Nýárspistill formanns körfuknattleiksdeildar Snæfells

Ágæta stuðningsfólk Snæfells

 

Það var örugglega djúphugsuð ákvörðun þegar félagi okkar, Sigurður Helgason skólastjóri, ákvað ásamt fleiri Snæfellingum að körfubolti yrði vetrarboltagreinin hér í Hólminum upp úr 1950. En af hverju körfubolti? Jú á þeim tíma voru 4 leikmenn inná hverju sinni, íþróttahúsin þurftu ekki að vera mjög stór og körfuboltinn var mikið stundaður í skólaíþróttum. Allt þetta ásamt ýmsu öðru hentaði Hólminum best  á þeim tíma og gerir í raun enn…..

Ágæta stuðningsfólk Snæfells

 

Það var örugglega djúphugsuð ákvörðun þegar félagi okkar, Sigurður Helgason skólastjóri, ákvað ásamt fleiri Snæfellingum að körfubolti yrði vetrarboltagreinin hér í Hólminum upp úr 1950. En af hverju körfubolti? Jú á þeim tíma voru 4 leikmenn inná hverju sinni, íþróttahúsin þurftu ekki að vera mjög stór og körfuboltinn var mikið stundaður í skólaíþróttum. Allt þetta ásamt ýmsu öðru hentaði Hólminum best  á þeim tíma og gerir í raun enn.

 

Það var glæsilegt karlalið Snæfells sem spilaði á Landsmótinu að Laugarvatni árið 1965 í glansbúningunum frægu (myndina er hægt að sjá í íþróttahúsinu) og öll árin síðan þá, hafa komið upp dugmiklir leikmenn, bæði karlar og konur sem náð hafa frábærum árangri í körfunni sem eftir hefur verið tekið.

 

Já það eru nefnilega ekki mörg rúmlega eittþúsund manna bæjarfélög sem státað geta af slíku og þori ég að fullyrða að mörg sveitarfélög af svipaðri stærð myndu sannarlega kjósa að vera í okkar sporum. Það eru forréttindi að hafa möguleika á að vera þátttakandi í slíku félagsstarfi.

 

Þeir eru margir sem hafa tjáð sig bæði í töluðu sem og rituðu máli um hina miklu menningu er hefur verið hér í tugi ára, tónlist, leiklist, trúarstarf, skátastarf, björgunarsveit svo ekki sé talað um hverskyns íþróttir. Við eigum að gleðjast yfir öllu slíku og aðstoða hvert annað að efla alla menningu enn frekar. Þegar fólk tekur ákvörðun að flytja á nýjan stað þá skipta einmitt þessir þættir gríðarlega miklu máli. Menning verður ekki til af sjálfu sér í þeim mæli sem hún er hér í Hólminum.  Við verðum að búa hana til sjálf og hlúa að henni eins og öðru er okkur þykir vænt um og við viljum viðhalda – fyrir okkur sjálf.

 

Um leið og ég, fyrir hönd körfuknattleiksdeildar Snæfells, óska ykkur gleðilegs nýs árs, þakka ég ykkur ómetanlegan stuðning við íþróttastarfið okkar.       
Við vonum að þið haldið áfram að vera með okkur í liði, því eingöngu þannig náum við að viðhalda því sem að við ákváðum í upphafi – að gera alltaf okkar besta.
Sjáumst hress og kát og endalaust jákvæð á menningarviðburðum okkar á nýju ári og munið ÁFRAM SNÆFELL út um allan heim !

 

Gunnar Svanlaugsson, formaður kkd. Snæfells