Dagur 4 í Danmörku

Stelpurnar sigruðu síðasta leikinn sinn í Danmörku…

Þá er leikjum Snæfellsliðanna lokið hér í danmörku en í dag voru þrír leikir á dagskrá, einn hjá kvennaliðinu og tveir hjá körlunum.  Stelpurnar áttu að spila klukkan 16:00 en vegna breytinga sem gera þurfti á mótinu var leikur þeirra klukkan 10:00 í staðinn gegn Åbyjøj frá danmörku.  Strákarnir í u-21 spiluðu gegn SISU á sama tíma og karlaliðið spilaði gegn fyrnasterku liði Borås frá svíþjóð.

 

Snæfellsstelpurnar sem töpuðu í gær fyrir EOS í hörkuleik 67-69 voru mættar tilbúnar í leikinn gegn Åbyhøj og var það eins gott þar sem þær dönsku spiluðu mjög fast og okkar dömur réðu vel við þau læti.  Jafnræði var á milli liðanna en Åbyhøj náðu að síga fram úr í lok fyrsta leikhluta og leiddu 15-20. Þær héldu áfram að bæta í forystuna og skoruðu að vild og staðan 15-24 þegar Snæfellsstelpurnar breyttu varnarleik sínum.  Þær náðu að snúa leiknum sér í hag eftir að staðan var 21-29 og leiddu í hálfleik 31-29 með frábærri baráttu.

 

Stelpurnar fengu mikið sjálfstraust úr varnarleiknum og í stöðunni 41-38 fyrir Snæfell kom Chynna Brown með 10 stig í röð og staðan 51-39 eftir þrjá leikhluta.  Baráttan og varnarfærslurnar voru til fyrirmyndar og stelpurnar leiddu 44-58.  Þá kom hik í sóknarleik liðsins og þær dönsku náðu að minnka muninn í 5 stig 53-58.  Chynna setti næstu stig og þær Guðrún Gróa og Hildur Sig lokuðu leiknum fyrir Snæfell sem sigruðu 66-63 eftir að lokaskot dananna fór niður nánast frá miðju.

 

Stigaskor Snæfells: Chynna Brown 25 stig, Hildur Sigurðardóttir 17, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 13, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 8, Eva Margrét Kristjánsdóttir 5, Edda Bára Árnadóttir 2, Aníta Rún Sæþórsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0, Helena Helga Baldursdóttir 0.

 

Stelpurnar léku fjóra leiki og var stígandi í leik liðsins, framundan er þétt program en á þriðjudag mæta þær KR á heimavelli, á fimmtudag Haukum á útivelli og á laugardag er lokaleikur þeirra í riðlakeppni Lengjubikarsins gegn Njarðvík á heimavelli.

 

Karlpeningurinn lék á sama tíma.

U-23 ára liðið lék gegn SISU og hinum megin lék karlaliðið gegn fyrnasterku liði Borås frá svíþjóð.

Gunnlaugur Smárason afmælisbarn ferðarinnar sem var 30 á laugardaginn hélt uppá daginn og stýrði yngra liðinu gegn SISU, flott barátta var í strákunum og komust þeir yfir 5-17 í fyrsta leikhluta áður en heimamenn minnkuðu muninn í 15-17 sem var staðan eftir fyrsta leikhluta.  21-0 kafli heimamanna úr stöðunni 5-17 kom þeim í bílstjórasætið og leiddu þeir í hálfleik 39-25.  Okkar menn náðu að minnka muninn í tíu stig í lok þriðja leikhluta og staðan 50-40.  Í stöðunni 59-49 setti Kristján Pétur niður þrjá þrista og Viktor Marínó bætti við  körfu og staðan orðin 63-60 og skammt til leiksloka.  Heimamenn voru sterkari í lokin og lönduðu 65-72 sigri.  Barátta strákanna og viljinn til að vinna var til staðar og seinni hálfleikurinn mun betur spilaður.

Stigaskor Snæfells: Kristján Pétur Andrésson 24 stig, Þorbergur Helgi Sæþórsson 13, Viktor Marínó Alexandersson 8, Snjólfur Björnsson 7, Unglingurinn Baldur Þorleifsson 6, Kristinn Einar Guðmundsson 5, Jóhann Kristófer Sævarsson 2, Óttar Sigurðsson 0, Gunnlaugur Smárason 0 og Arnþór Pálsson 0.

 

Karlaliðið lék gegn Borås frá svíþjóð

Jón Ólafur Jónsson smellti niður risaþrist til að opna leikinn en hann var atkvææamestur í sókninni einsog svo oft áður en jafnræði var á meðal liðanna í fyrsta leikhluta 19-22 eftir fyrsta leikhluta.  Þrír þristar í röð frá þeim sænsku komu þeim í þægilega stöðu og leiddu þeir annan leikhluta með þetta 9 til 11 stig.  Síðustu sex stig fyrri hálfleiks voru Boråsmanna og staðan 34-50.  Þriðja leikhlutann unnu svíarnir 17-28 og bættu vel við forystuna.  Snæfell á þessum tíma fengu mikið af hraðupphlaupum á sig og svíarnir stýrðu leiknum.  Leikmenn Snæfells lögðust ekkert niður enda ekki þekktir fyrir þá iðju, þeir ætluðu sér að sigra fjórða leikhlutann semog þeir gerðu 21-18 og lokatölur 72-96 fyrir þá sænsku.

 

Stigaskor Snæfells: Jón Ólafur Jónsson 28 stig, Jamarco Warren 15, Stefán Karel Torfason 9, Sigurður Ágúst Þorvaldsson 7, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 6, Finnur Atli Magnússon (afmælisbarn) 5, Sveinn Arnar Davíðsson 3, Hafþór Ingi Gunnarsson (afmælisbarn sunnudagsins) 0, Kristján Pétur Andrésson 0.

 

Frábærri ferð lokið með góðum leikjum sem eiga eftir að nýtast liðinu vel inn í slagsmálin sem verða í vetur, liðið fékk að vita hvað þarf að laga og nú er það verkefni allra að smyrja hlutina saman fyrir veturinn.

 

Framundan eru lokaleikirnir í Lengjubikarnum.  Fyrst eru það KR-ingarnir sem mæta í heimsókn þriðjudaginn 17. September klukkan 20:00 á eftir stelpunum, síðan eru það tveir útileikir, Breiðablik á föstudag og KR á sunnudag.  Það eru því nóg verkefni framundan.