leikinn og ætluðum að ná hérna í tvö stig. Við erum með þéttann hóp og kannski erfitt þegar annar kaninn spilar lítið eftir fjórðu villuna strax í seinni hálfleik og svo fimmtu í lok þriðja hluta og vantaði fleiri til að stíga upp.”

Það var eins og Snæfellingar hefðu ekki mætt í húsið í fyrsta hluta með fjöldann af slökum sendingum, ráðvilltum sóknum og lélegri vörn og Ingi Þór tók undir það.

”Við komum of flatir til leiks og náðum aldrei að fylgja þeirra byrjun en um leið og við náðum að kveikja aðeins í okkur og fá þetta stopp þá fengum við smjörþefinn af þessu sem lá meiraí öðrum hluta en í þriðja hluta vinnum við 28-8 og við lögðum grunninn þar og náðum að spila okkar leik þar. Haffi, Óli og Stefán voru að koma með hörkubaráttu af bekknum og það sýnir breiddina og ég er mjög ánægður með að hafa komi til baka og sigrað hér í fyrsta leik eftir flata byrjun”

Umfjöllun og viðtöl

Símon B. Hjaltalín