KR launaði Snæfelli lambið gráa

Allnokkrir lögðu leið sína á Fimm Fiska til að horfa á leikinn og var góð stemning þó auðvitað vildi fólk sjá betri leik hjá sínum mönnum.

Heimamenn í KR tóku frumkvæðið snemma í kvöld þegar Snæfell var í heimsókn í Lengjubikarnum. Þegar 40 mínútum var lokið stóðu röndóttir uppi sem sigurvegarar, 90-67. Kvalarar KR úr Stykkishólmi voru flatir og hittu illa og heimamenn að sama skapi þéttir og tilbúnir í átök. Nú velta margir því fyrir sér hvort risinn sofandi sé vaknaður. Martin Hermannsson var að minnsta kosti vel vakandi og fór fyrir KR í kvöld með 19 stig…..

Heimamenn í KR tóku frumkvæðið snemma í kvöld þegar Snæfell var í heimsókn í Lengjubikarnum. Þegar 40 mínútum var lokið stóðu röndóttir uppi sem sigurvegarar, 90-67. Kvalarar KR úr Stykkishólmi voru flatir og hittu illa og heimamenn að sama skapi þéttir og tilbúnir í átök. Nú velta margir því fyrir sér hvort risinn sofandi sé vaknaður. Martin Hermannsson var að minnsta kosti vel vakandi og fór fyrir KR í kvöld með 19 stig.

KR leiddi 47-35 í hálfleik þar sem Brynjar Þór var kominn með 14 stig og Martin 10. Asim var með 8 hjá Snæfell og þeir Jón Ólafur og Sveinn Arnar báðir með 7 stig.

Æðibunugangur var á báðum liðum í upphafi síðari hálfleiks og tilheyrandi mistök sem fylgdu í kjölfarið. Brynjar Þór og Helgi fengu báðir sínar fjórðu villu í leikhlutanum og sáust lítið eftir það. Þessi villuvandræði landsliðsmannanna komu að lítilli sök því heimamenn í KR höfðu fyrir margt löngu plantað sér þægilega í bílstjórasætið.

Kristófer Acox átti lipra spretti með KR í kvöld og skilaði af sér 14 stigum og 7 fráköstum en hann og Martin Hermannsson fóru fyrir KR í síðari hálfleik. Röndóttir voru mun þéttari fyrir í kvöld, börðu vel frá sér og voru ófeimnir við snertinguna á meðan skapið virtist hanga á stuttum þræði hjá gestunum sem hittu illa í kvöld. Snæfell setti aðeins niður þrjá þrista í kvöld en síðast þegar þeir mættu í DHL Höllina settu þeir met á leiktíðinni og skelltu niður 15 stykkjum. Staðan að loknum þriðja leikhluta 66-49 fyrir KR.

Munurinn fór fljótt upp í 20 stig í fjórða leikhluta og þannig héldust leikar allt þar til lokaflautið gall. Nokkuð þungu fargi örugglega létt af heimamönnum sem voru mun líkari sjálfum sér í kvöld en upp á síðkastið. Góð barátta, menn ófeimnir við að spila stíft og fá villur og keyra svo upp hraðann og þannig refsuðu þeir gestum sínum margsinnis í kvöld.

Tölfræði leiksins

 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]