Dagur 3 í Danmörku – Bæði lið töpuðu í jöfnum leikjum

Leikmenn beggja liða hittust í almenningsgarði þar sem létt hópefli var í gangi og heimsótti Karl Jónas Smárason sálfræðingur / Hólmari hópinn og ríkti almenn ánægja með hittingin sem var í ljómandi fínu veðri á Fredriksberg.  Liðin héldu svo uppá hotel þar sem undirbúningur fyrir leiki kvöldsins hófst.

 

Stelpurnar léku fyrst gegn EOS frá svíþjóð, en eftir sigurleikinn gegn SISU í gær voru dömurnar fullar sjálfstraust og tilbúnar í slaginn.  Dömurnar okkar léku engu að síður illa framan af og komust þær sænsku yfir 12-18 og leiddu 16-22 eftir fyrsta leikhluta.  Stelpurnar sýndu góða baráttu í upphafi annars leikhluta og komust yfir 27-29 en EOS leiddu 33-34 í hálfleik.  Í þriðja leikhluta komust sænsku dömurnar aftur yfir en af harðfylgi jöfnuðu Snæfell leikinn þegar Rebekka Rán sem lék mjög vel í dag skoraði eftir hraðupphlaup og staðan 50-50 eftir þrjá leikhluta.  Stelpurnar hófu fjórða leikhluta af krafti en Rebekka smellti niður þrist og kom Snæfell yfir 57-54 og mest í 61-56.  Sóknarleikurinn varð stirður í lokamínútunum og stelpurnar kláruðu ekki færin sín.  Spennandi lokamínútur þar sem EOS dömurnar voru öruggar á vítalínunni kom þeim yfir 67-69 og 0.9 sekúndur eftir.  Hugrún Eva fékk ágætis möguleika en skotið skoppaði af hringnum og sigur EOS staðreynd.

 

Stelpurnar eiga sinn síðasta leik á morgun gegn Åbyhoj en breyta þurfti mótinu og því verður leikur stúlknanna snemma í fyrramálið eða klukkan 8 að íslenskum tíma.

 

Stigaskor Snæfells: Chynna Brown 21 stig, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir  15, Hildur Sigurðardóttir 10, Eva Margrét Kristjánsdóttir 8, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 5, Rebekka Rán Karlsdóttir 5, Aníta Rún Sæþórsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0, Edda Bára Árnadóttir 0, Helena Helga Baldursdóttir 0.

 

 

Strákarnir töpuðu fyrir Næstved með döprum leik

 

Eftir fínan sigur á SISU í gærkvöldi mætti liðið gríðarlega hávöxnu liði frá Næstved en þar er nánast allt nýtt, liðið með tvo kana og þjáfaralínan alveg ný þar sem okkar maður Geoff Kotila hætti að þjálfa liðið í sumar vegna anna.

 

Okkar menn höfðu frumkvæðið í byrjun en Næstved svöruðu fyrir sig og refsuðu Snæfell fyrir lélegar sendingar og staðan 23-22 Snæfell í vil eftir fyrsta leikhluta.  Í öðrum leikhluta náðu Næstved yfirhöndinni og voru skrefinu á undan, Finnur Atli jafnaði leikinn um leið og klukkan rann út í fyrri hálfleik og staðan 41-41.

Í síðari hálfleik var áfram jafnt á meðal liðanna, Snæfell náði mest sjö stiga forystu sem hvarf fljótt með töðuðum boltum og með hörðum leik komust Næstved yfir 62-68 eftir þrjá leikhluta.  Snæfell voru að elta allan tímann og leikmenn liðsins voru ekki fullkomnlega tengdir við leikinn og hvorn annan.  Það skilar aldrei árangri og því var 81-88 tap staðreynd.

Það var ánægjulegt að Pálmi Freyr Sigurgeirsson lék á ný en hann var með smávægileg meiðsli gegn ÍR og í gærkvöld gegn SISU.

Þá eru tveir leikir eftir hjá karlpeningnum, en karlaliðið leikur á morgun klukkan 14:00 gegn Borås frá svíþjóð en U20 ára liðið leikur gegn SISU á sama tíma.

 

Ritarar í karlaleiknum voru ekki að sigra heiminn og leikskýrslan í tómu rugli og ekki staðfest að stigaskor leikmanna sé 100% rétt.  Við hinsvegar ætlum að skrá það sem á leiksskýrslunni stendur.

 

Stigaskor: Jón Ólafur Jónsson 21 stig, Jamarco Warren 20, Sigurður Ágúst Þorvaldsson 17, Sveinn Arnar Davíðsson 8, Stefán Karel Torfason 5, Finnur Atli Magnússon 4, Pálmi Freyri Sigurgeirsson 2, Hafþór Ingi Gunnarsson 0, Kristján Pétur Andrésson 0, Snjólfur Björnsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Viktor Marínó Alexanderson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0, Óttar Sigurðsson 0 og Kristinn Einar Guðmundsson 0.